113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014

Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, en þar segir að hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis veki athygli ferðamanna. Um 12.500 heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun og Kröfluvirkjun, tæplega 5.800 heimsóttu orkuverið á Reykjanesi og sýninguna Orkuverið Jörð og um 700 tóku þátt í skipulögðum gönguferðum um Reykjanes sem styrktar eru af Bláa lóninu, HS Orku og HS Veitum.

Rannsóknin fjallar um áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðaþjónustu og íbúa og var unnin í samstarfi við Landsvirkjun. Rannsókninni stýrðu Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði við sama skóla. Ofangreindar upplýsingar um heimsóknir í gestastofur orkufyrirtækja má nálgast í skjalinu hér á vef Landsvirkjunar (sjá kafla 2.2, bls. 17 (22 í rafrænu skjali).

Vísindaferð VAFRÍ 8. október – Vatns- og fráveitumál á Þingvöllum

Haustviðburður VAFRÍ – Vatns- og fráveitufélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 8. október næstkomandi. Í ár verða Þingvellir heimsóttir og verður boðið upp á fræðslu um aðgerðir og áskoranir sem tengjast vatns- og fráveitum á svæðinu. Nánari upplýsingar um dagskrá ferðarinnar og skráningu má sjá hér að neðan:

Drög að dagskrá:

  • 12:30 – Rúta leggur af stað frá bílaplani Orkuveitu Reykjavíkur
  • 13:30-15:00 – Einar Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, kynnir vatns- og fráveitur innan þjóðgarðsins og sumarbústaðasvæðisins í landi Kárastaða
  • Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, segir frá vatnsverndarmálum við Nesjavelli
  • Stefnt er á að skoða fráveitumál við ION hótel
  • Stefnt er að því að vera komin til baka á bílaplan Orkuveitu Reykjavíkur fyrir kl. 18

Skráning er í ferðina á vefslóðinni https://ugla.hi.is/K2/eydublad.php?sid=135&fid=7348 

Jarðhitafélag Íslands styrkir háskólanema

Líkt og undanfarin ár styrkir Jarðhitafélag Íslands háskólanema í jarðhitatengdu námi til að sækja fjölþjóðlega jarðhitaráðstefnu, að þessu sinni 2 styrki um allt að kr. 300 þúsund hvor styrkur.

Niðurstaða stjórnar JHFÍ var sú að styrkina hlytu Elvar Bjarkason, doktorsnemi í jarðhitaverkefni við University of Auckland í Nýja Sjálandi og Sigrún Brá Sverrisdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við Háskólann í Reykjavík.

 

Er ávinningur af raforkustreng til Bretlands? – Fundur 22. september

Þriðjudaginn 22. september býður bresk-íslenska viðskiptaráðið til opins fundar um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands undir yfirskriftinni Interconnecting Interests. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og hann munu m.a. ávarpa Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fulltrúar Greenpeace í Bretlandi og orkufyrirtækjanna PowerBridge og National Grid.

Sjá nánar um fundinn og skráningu hér.

Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir

Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur Mannvit gert úttekt og lagt fram skýrslu um helstu virkjunarkosti í byggðarlaginu. Efni fundarins var fyrst og fremst kynning á skýrslunni, sem höfundar hennar önnuðust. Þá voru einnig flutt erindi um raforkuöryggi í Eyjafirði, raforkuflutning, raforkumarkaðinn, tækifæri fyrir smávirkjanir, beislun vindorkunnar og tengingar smávirkjana við orkukerfið.

Dagskrá fundarins og skýrslu Mannvits er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar: Smellið hér

Fundurinn var fjölsóttur og fram kom mikill áhugi fundarmanna um beislun orkunnar í héraði, en einnig voru skiptar skoðanir á flutningi raforku milli landshluta.

Samorka þakkar Dalvíkurbyggð fyrir það frumkvæði sem sveitarfélagið sýnir með gerð og kynningu þessa verkefnis.

Afhending á raforku mögulega takmörkuð vegna veðurfars

Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum að mögulega verði dregið úr afhendingu á raforku, ef ástand í vatnsbúskapnum batnar ekki á næstu vikum.

Stóriðjufyrirtækin hafa, samkvæmt samningum, einn mánuð til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Enn ríkir óvissa um takmörkun orkuafhendingar, en miðað við meðalhorfur um fyllingu lóna og meðalrennsli í vetur má reikna með að orkusala Landsvirkjunar geti dregist saman um 3,5% í vetur.

Reynt verður að laga útfærslu aðgerðanna að þörfum viðskiptavina eins og mögulegt er, líkt og fram kemur í nánari umfjöllun hér á vef Landsvirkjunar.

Námskeið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika

Þann 2. október næstkomandi verður haldið á vegum Endurmenntunar HÍ námskeiðið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika.

Námskeiðið mun fjalla um „nýjar leiðir við meðferð ofanvatns sem hafa verið innleiddar víða um heim. Þetta eru svokallaðar blágrænar eða sjálfbærar ofanvatnslausnir. Kostir þeirra eru öruggara veitukerfi, betra umhverfi í þéttbýli og heilbrigðari og sjálfbærari vatnsbúskapur“.

 

Hvernig mótar orkulandslag umhverfið? – Opinn Fundur Landsvirkjunar og FILA

Stórum framkvæmdum fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem sjónræn áhrif geta orðið umtalsverð. Landsvirkjun býður í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta til opins fundar fimmtudaginn 3. september kl. 13:30 á Hilton Reykjavík Nordica, þar sem fjallað verður um hvernig skapa má jafnvægi milli landslags, landmótunar og orkunýtingar.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Samorka heldur 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna 28.-30. september 2016

Samorka mun á næsta ári, í samstarfi við norræn samtök vatnsveitna, halda á Íslandi 10. Norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna (e. Nordic Drinking Water Conference).

Ráðstefnan verður haldin dagana 28.-30. september 2016 í salnum Silfurbergi í Hörpu. Aðildarfélagar í Samorku og almennt sérfræðingar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að taka dagana frá og skoða hvort að mögulega hafi þeir áhugaverð verkefni, rannsóknir og fleira, sem þeir hefðu áhuga á að kynna á ráðstefnunni.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna verða kynntar seinna í haust.