Hvernig tryggjum við orkuöryggi til framtíðar? Ráðstefna í HR 15. október

Fimmtudaginn 15. október efnir Háskólinn í Reykjavík til ráðstefnu um orkuöryggi á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Forseti Íslands opnar ráðstefnuna en fyrirlesarar koma frá MIT, Harvard og Tufts háskólunum, Brookings stofnuninni í Bandaríkjunum, Háskólanum í Reykjavík, Landsvirkjun og Landsneti.

Sjá nánar á vef Háskólans í Reykjavík.

Boðaðar skerðingar á afhendingu dregnar til baka

Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka boðaðar takmarkanir á afhendingu rafmagns til viðskiptavina samkvæmt sveigjanlegum samningum í ljósi bættrar miðlunarstöðu eftir mikið innrennsli í miðlunarlón í september.

Septembermánuður var mjög hlýr á landinu öllu og höfðu hlýindin mikil áhrif á innrennsli til miðlana. Miðlunarlón eru þó enn ekki full fyrir veturinn og veðurfar yfir vetrarmánuðina mun ráða því hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs.

„Sjálfbærni er sjálfsögð“

Hvernig er sjálfbærni metin? Um þá spurningu fjallaði Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Ragnheiður sagði sjálfbærnihugtakið til þess að gera nýtt og um væri að ræða leiðarljós í alþjóðlegri umhverfisumræðu. Raunar væri þessi íslenska þýðing á enska hugtakinu sustainability ekki sú besta, haldbær þróun hefði verið betri þýðing sagði Ragnheiður, líkt og fleiri hafa bent á.

Ítarleg sjálfbærniverkefni
Ragnheiður fjallaði um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda og tók fram að hægt væri að nýta þær á annan hátt, þ.e. ekki sjálfbæran. Ekki mætti því rugla þessum hugtökum saman. Hún sagði frá ítarlegu sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar í tengslum við byggingu rekstur Fljótsdalsstöðvar og álversins á Reyðarfirði. Einnig fjallaði hún um ítarlegt alþjóðlegt sjálfbærnimat – HSAP matslykilinn – sem m.a. hefur verið framkvæmt á Hvammsvirkjunarverkefninu og á rekstri Blöndustöðvar. Að HSAP koma m.a. World Wildlife Fund, Oxfam o.fl. aðilar, en í úttektinni skoraði Blöndustöð einna hæst allra aflstöðva sem skoðaðar hafa verið. Hvammsvirkjunarverkefnið skoraði einnig mjög hátt, en þar var bent á að þótt samráð og samskipti við hagsmunaaðila hefðu verið mikil þá hefði ekki verið um nægilega skipulegt ferli að ræða.

Ragnheiður sagði Landsvirkjun hafa dregið ýmsan lærdóm af þessum sjálfbærniverkefnum og nú væri t.d. skýrt verklag við alla vöktun umhverfisþátta og verkefnin ekki hugsuð jafn staðbundið og stundum áður.

Mælingar á sjálfbærni styrkja reksturinn
Ragnheiður sagði að lokum að hægt væri að mæla sjálfbærni. Hún grundvallaðist hins vegar á samráði, og mælingar og vöktun væru til þess fallin að styrkja reksturinn. Hún sagði sjálfbærnina því sjálfsagða.

Erindi Ragnheiðar: Sjálfbær þróun

„Tilgangslaus umræða um umhverfisvernd“

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur lengi fylgst náið með umræðum um loftslagsmál, haldið um þau fjölþjóðlegar ráðstefnur o.fl., einkum í tengslum við verkefni sitt Earth 101. Í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins fjallaði Guðni um hlýnun jarðar, súrnun sjávar, stóraukna orkunotkun mannkyns sem er langmest í formi jarðefnaeldsneyta, alltof hægt vaxandi hlut endurnýjanlegra orkugjafa o.fl. Guðni dró upp dökka mynd af stöðu og horfum í loftslagsmálum og mögulegum áhrifum yfirvofandi loftslagsbreytinga á líf jarðar.

Orkan og umhverfisumræðan
Þá fjallaði Guðni um hinu íslensku umhverfisverndarumræðu og hlutverk atvinnulífsins, ekki síst orkufyrirtækjanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu hafa skilað mörgu jákvæðu í gegnum tíðina. Hins vegar væri stóra verkefnið á sviði umhverfisverndar augljóslega á vettvangi loftslagsmálanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu iðulega skauta framhjá loftslagsmálunum. Sem slík væri hún því í raun tilgangslaus.

Guðni nefndi að margir talsmenn umhverfisverndar á Íslandi legðust gegn uppbyggingu orkuvera og orkukrefjandi iðnaðar. Hins vegar týndu sumir þeirra til ferðaþjónustuna sem einhvers konar valkost í staðinn, til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag. Þessi umræða skautaði hins vegar framhjá losun koltvísýrings frá farþegaflugi og öðrum samgöngum og færði þannig ábyrgðina einfaldlega út í heim, náttúruverndarbaráttan þar yrði að takast á við stóra verkefnið – loftslagsmálin.

