Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda

Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust.

Sjá nánar á vef Landsnets.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.

Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.

Kynning á viðtakarannsóknum fráveitu

Mánudaginn 23. nóvember kl.12:30 er haldinn áhugaverður hádegisfundur í Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem Guðjón Atli Auðunsson efnafræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun kynna niðurstöður rannsókna sinna á viðtaka fráveitu.

Rannsóknir hafa verið gerðar á viðtaka fráveitu frá því áður en hreinsistöðvarnar í Ánanaustum og Klettagörðum voru teknar í notkun og síðan með nokkurra ára millibili, skv. starfsleyfi. Niðurstöður síðustu rannsókna voru gefnar út í skýrslu nú í vor og þær sýna að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar, hegðun og samsetningu sets og á lífríkið í kringum útrásarendana. Skýrsluna má finna á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Kerfisáætlun send Orkustofnun til samþykktar

Landsnet hefur sent Orkustofnun kerfisáætlun 2015-2024 til samþykktar, í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning.

Um er að ræða langtímaáætlun til tíu ára annars vegar og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára hins vegar. Í framhaldi af samráðsferli bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi og hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga.

Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu er það niðurstaðan að svokölluð leið A1 – tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Er hann m.a. talinn koma best út með tilliti til umhverfisáhrifa.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.

Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi.

Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði  á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.