Opnað á umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda

Ný fráveita Norðurorku á Akureyri

Samorka vekur athygli á því að opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda.

Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%.

Umsóknum skal fylgja verk- og tímaáætlun fyrir þá áfanga framkvæmdar sem sótt er um styrk fyrir og uppfærðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað frá samþykktri áætlun eftir því sem við á, auk afrita af greiddum reikningum eftir atvikum.

Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til 31. mars 2021. Skila skal inn umsóknum á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Sjá nánari upplýsingar um skilyrði fyrir styrki í auglýsingu á vef Stjórnarráðsins.

Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið!

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Í dag, 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins, World Toilet Day. Honum er ætlað að vekja athygli á og vinna að sjálfbærnimarkmiði númer 6 hjá Sameinuðu þjóðunum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða.  Í ár er þema dagsins „Sjálfbært hreinlæti og loftslagsbreytingar“.

Á Íslandi er gott aðgengi að klósetti. Hins vegar er úrgangur í fráveitu vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári. Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Hér má sjá lag með þessum einföldu skilaboðum:

Kynningarefni ásamt nánari upplýsingum um verkefnið má finna á heimasíðunni klosettvinir.is.

Kallað eftir erindum á NORDIWA 2021

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2021, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Gautaborg í Svíþjóð dagana 28. – 30. september 2021.

Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 28. janúar 2021. Nánari upplýsingar um helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar og hvernig eigi að senda inn tillögu að erindi eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál að senda inn erindi.

Fráveitustöð óstarfhæf vegna blautklúta

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.

Nú er svo komið að stöðva hefur þurft dælur og verið er að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar.

Veitur sendu frá sér tilkynningu vegna þessa á föstudag þar sem fólk var hvatt til að henda alls ekki rusli eins og blautklútum í klósett, heldur í ruslið. Ekki bar sú hvatning tilætlaðan árangur að því er virðist.

 

Mikil aukning á blautklútum í fráveitukerfinu

Gríðarlegt magn af rusli berst nú í hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Klettagörðum og í Ánanaustum, samkvæmt tilkynningu frá Veitum. Magn blautklúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og skapar það mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk. Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu og þegar álag er mikið aukast líkur á bilunum í búnaði með tilheyrandi afleiðingum.

Við hvetjum fólk til að nota ekki klósettin sem ruslafötur. Blautklútar, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga heima í ruslinu.

Fráveitan er málið

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Fráveitan er málið
Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismálið og snýr bæði að lýðheilsu og góðri umgengni við náttúruna. Á undanförnum áratugum hafa sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eigu lyft grettistaki í að bæta fráveitukerfi og fjölga skólphreinsistöðvum víða um land. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem búa við skólphreinsun úr 6% í 68%. Árið 2018 var hlutfallið komið í 79%, þegar uppbyggingu skólphreinsunar lauk á Akranesi og í Borgarnesi og hefur hlutfallið haldist nær óbreytt síðan.

Þrátt fyrir úrbætur síðustu ára þarf enn gera betur í fráveitumálum víða. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þurfi ástand fráveitulagna, koma upp skólphreinsun og styrkja kerfin til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun til samræmis við núgildandi reglur um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir í fráveitum eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög og er það steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Samorka hefur bent á að skoða þurfi aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts við slíkar framkvæmdir. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi, frá árinu 1995 til 2008.

Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt til þess að styðja við úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig er starfshópur ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, og sveitarstjórnarmála að skoða mögulegar leiðir til frekari stuðnings við fráveituframkvæmdir. Samorka hvetur alþingismenn til að styðja við hið nýja frumvarp og aðrar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum um allt land. Verkefnið er brýnt og snýst um að koma hlutfallinu úr 79% í 100% – í þágu umhverfisins og allra landsmanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember 2019.

Hvers virði er góð salernisaðstaða?

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag, 19. nóvember.

Fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum í dag hefur ekki aðgengi að salerni sem tengt er öruggu fráveitukerfi og hátt í 700 þúsund manns þurfa að gera þarfir sínar utandyra á degi hverjum. Afleiðingin er meðal annars sú að um tveir milljarðar jarðarbúa nýta drykkjarvatnsuppsprettur sem eru mengaðar af saur og hátt í hálf milljón manna deyr árlega vegna niðurgangspesta.

Sameinuðu þjóðirnar halda alþjóðlegan dag klósettsins hátíðalegan á hverju ári og vilja þar með minna á þær úrbætur sem þarf til í þessum málaflokki. Sjálfbærnimarkmið þeirra miða meðal annars að því að allir geti búið við viðunandi hreinlæti  og að ómeðhöndlað skólp verði minnkað um helming.

Góð fráveita bjargar mannslífum, veitir fólki reisn og veitir betri tækifæri til að rífa sig upp úr sárri fátækt.

Nánari upplýsingar um alþjóðlega klósettdaginn má finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna.

Veitur hafa einnig minnt á daginn í dag, til dæmis með því að minna á að klósettið er ekki ruslafata.

Hvað er fráveita?

Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Fráveitan flytur frárennsli heimila og fyrirtækja, regnvatn frá götum og lóðum, og í sumum hverfum bakrás hitaveitu í sjó með viðkomu í hreinsistöð. Hreinsunarferli skólpsins skapar náttúrunni sjálfri skilyrði til að taka við næringarríku skólpinu og farga því án þess að skaða vistkerfið. Það sýna ítarlegar rannsóknir á Faxaflóa meðal annars; að losunin hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar.

Samorka styður frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda

Á aðalfundi Samorku þann 6. mars 2019 var eftirfarandi ályktun um fráveitumál samþykkt:

Samorka hvetur til þess að ríkið stuðli að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum þar sem þörf er á með því að taka upp endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi.

Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans. Á undanförnum áratugum hefur grettistaki verið lyft í að fjölga skólphreinsistöðvum um land allt. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem skólp er hreinsað hjá úr 6% í 68%. Árið 2017 var hlutfallið komið í 77%.

Gera má enn betur í fráveitumálum um land allt. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þyrfti ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög, sér í lagi þau sem eru lítil og meðalstór og er þar með steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Það ætti því að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Á Alþingi hefur verið lagt frumvarp til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt (171. mál). Í frumvarpinu kemur fram að það „felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda“. Þá kemur einnig fram að kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins sé óverulegur þar sem ólíklegt þyki að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Samorka hvetur til þess að frumvarp þetta nái fram að ganga.

Óskað eftir erindum á NORDIWA 2019

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2019, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Helsinki í Finnlandi dagana 23. – 25. september 2019. Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 23. janúar 2019. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál og áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga að senda inn erindi.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.