Vindorka er sjálfsögð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Mikilvægt er að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. Þannig verður Ísland áfram í forystuhlutverki í nýtingu grænnar orku.
Í umfjöllun um vindorku í nýrri orkustefnu fyrir Ísland kemur eftirfarandi fram: „Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðhita, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu.“
Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni. Það getur veitt Íslandi samkeppnisforskot nú þegar vindorka verður sífellt hagkvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram. Að auki fellur framleiðsla vindorku vel með annarri orkuframleiðslu. Með því að nýta vindorku er áfram stuðlað að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.
Hér á landi hafa komið fram hugmyndir um marga vindorkukosti til nýtingar. Hins vegar skortir mjög á fullnægjandi lagaumgjörð svo þeir geti fengið eðlilegan framgang. Að mati Samorku er mikilvægt að regluverk um vindorku sé skýrt og skilvirkt.
Vindorkunýting hefur sérstöðu þar sem hægt að reisa vindmyllur og vindorkuver nánast hvar sem er út frá tæknilegum sjónarmiðum, umhverfisáhrif hennar eru afturkræf með öllu og er að mestu leyti bundin við þann tíma sem nýting stendur yfir. Þetta skapar tækifæri til að hafa regluverkið einfaldara en um aðra orkunýtingu. Það myndi einnig auðvelda nýjum og minni framleiðendum að koma inn á markaðinn, sem stuðlar að aukinni samkeppni.
Á þingmálaskrá er komið fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að mat á vindorkukostum fari fram á vettvangi rammaáætlunar. Samhliða er unnið að breytingu á Landsskipulagsstefnu með tilliti til vindorku sem hefur áhrif á skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
Núverandi tillögur að breytingum á lögum um rammaáætlun og Landsskipulagsstefnu þýða að um vindorku gildi tvöfalt kerfi; að vindorka verði áfram í rammaáætlun og að fjallað verði um hana í Landsskipulagsstefnu. Verði það raunin blasir við að ferlið um vindorku flækist enn meir í stað þess að það sé einfaldað. Það skýtur einnig skökku við að svo umhverfisvænn orkukostur þurfi að fara í gegnum þyngsta ferlið.
Að mati Samorku er eðlilegt að vindorkukostir séu afgreiddir í gegnum skipulagsferla sveitarfélaga, sem tekur mið af Landsskipulagsstefnu. Í þeirri vinnu er aðkoma almennings og hagsmunaaðila tryggð og með mati á umhverfisáhrifum er tryggt að neikvæð umhverfisáhrif séu lágmörkuð og framkvæmdin í góðu samræmi við umhverfissjónarmið, sem er mikilvægt að mati Samorku. Með vandaðri útfærslu á viðauka í Landsskipulagsstefnu verður óþarft að vindurinn sé líka í ferli rammaáætlunar.
Að mati Samorku hentar rammaáætlunarferlið ekki fyrir vindorkuna af þeim ástæðum sem koma fram hér að ofan. Þar að auki hefur ferlið reynst tímafrekt og ekki til þess fallið að liðka fyrir hagnýtingu vindorku. Ekkert tillit er tekið til orkuöryggis í rammaáætlun og ferlið tryggir ekki að orka sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt, m.t.t. bæði umhverfissjónarmiða og hagsmuna atvinnulífs, sveitarfélaga og samfélagsins almennt.
Samorka tekur undir eftirfarandi áherslur í orkustefnu fyrir Ísland: „Nauðsynlegt er að hafa öfluga stjórnsýslu sem getur uppfyllt sínar skyldur með skilvirkum hætti og styðji þannig við þarfir samfélagsins er varða orkumál. Ferli leyfisveitinga þarf að tryggja að aðilar uppfylli kröfur um leið og það er einfalt og skilvirkt þannig að tímafrestir séu hæfilegir í samanburði við það sem best gerist í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við“. Að mati Samorku stefnir ekki í að þessi markmið orkustefnu um einfalt og skilvirkt regluverk verði uppfyllt.