Verkefni Íslands og orkufyrirtækjanna
Loks hvatti Guðni íslensk orkufyrirtæki til að setja sér skýra stefnu, manifesto, um það hvers kyns atvinnulíf þyrfti til að hér yrðu reistar frekari virkjanir. Ísland ætti að senda þau skilaboð að hingað gæti græn atvinnustarfsemi sem lítið eða ekkert losaði af gróðurhúsalofttegundum leitað til að fá aðgang að grænni orku. Guðni sagði Ísland vera of lítið til að geta breytt heiminum, en við gætum hins vegar sent út skýr og táknræn skilaboð sem mögulega hefðu jákvæð áhrif víða, og jafnvel laðað hingað í kjölfarið allt öðru vísi og hugsanlega verðmætari fjárfesta en við værum að gera í dag.

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti Erindi Guðna Elíssonar, fyrri hluti (PDF 20 MB)

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti (PDF 21 MB)

Hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu

Vatn er undistaða alls lífs og hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu, sagði Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins.

Eðvald fjallaði m.a. um hringrás vatnsins, fjölbreytta vatnsnotkun í matvælaframleiðslu, gæðavottanir, örverumælingar, afhendingaröryggi, góð samskipti við vatnsveitu og mikilvægi áreiðanlegra vatnsgæða í öllu ferlinu. Alls liggur notkun á 70 þúsund tonnum af vatni að baki framleiðslu fyrirtækisins á þremur þúsundum tonna af kjötvöru.

Þá fjallaði Eðvald m.a. um ISO 9001 gæðastaðalinn, sem felur í sér eftirlit og keðju vöktunar frá fyrsta frumframleiðanda til afhendingar vörunnar til viðskiptavinar. Allt framleiðsluferlið er vaktað og þar er hreinleikinn lykilatriði.

Erindi Eðvalds: Veituþjónusta og matvælaframleiðsla (PDF 797 KB)

ON hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Orka náttúrunnar hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins, á umhverfisdegi atvinnulífsins sem SA, Samorka og önnur aðildarfélög SA stóðu að.

Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva og áform um frekari uppbyggingu þeirra, en í rökstuðningi dómnefndar segir að rafvæðing samgangna sé ein besta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjá nánar hér á vef ON.

Gagnrýni á veikum grunni

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku:

Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 19. september fer formaður Landverndar mikinn í gagnrýni sinni á bæði forstjóra og kerfisáætlun Landsnets, í kjölfar viðtals við forstjórann í sama blaði. Ekki verður brugðist við öllum þeim ummælum hér. Rétt er þó að minna á að skv. 9. grein raforkulaga nr. 65/2003 er það skylda Landsnets að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Núverandi staða flutningskerfis raforku torveldar uppbyggingu atvinnulífs víða um land og þörf uppbyggingar og eflingar kerfisins er orðin knýjandi. Óskandi er að farsæl afgreiðsla kerfisáætlunar Landsnets geti markað upphaf þessarar nauðsynlegu uppbyggingar, sem til dæmis ýmis iðnfyrirtæki á Norðurlandi og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa ítrekað kallað eftir.

Formaður Landverndar rifjar í grein sinni upp skýrslu sem kanadíska fyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd, um jarðstrengi og loftlínur til raforkuflutnings. Fjallar hann um niðurstöður skýrslu Metsco þess efnis að líftímakostnaður við 132 kV jarðstrengi sé sá sami og við 132 kV loftlínur og einungis 25% hærri við 220 kV strengi en við sambærilegar loftlínur.

Úttekt EFLU á skýrslu Metsco
Í kjölfar útgáfu umræddrar skýrslu Metsco tók EFLA verkfræðistofa saman all ítarlega greinargerð, í samstarfi við Friðrik Má Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem skoðaðar voru forsendur og útreikningar skýrslunnar. Meðal annars er þar bent á mikilvægi þess að meta á raunhæfan hátt kostnað við raforkutöp í flutningskerfinu og kostnað við rekstur og viðhald flutningsmannvirkja. Þá er sagt afar mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig út frá aðstæðum á lagnaleið og því erfitt að draga ályktanir út frá einu dæmi. Munur út frá forsendum Metsco reyndist við útreikninga EFLU ýmist meiri eða minni en fram kemur í skýrslu Metsco. Loks skal hér nefnt úr greinargerð EFLU að aðstæður til strenglagningar eru nokkuð aðrar hér en í nágrannalöndum, varmaleiðni jarðvegs er minni hér og aðstæður víða erfiðar fyrir strenglagnir svo sem á hraunasvæðum.

Þessar niðurstöður EFLU fengu meðal annars kynningu á málþingi Verkfræðingafélags Íslands um loftlínur og jarðstrengi. Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.

Umhverfisdagur atvinnulífsins og málstofa Samorku 30. september

Samtök atvinnulífsins, Samorka og önnur aðildarfélög SA standa fyrir umhverfisdegi atvinnulífsins á Hilton Nordica miðvikudaginn 30. september. Í sameiginlegri dagskrá verður m.a. fjallað um ábyrga nýtingu auðlinda og um Auðlindagarðinn á Suðurnesjum, auk þess sem veitt verða umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Í málstofu Samorku fjallar Guðni Elísson prófessor um umhverfissýn á tímum loftslagsbreytinga, Eðvald Sveinn Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis um veituþjónustu og matvælaframleiðslu og Raghneiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri Landsvirkjunar um mat á sjálfbærni.

Sjá nánar um dagskrá á vef Samtaka atvinnulífsins.