Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.
Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.
Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.
Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.
Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.
Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.
Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.
Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.
Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.
Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.
Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.
Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.
Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins. Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.
Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.
Árið 2015 var metár í vatnsnotkun hjá hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarnotkunin jókst um 10% frá árinu áður og er aukningin milli ára sú mesta sem hefur sést frá aldamótum. Vatnsnoktunin árið 2015 var tæplega 83 milljónir rúmmetra.
Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti.
Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.
Í nýrri frétt frá Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að hver einasti mánuður frá áramótum hefur verið metmánuður í notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Í maí einum var heitavatnsnotkunin 6,3 milljónur tonna, sem er fjórðungsaukning frá sama mánuði árið á undan. Sjá nánar á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur.
Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.