Um allan heim er lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, en þar er Ísland í einstakri stöðu, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, meðal annars í grein í Morgunblaðinu. Í greininni fjallar Gústaf m.a. um ályktun aðalfundar Samorku um loftslagsmálin, Ísland og endurnýjanlega orkugjafa.
Fréttir
Fréttir
Loftslagskvótar myndu auka verðmæti orkulinda okkar
Tími ódýrs jarðefnaeldsneytis er liðinn og loftslagið þolir ekki meiri útblástur, sagði Þorkell Helgason orkumálastjóri í erindi á fundi Samorku. Hann sagði vonandi nást samstaða þjóða á meðal um kröftuga stjórn á loftslagsmálum og að æskilegast væri að það yrði með almennum framseljanlegum losunarkvótum. Markaðsöflin myndu þá sjá til þess að lausnir yrðu fundnar. Við Íslendingar erum í grundvallaratriðum vel settir í þessu samhengi. Við þurfum ekki að óttast loftslagskvóta; þvert á móti auka þeir verðmæti orkulinda okkar. Við ættum því að fagna slíku fyrirkomulagi, sagði Þorkell meðal annars, og bætti því við að við ættum að hasla okkur völl í alþjóðasamfélaginu á sviði vistvænnar orku.
Franz Árnason nýr formaður Samorku
Á aðalfundi Samorku var Franz Árnason, Norðurorku, kjörinn formaður stjórnar og tekur hann við formennsku af Friðrik Sophussyni, Landsvirkjun. Þórður Guðmundsson, Landsneti, kemur nýr í stjórn í stað Kristjáns Haraldssonar, Orkubúi Vestfjarða. Kristján er varamaður í nýrri stjórn og kemur þar inn í stað Páls Pálssonar, Skagafjarðarveitum.
Aðalfundur Samorku ályktar um loftslagsmál
Ísland er í einstakri stöðu en hér eru nú um 72% heildarorkunýtingar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, og nær 100% ef horft er til raforkuframleiðslu og húshitunar. Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna nýtingar þessara endurnýjanlegu orkulinda er hverfandi samanborið við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við svonefnda Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðjuvera, enda yrðu loftslagsáhrif af starfsemi þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Nýlega var nefnt dæmi um sjöfalda losun gróðurhúsalofttegunda vegna álvers sem byggir á orku frá kolum, miðað við álver sem nú er verið að reisa hér á landi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun aðalfundar Samorku um loftslagsmál.
Heimurinn allur undir
Vegna hlýnunar á lofthjúpi jarðar er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, sem ekki losa gróðurhúlofttegundir eins og jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Fyrirtækið Geysir Green Energy hefur sett sér það markmið að verða alþjóðlega leiðandi fyrirtæki á sviði jarðvarma. Fyrirtækið leitar markaðstækifæra í virkjun jarðvarma, fjárfestir í þróun og smíði jarðvarmavirkjana, yfirtekur jarðvarmavirkjanir í eigu orkufyrirtækja og tekur þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja víðs vegar um heiminn. Markaðssvæðið er heimurinn allur. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysir Green Energy, á fundi Samorku.
Sérstaða Íslands í loftslagsmálum
Enginn vafi er á að bæði einstaklingar og atvinnulíf munu finna fyrir auknum kröfum um að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum, segir í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins. Þar segir jafnframt meðal annars: Atvinnulíf á Íslandi stendur hins vegar almennt vel að vígi á þessu sviði m.a. vegna þess að raforkuframleiðsla á Íslandi veldur ekki útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að loftslagsbreytingar megi fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, landbúnaðar og breytinga á landnotkun. Alþjóðasamfélagið hefur jafnframt viðurkennt sérstöðu Íslands sem felst í nýtingu á endurnýjanlegum orkulindum, t.d. við framleiðslu á áli sem feli í sér minni áhrif á veðurfarskerfi heldur en almennt gerist með álframleiðslu annars staðar í heiminum.
Aðalfundur Samorku 9. feb. 2007
Aðalfundur Samorku fyrir árið 2006 verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík 9. feb. n.k. Bryddað verður upp á þeirri nýjung, að bjóða til fundar nokkrum góðum gestum úr þjóðlífinu.
Fyrsti hátækniiðnaðurinn á Íslandi
Nýting endurnýjanlegra orkulinda er gott dæmi um hátækni- og þekkingariðnað sem styður jafnframt við aðrar slíkar atvinnugreinar og stuðlar þannig með fjölbreyttum hætti að öflugu mennta-, rannsókna- og nýsköpunarumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Morgunblaðinu. Í greininni fjallar hann um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda sem þekkingariðnað og vitnar m.a. til orða Ágústar Valfells, lektors við Háskólann í Reykjavík, sem hefur lýst virkjun raforku og álframleiðslu sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi.
Öryggi og heilbrigði á vinnustað Allra hagur
Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf og Rannsóknarþjónustan Sýni ehf. standa fyrir námstefnu þann 31. janúar n.k. undir yfirskriftinni ,,Öryggi og heilbrigði á vinnustað Allra hagur sjá nánar í meðfylgjandi dagskrá.
Ný reglugerð um áhættumat og forvarnir á vinnustöðum
Vinnueftirlitið stendur fyrir ráðstefnu um áhættumat og forvarnir á vinnustöðum þriðjudaginn 23. janúar kl. 13-16 á Grand Hótel. Á ráðstefnunni verða kynnt ný ákvæði um skyldu atvinnurekenda til að gera áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.