Viðbúnaður Veitna vegna kuldakasts

Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu.

Rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að aukast í nótt eftir metrennsli í gær. Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans.

Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og vegna þessa hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun sína. Gangi veðurspáin eftir gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, á meðal þeirra eru sundlaugarnar.

Förum vel með heita vatnið
Veitur hvöttu fólk í gær til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum. Um 90% af hitaveituvatninu eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið. Fleiri sparnaðarráð er að finna á vef Veitna.

Stækkuð varmastöð í haust
Uppbygging stendur yfir í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð aukning varð á notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018. Árið var mun kaldara en árin á undan, fólksfjölgun var mikil og mikið byggt af húsnæði. Aukning notkunar á heitu vatni var þó umfram það sem þessu svaraði. Á meðal yfirstandandi fjárfestinga Veitna er tenging eldri borhola við hitaveituna, sverun aðalæða en mestu mun skipta stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun. Hún var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt til haustsins 2019. Gangi langtímaspár um heitavatnsnotkun eftir duga þessar aðgerðir fram undir miðjan næsta ártug. Spár Veitna í þessum efnum eru endurskoðaðar tvisvar á ári.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Húshitun ódýrust hér af Norðurlöndum

Mikill munur er á kostnaði vegna húshitunar fyrir íbúa í höfuðborgum Norðurlandanna. Íbúi í Kaupmannahöfn þarf að borga 314 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi rúmlega 300 þús krónur, í Osló 264 þúsund krónur og í Helsinki 246 þúsund krónur á ári.

Í Reykjavík er árlegur kostnaður hins vegar aðeins 90 þúsund krónur.

Að meðaltali er kostnaðurinn 243.521 kr. á ári fyrir íbúa í höfuðborg á Norðurlöndum.


Í samanburðinum er stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg á Norðurlöndum.

Langflest heimili á Íslandi eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Á hverju ári sparar húshitun með jarðhita og framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegri orku mikla losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, eða um 19 milljónir tonna árlega. Til samanburðar höfum við skuldbundið okkur til að minnka losun koltvísýrings um eina milljón tonna fyrir árið 2030 samkvæmt Parísarsamningnum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Hér má sjá samanburðinn þegar kostnaður hefur verið brotinn niður.

Uppfærð 6. sept: Lagfærðar tölur um að húshitun spari árlega um 19 milljónir tonna, rétt er að húshitun og framleiðsla rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum sparar árlega 19 milljónir tonna.

Metnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu

Notkunin á heitu vatni til húshitunar á fyrstu sex mánuðunum hefur verið 10% meiri en að meðaltali, sé litið til næstu fjögurra ára á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.

Dagana 16. – 23. janúar fóru að jafnaði 15.161 rúmmetrar á klukkustund í gegnum hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta vikunotkunin sem sést hefur. Met í sólarhringsnotkun og notkun á klukkustund voru einnig slegin í janúar.

Ástæða þessarar aukningar á notkun á heitu vatni ætti ekki að koma íbúum á höfuðborgarsvæðinu á óvart. Kuldatíð í janúar og febrúar og einstaklega rysjótt tíð í maí og júní á suðvesturhorni landsins hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess utan hefur notkun á heitu vatni aukist mikið á síðustu árum, eða um tæplega 20% á síðustu fimm árum.

 

Vel heppnaður Veitudagur

Veitudagur Samorku var haldinn í fyrsta sinn á Fagþingi hita-, vatns- og fráveitna á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23.- 25. maí.

Dagurinn var sérstaklega tileinkaður framkvæmda- og tæknifólki í aðildarfélögum Samorku. Fundargestum var boðið upp á áhugaverða fyrirlestra, þ.m.t. um öryggismál, en svo var skipt í lið og keppt í hinum ýmsu greinum.

 

Í mælaþrautinni áttu keppendur að „koma fyrir vatnsmæli í húsi“ og líkt var eftir mjög erfiðum aðstæðum sem geta komið upp þegar starfsmenn veitufyrirtækja þurfa að koma upp mælum. Í suðukeppninni var heimæð komið fyrir á dreifilögn undir þrýstingi og tengja þurfti svo heimlögnina við ímyndaða tengigrind húsveitu.

 

Í suðukeppninni var keppt í suðu á lagnaefni, í röraboltanum átti að kasta bolta og hitta ofan í rör eftir fyrirfram ákveðnum reglum og síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti, þar sem dæmt var eftir lengd og stefnufestu.

 

Veitt voru verðlaun fyrir hverja þraut fyrir sig, en það voru Selfossveitur sem voru stigahæsta liðið samanlagt og fengu því sigurverðlaun dagsins.

Selfossveitur voru með besta árangur samanlagt í þrautum dagsins

 

 

Veitudagurinn þótti heppnast vel og líklegt verður að teljast að hann verði héðan í frá fastur liður á Fagþingum Samorku.

 

 

 

 

 

 

Myndir frá deginum má sjá á Facebooksíðu Samorku

Alþjóðleg umhverfis- og orkuverðlaun afhent á Íslandi

Umsækjendur GDECA 2019 ásamt Paul Voss, frkvstj. Euroheat&Power

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska jarðvarmaklasann, Iceland Geothermal.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

2-300 þátttakendur eru væntanlegir til landsins vegna ráðstefnunnar og verðlaunanna sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica. Á síðasta ári fór verðlauna afhendingin fram í Doha í Qatar en í ár stóð valið milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku fór fyrir umsókn Íslands um verðlaunin í samstarfi við Iceland Geothermal, Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) og Athygli Ráðstefnur.
Hann fagnar því að þessi alþjóðlegur viðburður sé haldinn á Íslandi, sem sé í fararbroddi í nýtingu á endurnýjanlegri orku í heiminum. „Íslenskar hitaveitur eiga stóran þátt í þeim árangri sem Ísland hefur þegar náð í orkuskiptum og því vel við hæfi að halda alþjóðlega ráðstefnu um hitaveitur og loftslagsmál hér á landi.“

Paul Voss, framkvæmdastjóri Euroheat & Power sagði þrennt hafa ráðið vali Íslands fyrir verðlaunin 2019. Í fyrsta lagi vegna forystu Íslands í nýtingu á endurnýjanlegri orku, í öðru lagi vegna mikils áhuga hér á landi fyrir verðlaununum og í þriðja lagi sé töluvert sem fulltrúar annarra þjóða geti lært af Íslendingum.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, segir komu ráðstefnunnar og verðlaunanna enn eina birtingarmynd þeirrar forystu sem Íslendingar hafa tekið í notkun og nýtingu á grænum og endurnýjanlegum orkugjöfum. „Áhugi fyrir Íslandi innan geirans er ótrúlegur, við finnum fyrir því í fyrirspurnum og þegar við sækjumst eftir slíkum viðburðum. Það á að vera metnaðarmál okkar í ferðaþjónustunni, þeirra sem starfa í orkugeiranum og stjórnvalda að fá viðburði eins og þessa til landsins enda um vermæta gesti að ræða sem skilja eftir sig mikilvæga þekkingu og tengsl.“

Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík

Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík.

 

Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári.

Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

 

Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna.

Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Góð rekstrarniðurstaða OR

or

Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna.

Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.

 

Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi

Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust.

Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi.

Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda.

Forsendur:
Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun.
Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun.
Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda.
Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.

Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims

Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi.

Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.

Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi.

 

 

Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI).

Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega.

Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.