ESB-ríkin með 15% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 15,3% árið 2014, samkvæmt nýbirtum tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Flest aðildarríkin virðast vera á góðri leið með að ná markmiði sambandsins um 20% meðalatal árið 2020. Meðal aðildarríkja er hlutfallið lang hæst í Svíþjóð, 51,1%, en þar næst koma Lettland með 35,8% og Finnland með 34,5%. Lægst er hlutfallið á Möltu, 2,7%, en í Lúxemborg, Bretlandi og Hollandi er hlutfallið einnig undir 5%. Öll eiga þessi ríki langt í langt með að ná sínum markmiðum fyrir árið 2020.

Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76%. Á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99% allrar orku til húshitunar. Hins vegar flytjum við inn talsvert af jarðefnaeldsneyti, einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.

Sjá tölur framkvæmdastjórnar ESB um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í aðildarríkjunum.

Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku

Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti.

Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.

#orkakvenna

Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur taka þátt í hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þau hafa ákveðið að blása til ljósmyndasamkeppni á Instagram fyrir ungt fólk á aldrinum 13 til 20 ára undir myllumerkinu #orkakvenna. Tilgangurinn er að vekja áhuga ungs fólks, sérstaklega kvenna, á iðnmenntun og iðnnámi og útrýma hugmyndum um staðalímyndir þegar kemur að vinnumarkaðnum en einnig til að vekja athygli á jafnréttisstefnu fyrirtækjanna.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðunni: www.orkakvenna.is, sem hefur verið opnuð til að halda utan um jafnréttisstarfið, en þar birtast einnig Instagram myndirnar.

Gagnaver í leit að staðsetningu; opinn fundur Landsvirkjunar 5 júní.

Fundurinn er hluti af fundarröð í tilefni 50 ára afmælis Landsvirkjunar. Sérstakur fyrirlesari verður Phil Schneider, stofnandi Schneider Consulting og forseti Site Selectors Guild, sem er margreyndur ráðgjafi um staðsetningu gagnavera og annarra fjárfestinga erlendra stórfyrirtækja. Í kjölfarið fara fram pallborðsumræður þar sem rætt verður frekar um þarfir gagnaversiðnaðarins. Þátttakendur í pallborðsumræðum verða Phil Schneider, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjá PwC, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Opnum kerfum og Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Farice. Elínrós Líndal, viðskiptastjóri Samtaka gagnavera á Íslandi, stýrir fundi og pallborðsumræðum.

Skráning á fundinn fer fram á landsvirkjun.is. Fundurinn verður einnig sýndur í beinni útsendingu á YouTube rás Landsvirkjunar, www.youtube.com/landsvirkjun.

Auðlindagarður á Reykjanesi

Fimmtudaginn 28. maí s.l. var haldinn opinn kynningarfundur í Hörpu, um starfssemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi. Flutt voru afar fróðleg erindi um þá fjölbreyttu starfssemi sem orðið hefur til á svæðinu og tengjast öll á einn eða annan hátt orkuvinnslu HS Orku. Þekktast af þessum fyrirtækjum er Bláa Lónið, en til viðbótar hefur orðið til flóra fyrirtækja sem öll eiga tilveru sína að þakka fjölbreyttri nýtingu jarðvarma á skaganum. Meðal þess sem kynnt var, er nýútkomin skýrsla sem ráðgjafafyrirtækið GAMMA hefur gert um efnahags- og samfélagsleg áhrif Auðlindagarðsins. Til að kynna sér efni GAMMA-skýrslunar, smellið hér og til að kynna sér sögu og starfssemi Auðlindagarsins, þá smellið hér.