Græn skírteini tækifæri til að hámarka virði orkunnar

Fræðslufundur Samorku um upprunaábyrgðir, eða græn skírteini, var haldinn á Icelandair Hótel Natura mánudaginn 4. nóvember. Upptökur af erindum má finna í þessari frétt.

Upprunaábyrgðir raforku urðu til sem liður í því að vinna á móti loftslagsbreytingum með því að vera fjárhagslegur hvati til að byggja upp græna orkukosti í Evrópu. Þau ganga út á það að gera hreinleika orku að sérstökum verðmætum og sjái einstaklingar eða fyrirtæki ávinning í því að segjast nota hreina orku þurfi að borga markaðsvirði fyrir það. Upprunaábyrgðir eru innifaldar í raforkuverði til heimila og fyrirtækja á almennum markaði á Íslandi og getur það verið tækifæri til samkeppnisforskots á markaði, vegna þess að viðskiptavinir verða sífellt meðvitaðri um virðiskeðju framleiðslunnar.

Á fundinum tóku til máls Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og Alexandra Münzer framkvæmdastjóri Greenfact. Fundarstjóri var Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga hjá Íslandsbanka.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var meðal framsögumanna á fundinum. Mynd: Eyþór Árnason

Halldór fór yfir loftslagsmál og loftslagsaðgerðir í stóru myndinni í upphafi fundar. Hann sagði meðal annars í erindi sínu að þörf væri á að verðleggja aðgang að andrúmsloftinu m.a. með viðskiptum með losunarheimildir, kolefnisbindingar og skattlagningu losunar. Þá væri mikilvægt að ná fram beinum aðgerðum til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og grænu skírteinin séu liður í því. ,,Öll vegferðin fram að 2050 skiptir máli. Að gera ekkert er dýrasti valkosturinn. Við þurfum alla verkfærakistuna til að endurskapa orkukerfi,“ sagði Halldór.

Eyrún Guðjónsdóttir hjá Dóttir Consulting Mynd: Eyþór Árnason

Eyrún talaði um þátttakendur og virkni kerfisins upp­runa­ábyrgðir raf­orku þar sem kom fram að kaupendur grænna skírteina séu heimili og fyrirtæki í Evrópu, sem sækist eftir því að nota græna raforku. Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku hefði auk­ist mikið, og þar með viðskipti með græn skír­teini.

Sagði hún að sí­fellt fleiri lönd taki þátt í kerf­inu um upp­runa­ábyrgðir og hlut­fall end­ur­nýj­an­legr­ar orku­vinnslu væri hærra í þeim lönd­um, sem sýn­ir að kerfið virk­ar. „Það er mik­il­vægt fyr­ir fyr­ir­tæki að vera með grænu skír­tein­in til að geta sýnt fram á stuðning sinn við upp­bygg­ingu end­ur­nýj­an­legr­ar orku og geta notað það í sitt græna bók­hald,“ sagði Eyrún á fund­in­um. Þá sagði hún að fyr­ir­tæki í fjöl­mörg­um geir­um kaupi græn skír­teini, bæði beint frá raf­orku­fram­leiðend­um og í gegn­um miðlara.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi á Samorku, fjallaði um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi. Mynd: Eyþór Árnason

Lovísa talaði meðal ann­ars um fjár­hags­leg­an  ávinn­ing­ Íslands sem væri tölu­verður í þessu kerfi og að líta eigi á það sem tæki­færi til að há­marka verðmæti þeirra orku sem hér er fram­leidd. ,,Það skipt­ir máli fyr­ir heim­inn all­an að á Íslandi sé fram­leidd græn orka og því eðli­legt að við njót­um ávinn­ings af því.“

Út frá markaðsvirði skír­tein­anna get­ur upp­hæðin sem ís­lensk­ir raf­orku­fram­leiðend­ur fá numið frá 0,5 – 5,5 millj­örðum á ári, en árið 2018 voru tekj­urn­ar af söl­unni í kring­um 800 – 850 millj­ón­ir króna. Í erindi hennar kom fram að sala grænna skírteina á Íslandi hefði engin áhrif á skuldbindingar Íslands eða annarra landa í loftslagsmálum og á Íslandi sé áfram framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti.

Alexandra Münzer frá Greenfact, greiningafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaði um upprunábyrgðir í Evrópu, fór yfir hvernig markaðurinn virkar og hvernig verð grænna skírteina hefur þróast í gegnum tíðina.

Alexandra Münzer frá Greenfact greiningarfyrirtækinu fjallaði um markaðinn með upprunaábyrgðir

 

Upptökur:

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson from Samorka on Vimeo.

Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir from Samorka on Vimeo.

