Þriðji orkupakkinn: Umsögn Samorku

Samorka styður innleiðingu þriðja orkupakkans og hefur skilað inn umsögn um hann og tengda löggjöf.

Helstu punktar í umsögninni:

• Markmið Evrópusambandsins um aðskilnað milli samkeppinisþátta og sérleyfisþátta, aukið orkuöryggi, betri nýtingu framleiðsluþátta og flutnings- og dreifikerfa hafa náðst, sem og að aukin samkeppni skili neytendum lægra verði.

• Hvatar, eins og heimild til útgáfu upprunaábyrgða fyrir græna raforkuframleiðslu, hafa skilað bættri samkeppnisstöðu gagnvart raforku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti og ekki síður ýtt undir möguleikann á tækniþróun í framleiðslu grænnar orku.

• Þriðji orkupakkinn vinnur sérstaklega með þau markmið að tryggja nýjum raforkuframleiðendum jafna stöðu þegar kemur að tengingum við flutnings- og dreifikerfin.

• Sameiginlegt regluverk Evrópusambandsins og EES-samningsins almennt hefur tryggt stöðu raforkuframleiðslu í alþjóðlegu samhengi í þeim skilningi að ekki sé um undirboð að ræða á markaðnum.

• Þriðji orkupakkinn leiðir ekki til þess að Íslendingar eigi það á hættu að missa yfirráð sín yfir náttúruauðlindum til Evrópusambandsins eða að hingað verði sjálfkrafa lagður sæstrengur.

• Samorka tekur ekki undir nauðsyn þess að hækka eftirlitsgjöld, auka heimilidir til veitingu áminninga eða álagningar stjórnvaldssekta vegna skerpingar á sjálfstæði Orkustofnunar til eftirlits.

Umsögn Samorku í heild má lesa hér fyrir neðan:

Frekari upplýsingar um þriðja orkupakkann og samantekt af fræðsluefni um hann.

Fagstjóri greininga óskast

Samorka óskar eftir að ráða hagfræðing eða einstakling með aðra viðeigandi menntun, s.s. viðskiptafræði eða verkfræði, til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum á sviði greininga. Um er að ræða skemmtilegt starf fyrir einstakling sem hefur áhuga og getu til að safna saman og greina hagtölur og ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem varða orku- og veitustarfsemi á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, og koma þeim til skila á mannamáli.

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um allt land. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur.

Samorka er aðili að Samtökum atvinnulífsins og er staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Í starfinu felst tækifæri til að vinna náið með ýmsum sérfræðingum aðildarfyrirtækja Samorku auk sérfræðingaannarra samtaka í Húsi atvinnulífsins.

HELSTU VERKEFNI:
Söfnun, greining og miðlun upplýsinga sem varða orku- og veitustarfsemi, þ.m.t. umhverfis- og loftslagsmál.
Greining á áhrifum breytinga á rekstrarumhverfi orku- og veitufyrirtækja.
Skýr og greinargóð framsetning gagna og upplýsinga.
Skipulagning og umsjón með framkvæmd opinna funda um málefni orku- og veitugeirans.
Faglegur stuðningur við ýmis verkefni sem unnið er að hverju sinni.
Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna.

MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR:
Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. hagfræði, viðskiptafræði eða verkfræði.
Hæfni og áhugi á að greina upplýsingar og hagstærðir sem varða orku- og veitustarfsemi hér á landi og í nágrannalöndum.
Færni í markvissri framsetningu upplýsinga jafnt skriflega, myndrænt og munnlega.
Jákvæðni og mikil samskipta- og samstarfsfærni.
Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið. Nánari upplýsingar um starfið veita Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku (pall@samorka.is), og Ari Eyberg (ari@intellecta.is) í síma 511 1225. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf.

Umsóknarfrestur er til og með 6. maí. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.

OR, Veitur og Reykjavíkurborg byggja upp innviði fyrir rafbílaeigendur

Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Það voru þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sem undirrituðu samkomulagið á ársfundi OR í Hörpu nú síðdegis.

Þrír þættir samkomulagsins

Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á 30 fyrirfram ákveðnum stöðum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þeir sjást á meðfylgjandi uppdrætti.
Á allt að 60 stöðum að auki – 20 á ári næstu þrjú árin – verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á borgarlandi með það að markmiði að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Óskað verður eftir tillögum íbúa um staðsetningar. Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið.

Loks munu OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar betur.

Samorka styður frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda

Á aðalfundi Samorku þann 6. mars 2019 var eftirfarandi ályktun um fráveitumál samþykkt:

Samorka hvetur til þess að ríkið stuðli að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum þar sem þörf er á með því að taka upp endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi.

Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans. Á undanförnum áratugum hefur grettistaki verið lyft í að fjölga skólphreinsistöðvum um land allt. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem skólp er hreinsað hjá úr 6% í 68%. Árið 2017 var hlutfallið komið í 77%.

Gera má enn betur í fráveitumálum um land allt. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þyrfti ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög, sér í lagi þau sem eru lítil og meðalstór og er þar með steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Það ætti því að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Á Alþingi hefur verið lagt frumvarp til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt (171. mál). Í frumvarpinu kemur fram að það „felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda“. Þá kemur einnig fram að kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins sé óverulegur þar sem ólíklegt þyki að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Samorka hvetur til þess að frumvarp þetta nái fram að ganga.

Samorka styður innleiðingu þriðja orkupakkans

Á aðalfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, þann 6. mars 2019 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Á árinu 2003 tóku ný raforkulög gildi og aðskilnaður var gerður milli samkeppnisstarfssemi og sérleyfisstarfsemi. Með þeim voru innleidd ákvæði tilskipana Evrópusambandsins í raforkumálum og þá einkum um að þróa markað með raforku þannig að samkeppni tryggi lægsta verð til neytenda. Sömuleiðis voru strangar reglur settar um sérleyfisstarfsemina og verðlagningu á flutningi og dreifingu raforku með hag neytenda í huga. Frekari þróun á þessari löggjöf, sem jafnan er nefnd þriðji orkupakkinn, felur í sér aukið sjálfstæði eftirlitsaðila, frekari kröfur um aðskilnað milli sérleyfisþátta og samkeppnisþátta og þar með að efla raforkumarkaðinn. Með framangreinda meginþætti í huga styður Samorka innleiðingu á þriðja orkupakkanum.

Nánari upplýsingar um þriðja orkupakkann.

Orkustefna er leiðarljós

Aðalfundur Samorku, sem haldinn var 6. mars 2019 á Grand hótel Reykjavík, ályktaði um orkustefnu:

Á sama tíma og heimurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum er ljóst að tækifæri Íslendinga til jákvæðra aðgerða eru einstök. Landið er ríkt af auðlindum sem gerir okkur kleift að ganga bjartsýn inn í næstu orkuskipti.

Sem aldrei fyrr er samfélag okkar, heimili, atvinnurekstur og þjónusta, grundvallað á orku. Orku- og veitufyrirtækin reka samfélags¬lega mikilvæga innviði sem jafnframt eru grunnur að rekstri annarra mikilvægra innviða.

Skýr stefnumörkun í orkumálum er því afar mikilvæg og fagnaðarefni að vinna við orkustefnu sé nú hafin hjá ríkistjórn Íslands.

Orkustefna þarf að tryggja orkuöryggi landsmanna, nægt framboð af orku sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, að hér sé skilvirkt og hagkvæmt regluverk og traustir orkuinnviðir. Hafa þarf í huga að orkuöryggi snýr bæði að raforku og heitu vatni.

Orkustefna þarf að styðja við að orkuframleiðsla verði áfram ein af grunnstoðum efnahags- og samkeppnishæfni þjóðarinnar um leið og hún gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Orkustefna þarf þannig að vera skýrt leiðarljós inn í sjálfbæra framtíð.

Dagur kalda vatnsins

Hreint neysluvatn er mikil auðlind

Í dag 22. mars er alþjóðlegur dagur kalda vatnsins. Þema dagsins í ár er aðgengi að neysluvatni.

Á Íslandi búum við við afar gott aðgengi að hreinu neysluvatni, sem stuðlar að heilbrigði allra landsmanna. Vatnið er okkar helsta auðlind.

Meðalnotkun heimilis í Reykjavík er 165 lítrar af köldu vatni á dag á hvern einstakling, sem er það hæsta sem gerist á Norðurlöndunum. Vatnsnotkun í iðnaði er miklu meiri en heimilisnotkun. Sérstaklega á þetta við um fiskiðnaðinn þar sem mikið vatn er notað til að þvo og kæla fiskinn. Til fiskeldis, iðnaðar, neysluvatns, húshitunar og fleira nýtast 10 rúmmetrar af ferskvatni á sekúndu, eða um tvöfalt rennslu Elliðaánna. Það magn er þó minna en 1% auðlindarinnar á landinu.

Milljarðar manna um allan heim búa ekki svo vel að hafa aðgengi að hreinu neysluvatni og er það eitt af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að breyta því fyrir árið 2030.

Á vef Samorku fá finna fleiri upplýsingar um vatnið okkar.

Til hamingju með dag kalda vatnsins!

Konur viðmælendur í 30% tilfella

Konur eru töluvert sjaldnar viðmælendur en karlar í fréttum ljósvakamiðla um orkumál, eða í aðeins 30% tilfella. Þetta kynjahlutfall er lægra en almennt gerist í fréttum ljósvakamiðla.

Þetta kemur fram í Fjölmiðlalykli fyrir árið 2018, sem félagið Konur í orkumálum hefur birt og sýnir tölfræði um kynjaskiptingu viðmælenda í fréttum ljósvakamiðla um orkumál á árinu 2018. Gögnin eru unnin upp úr greiningu Fjölmiðlavaktar Creditinfo.

Nokkur munur reyndist á kynjaskiptingu viðmælenda fyrri hluta árs og síðari hluta árs. Skýringin liggur í tvöföldun á fréttum sem tengjast Orku náttúrunnar á haustmánuðum og fjölgun kvenviðmælenda vegna málsins.

Harpa Þórunn Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum, segir mikilvægt að varpa ljósi á þessa tölfræði því hún endurspegli ásýnd geirans, hverjir eru talsmenn orkumála og fyrirmyndir.

„Það er mikilvægt að við séum öll meðvituð um þessi ójöfnu hlutföll þar sem verulega hallar á kvenviðmælendur og því er hér verk að vinna við að rétta þessa stöðu af.“ segir Harpa.

Stefnt er að því að gefa Fjölmiðlalykil KíO reglulega og fylgjast þannig með þróuninni.

Konur í orkumálum er félag kvenna í orkugeiranum og eru félagskonur- og menn úr aðildarfélögum Samorku en einnig öðrum fyrirtækjum og stofnunum svo sem háskólaumhverfinu, rannsóknarstofnunum og ráðgjafastofum af ýmsum toga.

Fyrirlesarar óskast á alþjóðlega hitaveituráðstefnu

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.

Óskað er eftir áhugaverðum fyrirlestrum á ráðstefnuna og opnað hefur verið fyrir tillögur á heimasíðu ráðstefnunnar, sdec.is. Í boði eru fjölbreytt umfjöllunarefni og mega erindin vera bæði um efni vísindalegra greina eða rannsókna, sem og byggð á reynslu fyrirlesarans. Frestur til að skila inn tillögu að erindi er 1. apríl 2019. Erindin verða flutt á ensku á ráðstefnunni.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

Orkustefna mikilvæg fyrir alla

Orkustefna í mótun var umfjöllunarefni ársfundar Samorku sem haldinn var miðvikudaginn 6. mars á Grand hótel í Reykjavík.

Myndband Samorku um þær spurningar sem orkustefna þarf að taka á

Guðrún Sævarsdóttir, formaður starfshóps stjórnvalda um mótun orkustefnu fyrir Ísland, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Toril Johanne Svaan, deildarstjóri í norska orkumálaráðuneytinu, fluttu erindi og fjölluðu meðal annars um þeirra hluta sem orkustefnu er ætlað að taka mið af, hvaða spurningum orkustefna þarf að svara og reynslu Noregs af mótun sinnar orkustefnu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði fundargesti sem og Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku.

Guðrún Sævarsdóttir sagði frá vinnu starfshóps um mótun orkustefnu og hvert upplegg hans væri frá stjórnvöldum.

Í erindi Guðrúnar kom meðal annars fram að orkustefnu væri meðal annars uppálagt að styðja við orkuskipti í samgöngum og önnur loftslagsmarkmið Íslands.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, ræddi um mikilvægi þess að áherslur orkustefnu væru skýrar og þjóðinni kunnar. Nefndi hann meðal annars orkuöryggi þjóðarinnar, samkeppnishæfni og loftslagsmál sem orkustefna þyrfti að taka á og tryggja þyrfti samfélaginu öllu ávinninginn af orku- og auðlindanýtingu.

„Markmið orkufyrirtækjanna er ekki að virkja sem allra mest, heldur að uppfylla þarfir þjóðarinnar“ sagði Páll meðal annars í erindi sínu.

Toril Svaan deildi reynslu Norðmanna af mótun orkustefnu, hvaða þátta þeir hafi litið til við gerð hennar og helstu áherslna.

Toril Svaan sagði frá reynslu Norðmanna við mótun orkustefnu þar í landi

Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún, ráðherra, meðal annars lengi hafa verið kallað eftir mótun heildstæðrar orkustefnu og gerð hennar væri líklega það mikilvægasta sem við stæðum frammi fyrir á sviði orkumála og auðlindanýtingar almennt.

Ávarp Þórdísar Kolbrúnar, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar

Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku sagði í opnunarávarpi að orkustefna yrði að vera leiðarljós inn í framtíðina.

Húsfyllir var á fundinum, enda um mikilvægt umræðuefni að ræða þar sem orkustefna verður leiðarljós í orkumálum landsins inn í framtíðina. Hér má sjá myndir frá fundinum.