Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur Dagur vatnsins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna okkur á að gott aðgengi að þessari mikilvægu auðlind er ekki sjálfgefið og til að kynna ýmis baráttumál tengd vatni svo fólk geti látið þau sig varða.
UN Water samtökin standa fyrir þessum árlega alþjóðlega Degi vatnsins og þema ársins 2016 er vatn og vinna. Milljónir manna vinna störf sem beint eða óbeint tengjast vatni og að koma því til skila til neytandans á öruggan hátt. Svo má segja að langflest störf séu bókstaflega háð vatni, þar sem aðgengi að hreinu vatni og fráveitu gjörbreytir aðstæðum á vinnustöðum og lífsgæðum vinnandi fólks á allan hátt.
Veitur ohf, aðildarfélagi í Samorku, birtir á heimasíðu sinni umfjöllun um vatn og dýrmæt vatnsból Íslendinga.
Á heimasíðu UN Water er fjallað ítarlega um daginn og ýmis verkefni honum tengd. Þar má finna fræðsluefni um vatn og fólk er hvatt til að tjá sig á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldWaterDay. Einnig má sjá skemmtilegt video um þema ársins í ár á YouTube.
Vatn er undistaða alls lífs og hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu, sagði Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins.
Eðvald fjallaði m.a. um hringrás vatnsins, fjölbreytta vatnsnotkun í matvælaframleiðslu, gæðavottanir, örverumælingar, afhendingaröryggi, góð samskipti við vatnsveitu og mikilvægi áreiðanlegra vatnsgæða í öllu ferlinu. Alls liggur notkun á 70 þúsund tonnum af vatni að baki framleiðslu fyrirtækisins á þremur þúsundum tonna af kjötvöru.
Þá fjallaði Eðvald m.a. um ISO 9001 gæðastaðalinn, sem felur í sér eftirlit og keðju vöktunar frá fyrsta frumframleiðanda til afhendingar vörunnar til viðskiptavinar. Allt framleiðsluferlið er vaktað og þar er hreinleikinn lykilatriði.
Erindi Eðvalds: Veituþjónusta og matvælaframleiðsla (PDF 797 KB)
Samorka mun á næsta ári, í samstarfi við norræn samtök vatnsveitna, halda á Íslandi 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna (e. Nordic Drinking Water Conference).
Ráðstefnan verður haldin dagana 28.-30. september 2016 í salnum Silfurbergi í Hörpu. Aðildarfélagar í Samorku og almennt sérfræðingar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að taka dagana frá og skoða hvort að mögulega hafi þeir áhugaverð verkefni, rannsóknir og fleira, sem þeir hefðu áhuga á að kynna á ráðstefnunni.
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna verða kynntar seinna í haust.
Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti.
Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.
Fimmtudaginn 28. maí s.l. var haldinn opinn kynningarfundur í Hörpu, um starfssemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Flutt voru afar fróðleg erindi um þá fjölbreyttu starfssemi sem orðið hefur til á svæðinu og tengjast öll á einn eða annan hátt orkuvinnslu HS Orku. Þekktast af þessum fyrirtækjum er Bláa Lónið, en til viðbótar hefur orðið til flóra fyrirtækja sem öll eiga tilveru sína að þakka fjölbreyttri nýtingu jarðvarma á skaganum. Meðal þess sem kynnt var, er nýútkomin skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið GAMMA hefur gert um efnahags- og samfélagsleg áhrif Auðlindagarðsins. Til að kynna sér efni GAMMA-skýrslunar, smellið hér og til að kynna sér sögu og starfssemi Auðlindagarsins, þá smellið hér.