The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer from Samorka on Vimeo.

 

 

 

Eggert Benedikt Guðmundsson og Kamma Thordarson frá Grænvangi.
Fundurinn var vel sóttur.
Birta Kristín Helgadóttir
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga Íslandsbanka stýrði fundinum.
Gestir fundarins, meðal annars Páll Erland framkvæmdastjórji Samorku.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar
Halldór Þorgeirsson og Eggert Benedikt Guðmundsson á spjalli í lok fundar.

 

Upptaka af fundinum í heild sinni:

 

Dafnandi græn orka – fræðslufundur um upprunaábyrgðir raforku from Samorka on Vimeo.

Upprunaábyrgðir raforku: Fræðslufundur

Samorka býður til fræðslufundar um upprunaábyrgðir raforku, eða græn skírteini eins og þau eru oft kölluð. Tilgangur fundarins er að fjalla um tilurð og markmið kerfisins um upprunaábyrgðir, af hverju Ísland tekur þátt í því og hvaða ávinning þátttakan getur haft fyrir Ísland og raforkukaupendur hér á landi.

Fundurinn hefst kl. 14 á Icelandair Hótel Natura og gert er ráð fyrir að hann standi í um 90 mínútur. Allir eru velkomnir á fundinn en skráningar er óskað. Þá verður fundinum einnig streymt á vef Samorku.

Dagskrá:

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs
Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting
Upprunaábyrgðir í íslensku samhengi – Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku
Renewable Energy Certificates: The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer, framkvæmdastjóri Greenfact

Fundarstjóri: Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greiningar Íslandsbanka

Tómas Már ráðinn forstjóri HS Orku

Tómas Már tekur við forstjórastól HS Orku um áramót.

Tómas Már Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri HS Orku. Mun hann taka við starfinu frá og með næstu áramótum. .

Tómas Már hefur starfað um árabil hjá Alcoa, þar sem hann gegndi stöðum forstjóra Alcoa á Íslandi, í Evrópu og Mið-Austurlöndum, og nú síðast frá 2014 stöðu aðstoðarforstjóra fyrir Alcoa Corporation. Áður starfaði Tómas sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Norðuráli. Tómas Már er menntaður umhverfisverkfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistarapróf í skipulagsverkfræði frá Cornell-háskólanum í New York. Hann hefur setið í fjölda stjórna og var m.a. formaður Viðskiptaráðs frá 2009-2012, sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011 og hefur verið í stjórn evrópskra álframleiðenda frá 2012.

 

Lið RARIK Fagmeistari Samorku 2019

Það var lið RARIK sem stóð uppi sem sigurvegari í Fagkeppni Samorku eftir æsispennandi keppni á milli níu liða!

Framkvæmda- og tæknidagurinn er fyrsti dagur fagþings rafmagns sem haldið var í Reykjanesbæ dagana 22. – 24. maí. Dagurinn er sérstaklega ætlaður fagfólki í framkvæmdum. 

Eftir fyrirlestra um tækniþróun, öryggismál og fleira var keppt í ýmsum greinum, góðri blöndu af gamni og alvöru, eins og samsetningu á heimlagnarkapli, uppsetningu á búnaði í götuskáp, mælaskiptum og auðvitað stígvélakasti. 

Alls tóku níu lið þátt frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða og Gunnar Sigurðarson, eða Gunnar á völlum, lýsti því sem fram fór. Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK, sem hlýtur því titilinn Fagmeistari Samorku 2019. 

 

Orkustefna er leiðarljós

Aðalfundur Samorku, sem haldinn var 6. mars 2019 á Grand hótel Reykjavík, ályktaði um orkustefnu:

Á sama tíma og heimurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum er ljóst að tækifæri Íslendinga til jákvæðra aðgerða eru einstök. Landið er ríkt af auðlindum sem gerir okkur kleift að ganga bjartsýn inn í næstu orkuskipti.

Sem aldrei fyrr er samfélag okkar, heimili, atvinnurekstur og þjónusta, grundvallað á orku. Orku- og veitufyrirtækin reka samfélags¬lega mikilvæga innviði sem jafnframt eru grunnur að rekstri annarra mikilvægra innviða.

Skýr stefnumörkun í orkumálum er því afar mikilvæg og fagnaðarefni að vinna við orkustefnu sé nú hafin hjá ríkistjórn Íslands.

Orkustefna þarf að tryggja orkuöryggi landsmanna, nægt framboð af orku sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, að hér sé skilvirkt og hagkvæmt regluverk og traustir orkuinnviðir. Hafa þarf í huga að orkuöryggi snýr bæði að raforku og heitu vatni.

