Lokaáfanganum náð í skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu
Ný hreinsistöð skólps á Kjalarnesi hefur tekin í notkun. Þar með er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðva og því risavaxna verkefni, sem uppbyggingarátak fráveitu höfuðborgarinnar hefur verið frá árinu 1995, er lokið. Hreinsun strandlengjunnar í kjölfarið hefur verið nefnd stærsta skref í umhverfishreinsun sem stigið hefur verið hér á landi.
Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með lagningu sjólagnar árið 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns.
Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó.
Veitur buðu Kjalnesingum og öðrum Reykvíkingum að skoða nýju stöðina þegar hún var tekin í notkun og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarpaði gesti ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna.