Orka náttúrunnar og Silicor Materials hafa undirritað samning sem hljóðar upp á sölu á 40 MW, og er þetta fyrsti stóriðjusamningur sem Orka náttúrunnar gerir. Silicor Materials hyggst reisa silikonverksmiðju á Grundartanga. Sjá nánar hér á vef ON.
Fréttir
Fréttir
Jarðhitafélag Íslands styrkir háskólanema
Líkt og undanfarin ár styrkir Jarðhitafélag Íslands háskólanema í jarðhitatengdu námi til að sækja fjölþjóðlega jarðhitaráðstefnu, að þessu sinni 2 styrki um allt að kr. 300 þúsund hvor styrkur. Niðurstaða stjórnar JHFÍ var sú að styrkina hlytu Elvar Bjarkason, doktorsnemi í jarðhitaverkefni við University of Auckland í Nýja Sjálandi og Sigrún Brá Sverrisdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Frekari upplýsingar má finna hér á heimasíðu JHFÍ.
Er ávinningur af raforkustreng til Bretlands? – Fundur 22. september
Þriðjudaginn 22. september býður bresk-íslenska viðskiptaráðið til opins fundar um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands undir yfirskriftinni Interconnecting Interests. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og hann munu m.a. ávarpa Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fulltrúar Greenpeace í Bretlandi og orkufyrirtækjanna PowerBridge og National Grid. Sjá nánar um fundinn og skráningu hér.
Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir
Á Dalvík var haldinn kynningarfundur, 8. september s.l. um mögulega virkjunarkosti í byggðarlaginu. Fundurinn var fjölsóttur og kom fram mikill áhugi fundarmanna um orkumál bygðarlagsins og landsins í heild.
Afhending á raforku mögulega takmörkuð vegna veðurfars
Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum að mögulega verði dregið úr afhendingu á raforku, ef ástand í vatnsbúskapnum batnar ekki á næstu vikum. Stóriðjufyrirtækin hafa, samkvæmt samningum, einn mánuð til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Enn ríkir óvissa um takmörkun orkuafhendingar, en miðað við meðalhorfur um fyllingu lóna og meðalrennsli í vetur má reikna með að orkusala Landsvirkjunar geti dregist saman um 3,5% í vetur. Reynt verður að laga útfærslu aðgerðanna að þörfum viðskiptavina eins og mögulegt er, líkt og fram kemur í nánari umfjöllun hér á vef Landsvirkjunar.
Námskeið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika
Þann 2. október næstkomandi verður haldið á vegum Endurmenntunar HÍ námskeiðið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika. Námskeiðið mun fjalla um „nýjar leiðir við meðferð ofanvatns sem hafa verið innleiddar víða um heim. Þetta eru svokallaðar blágrænar eða sjálfbærar ofanvatnslausnir. Kostir þeirra eru öruggara veitukerfi, betra umhverfi í þéttbýli og heilbrigðari og sjálfbærari vatnsbúskapur“. Skráning á námskeiðið og frekari upplýsingar má finna hér á heimasíðu Endurmenntunar.
Hvernig mótar orkulandslag umhverfið? – Opinn Fundur Landsvirkjunar og FILA
Stórum framkvæmdum fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem sjónræn áhrif geta orðið umtalsverð. Landsvirkjun býður í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta til opins fundar fimmtudaginn 3. september kl. 13:30 á Hilton Reykjavík Nordica, þar sem fjallað verður um hvernig skapa má jafnvægi milli landslags, landmótunar og orkunýtingar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
Samorka heldur 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna 28.-30. september 2016
Samorka mun á næsta ári, í samstarfi við norræn samtök vatnsveitna, halda á Íslandi 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna (e. Nordic Drinking Water Conference). Ráðstefnan verður haldin dagana 28.-30. september 2016 í salnum Silfurbergi í Hörpu. Aðildarfélagar í Samorku og almennt sérfræðingar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að taka dagana frá og skoða hvort að mögulega hafi þeir áhugaverð verkefni, rannsóknir og fleira, sem þeir hefðu áhuga á að kynna á ráðstefnunni. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna verða kynntar seinna í haust.
Tenging yfir hálendið besti valkosturinn
Tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og austurs er besti valkosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar, með stöðugleika að leiðarljósi. Þetta er niðurstaða nýrrar kerfisáætlunar Landsnets. Frestur til að gera athugasemdir við áætlunina og umhverfisskýrslu hennar er til 1. september 2015. Sjá nánar hér á vef Landsnets.
Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða afhent miðvikudaginn 30. september fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA standa sameiginlega að. Óskað er eftir tilnefningum til umhverfisverðlaunanna fyrir 9. september. Umhverfisfyrirtæki ársins 2015 verður útnefnt auk þess sem Framtak ársins 2015 í umhverfismálum verður verðlaunað. Sjá nánar hér á vef SA.