Orkustefna þarf að styðja við að orkuframleiðsla verði áfram ein af grunnstoðum efnahags- og samkeppnishæfni þjóðarinnar um leið og hún gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Orkustefna þarf þannig að vera skýrt leiðarljós inn í sjálfbæra framtíð.

Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON

Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur ráðið Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Berglind hefur gengt starfinu tímabundið frá því í september síðastliðnum en það var auglýst laust til umsóknar í byrjun þessa árs.
Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún var ráðin til Orku náttúrunnar á árinu 2017 sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaða og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

Orka náttúrunnar er stærsta orkufyrirtæki landsins á sviði jarðvarma og vinnur rafmagn og heitt vatn í virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði auk raforkuvinnslu í Andakílsárvirkjun. ON er þjónustufyrirtæki með viðskiptavini um allt land og býður heimilum og fyrirtækjum eingöngu upp á vottaða endurnýjanlegra orku.

Fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi og rekur 50 hlöður fyrir rafbílaeigendur um allt land. Árleg velta fyrirtækisins nemur um 20 milljörðum króna og starfsfólk er liðlega 80 talsins. Formaður stjórnar ON er Hildigunnur H. Thorsteinsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur.

Dreifing sólarorkulampa heldur áfram

 

Í dag, 23. janúar, er degi rafmagnsins fagnað á Norðurlöndunum.

Rafmagn er sjálfsagt og aðgengilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga, svo það er auðvelt að gleyma því að um það bil 1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að því í heiminum.

Í tilefni af degi rafmagnsins hefur Samorku tvö ár í röð staðið fyrir fjármögnun og dreifingu sólarorkulampa í Afríku í samvinnu við sænska fyrirtækið Givewatts. Markmið Givewatts er að gefa fjölskyldum í Kenýa og Tansaníu kost á því að fjárfesta í hreinni og ódýrri orku í formi sólarorkulampa í stað steinolíulampa við leik og störf.

Samorka hefur nú fjármagnað alls 320 lampa, sem munu bæta lífsgæði um 1.600 manns, þar sem að meðaltali nýta fimm einstaklingar sér hvern lampa á hverju heimili.

Hér má sjá nýtt myndband frá Givewatts um áhrif sólarorkulampa á fjölskyldulífið á svæðum þar sem aðgengi að lýsingu á heimili er takmarkað.

Impact: Family time from GIVEWATTS on Vimeo.

 

Starfsmaður Givewatts heimsækir skóla í Vihiga

Lamparnir frá Samorku eru í dreifingu í þorpinu Vihiga í Kenýa og Mwanza í Tansaníu. Eins og sjá má hefur dreifing lampanna gengið hægar en vonast var eftir, þar sem efnahagsástandið á svæðunum var ekki gott á síðari hluta ársins 2018 vegna slæmrar uppskeru, en vonast er til þess að hún taki kipp á nýju ári. Givewatts hefur ráðið í stöðu sölustjóra og almennan starfsmann yfir Vihiga svæðinu í Kenýa, sem er nýtt svæði hjá þeim. Þá eru fleiri starfsmenn í þjálfun og fræðslu, svo hægt sé að efla kynningu á lömpunum og kostum endurnýjanlegrar orku í stað steinolíulampa. Þannig er vonast til að dreifing lampanna komist á skrið að nýju.

 

 

Hér má lesa frekari upplýsingar um fjármögnun lampanna á degi rafmagnsins 2017 og 2018. 

Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets

Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 og felur samþykkið í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

„Samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun 2018-2027 er mikilvægur áfangi í því verkefni sem framundan er í uppbyggingu raforkuinnviða landsins. Með uppbyggingunni verður flutningskerfið betur í stakk búið til að mæta framtíðaráskorunum þar sem verkefnin eru fjölmörg víðsvegar um landið“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.

Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

Landsnet skal árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem felur í sér tvo megin þætti:

• Langtímaáætlun sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum.

• Framkvæmdaáætlun sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum.

Nánar á vef Orkustofnunar.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Rafmagn til gagnavers á Blönduósi

Björn Brynjúlfsson framvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis og Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ON undirrita samninginn

ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum.

Fremst eru Björn Brynjúlfsson og Berglind Rán Ólafsdóttir. Aftari röð f.v. Elín Smáradóttir, Hjálmar Helgi Rögnvaldsson, Antoine Gaury, Þrándur Sigurjón Ólafsson og Jakob Sigurður Friðriksson

Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og vex hratt, en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere að Borealis hefur uppbygging aukist til muna.

Eitt af samkeppnisforskotum gagnavera á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar á borð við jarðvarma og kalt veðurfar sem hentar vel til kælingar. Erlendir viðskiptavinir horfa í auknum mæli á þessa þætti.

Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi