Alþjóðlegi klósettdagurinn

Klósettdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert á vegum UN Water frá árinu 2013. Honum er ætlað að minna á að ekki búa allir við þann lúxus að hafa salerni á heimili sínu, sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur fólks um allan heim.

Salerni er mikilvægur þáttur í sterku hagkerfi. Þau bæta heilsu almennings, öryggi og sjálfsvirðingu, ekki síst fyrir stúlkur og konur. UN Water hefur það að markmiði að allir jarðarbúar hafi aðgang að salerni fyrir árið 2030. Á vef Sameinuðu þjóðanna um klósettdaginn koma fram athyglisverðar staðreyndir:

  • Talið er að 2,4 milljarðar jarðarbúa búi við ófullnægjandi salernisaðstæður
  • Einn af hverjum tíu jarðarbúa neyðist til að ganga örna sinna utandyra
  • 315.000 börn deyja árlega vegna niðurgangs og vökvataps sem rekja má til óhreins vatns og ófullnægjandi hreinlætis
  • Tapað vinnuframlag vegna veikinda, sem koma mætti í veg fyrir með betra hreinlæti, kosta margar þjóðir allt að 5% af  landsframleiðslu

En einnig gefur dagurinn tilefni til þess að minna á að klósett og klósettferðir er ekki feimnismál, eins og oft vill verða!

Í ár vilja íslenskar fráveitur minna á það faglega starf sem unnið er til að allir geti notað klósettið áhyggjulaust og um leið minna á að ekki má henda hverju sem er í það.
Veitur hafa látið framleiða nýja skemmtilega herferð, Blautþurrkan er martröð í pípunum, þar sem minnt er á að blautþurrkum á að henda í ruslið, ekki í klósettið. Sjá má sjónvarpsauglýsinguna hér fyrir  neðan:

Þá ræddi Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri hjá Veitum, málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Blautþurrkur leysast ekki auðveldlega upp og geta valdið tjóni ef þeim er hent í klósettið. Rör geta stíflast á heimilum með tilheyrandi vatnstjóni og kostnaði við viðgerðir og hreinsibúnaður í fráveitukerfinu vinnur ekki á þessum þurrkum og fer illa í glímunni við þær.

Við bendum sérstaklega á að þó sumir framleiðendur taki fram á umbúðunum að blautþurrkurnar þeirra megi fara í klósettið þá er það ekki rétt.

Þetta á að sjálfsögðu við um fleiri hreinlætisvörur:

Blautþurrkur
Bleiur
Dömubindi
Túrtappa

Í ruslið með þetta allt – það er hundleiðinlegt að fást við afleiðingarnar ef það ratar í klósettið.

Göngum vel um klósettið okkar – það er mikilvægur þáttur af okkar daglega lífi.

Lesa má frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðlega klósettdagsins.