fbpx

Fréttir

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

Flokkað í

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar.Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Flokkað í ,

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld. Nánari upplýsingar má sjá hér á heimasíðu Orkustofnunar. 

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Flokkað í ,

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar. Sjá nánar hér á vef utanríkisráðuneytisins.

Kerfisáætlun send Orkustofnun til samþykktar

Flokkað í ,

Landsnet hefur sent Orkustofnun kerfisáætlun 2015-2024 til samþykktar, í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning. Um er að ræða langtímaáætlun til tíu ára annars vegar og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára hins vegar. Í framhaldi af samráðsferli bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi og hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga. Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu er það niðurstaðan að svokölluð leið A1 – tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Er hann m.a. talinn koma best út með tilliti til umhverfisáhrifa. Sjá nánar hér á vef Landsnets.

Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá einum milljarði er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi. Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna. Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar, og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Ertu að leita að þessu?