Nú er í fullum gangi skráning á norrænu fráveituráðstefnuna – Nordiwa 2015. Samorka tekur þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, sem verður haldin dagana 4.-6. nóvember næstkomandi í Bergen. Frekari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar, skráningu og fleira, má finna hér á heimasíðu ráðstefnunnar.
Fréttir
Fréttir
Gestafyrirlesari Jarðhitaskólans 2015
Gestafyrirlesari Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna 2015, Dr. Meseret Teklemariam frá Eþíópíu, flytur í næstu viku röð fyrirlestra um jarðfræði jarðhitakerfa og jarðhita í Afríku. Fyrirlestrarnir verða haldnir í Víðgelmi og hefjast kl. 9. Nánari upplýsingar má sjá hér á heimasíðu Jarðhitaskólans.
„Sjálfbærni er sjálfsögð“
Hægt er að mæla sjálfbærni. Hún grundvallast hins vegar á samráði, og mælingar og vöktun styrkja reksturinn. Sjálfbærnin er því sjálfsögð. Þetta kom fram í erindi Ragnheiðar Ólafsdóttur, umhverfisstjóra Landsvirkjunar, í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Ragnheiður fjallaði m.a. um lærdóm fyrirtækisins af ítarlegum sjálfbærnimatsferlum undanfarinna ára.
„Tilgangslaus umræða um umhverfisvernd“
Stóra verkefnið á sviði umhverfisverndar er baráttan gegn hlýnun jarðar. Íslensk umhverfisverndarumræða skautar iðulega framhjá þessu verkefni, í gagnrýni sinni á nýtingu grænnar orku. Sem slík er hún því tilgangslaus. Þessi sjónarmið komu fram í erindi Guðna Elíssonar, prófessors í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Guðni hefur árum saman fylgst grannt með loftslagsmálunum og m.a. haldið um þau fjölþjóðlegar ráðstefnur. Hann hvatti íslensk orkufyrirtæki til að setja sér skýra stefnu um að virkja eingöngu fyrir nýja atvinnustarfsemi sem lítið eða ekkert losaði af gróðurhúsalofttegundum.
Hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu
Vatn er undistaða alls lífs og hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu, sagði Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Eðvald fjallaði m.a. um hringrás vatnsins, fjölbreytta vatnsnotkun í matvælaframleiðslu, gæðavottanir, örverumælingar, afhendingaröryggi, samskipti við vatnsveitu og mikilvægi áreiðanlegra vatnsgæða í öllu ferlinu.
ON hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins
Orka náttúrunnar hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins, á umhverfisdegi atvinnulífsins sem SA, Samorka og önnur aðildarfélög SA stóðu að. Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva og áform um frekari uppbyggingu þeirra, en í rökstuðningi dómnefndar segir að rafvæðing samgangna sé ein besta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánar hér á vef ON.
Gagnrýni á veikum grunni
„Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.“ Þetta segir Gústaf Adolf Skúlason, framkvæmdastjóri Samorku, í lokaorðum Morgunblaðsgreinar þar sem hann bregst við grein formanns Landverndar.
Umhverfisdagur atvinnulífsins og málstofa Samorku 30. september
Samtök atvinnulífsins, Samorka og önnur aðildarfélög SA standa fyrir umhverfisdegi atvinnulífsins á Hilton Nordica miðvikudaginn 30. september. Í sameiginlegri dagskrá verður m.a. fjallað um ábyrga nýtingu auðlinda og um Auðlindagarðinn á Suðurnesjum, auk þess sem veitt verða umhverfisverðlaun atvinnulífsins. Í málstofu Samorku fjallar Guðni Elísson prófessor um umhverfissýn á tímum loftslagsbreytinga, Eðvald Sveinn Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis um veituþjónustu og matvælaframleiðslu og Raghneiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri Landsvirkjunar um mat á sjálfbærni. Sjá nánar um dagskrá og skráningu hér á vef SA.
113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014
Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands.
Vísindaferð VAFRÍ 8. október – Vatns- og fráveitumál á Þingvöllum
Haustviðburður VAFRÍ – Vatns- og fráveitufélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 8. október næstkomandi. Í ár verða Þingvellir heimsóttir og verður boðið upp á fræðslu um aðgerðir og áskoranir sem tengjast vatns- og fráveitum á svæðinu. Nánari upplýsingar um dagskrá ferðarinnar og skráningu má sjá hér að neðan: