Fráveitan er málið
Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.
Fráveitan er málið
Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismálið og snýr bæði að lýðheilsu og góðri umgengni við náttúruna. Á undanförnum áratugum hafa sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eigu lyft grettistaki í að bæta fráveitukerfi og fjölga skólphreinsistöðvum víða um land. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem búa við skólphreinsun úr 6% í 68%. Árið 2018 var hlutfallið komið í 79%, þegar uppbyggingu skólphreinsunar lauk á Akranesi og í Borgarnesi og hefur hlutfallið haldist nær óbreytt síðan.
Þrátt fyrir úrbætur síðustu ára þarf enn gera betur í fráveitumálum víða. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þurfi ástand fráveitulagna, koma upp skólphreinsun og styrkja kerfin til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun til samræmis við núgildandi reglur um 20 milljarða.
Stórar framkvæmdir í fráveitum eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög og er það steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Samorka hefur bent á að skoða þurfi aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts við slíkar framkvæmdir. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi, frá árinu 1995 til 2008.
Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt til þess að styðja við úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig er starfshópur ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, og sveitarstjórnarmála að skoða mögulegar leiðir til frekari stuðnings við fráveituframkvæmdir. Samorka hvetur alþingismenn til að styðja við hið nýja frumvarp og aðrar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum um allt land. Verkefnið er brýnt og snýst um að koma hlutfallinu úr 79% í 100% – í þágu umhverfisins og allra landsmanna.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember 2019.