fbpx

Fréttir

Uppspretta verðmæta, þekkingar og lífsgæða

„Mikil umræða hefur farið fram hérlendis undanfarin ár um jafnvægi milli nýtingar á orkulindum annars vegar og náttúruverndar hins vegar. Flestir ef ekki allir munu sammála um mikilvægi verndunar. Jafnframt viljum við halda áfram að nýta okkar ríku auðlindir. Verði það ekki gert náum við ekki að viðhalda og þróa áfram þá miklu þekkingu sem við búum yfir á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda og halda þannig áfram að bæta lífskjör í landinu.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í inngangsávarpi Franz Árnasonar, formanns Samorku, í blaðinu Íslensk orka sem dreift er með Morgunblaðinu. Í blaðinu fjallar Franz m.a. um þekkingu í orkuiðnaði, endurnýjanlegar orkulindir, loftslagsmál og lágt raforkuverð á Íslandi.

Virkjanir og ferðaþjónusta

Hátt í eitt hundrað þúsund manns heimsækja íslensk orku- og veitufyrirtæki á ári hverju, einkum virkjanir. Ennfremur bendir allt til að mikil fjölgun sé framundan í þessu samhengi, ekki síst í tengslum við væntanlega opnun Heillisheiðavirkjunar í nágrenni Reykjavíkur. Hluti þessara gesta eru raunar ekki ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlendir gestir úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála, sem í fjölmörgum tilfellum hafa jafnvel komið hingað til lands gagngert til að kynna sér nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi.

Málþing um slys af völdum rafmagns

Málþing fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana og fagfólk í rafiðnaði
Aðalfyrirlesarar: Bo Vejerstad yfirlæknir og Lars Ole Goffeng sérfræðingur, báðir frá Statens arbeidsmiljøinstitutt í Noregi.
Dagsetning og tími: föstudagur 4. maí frá kl. 08.30 – 15.30.
Staður: Askja, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands og hefst kl 08.30.

Formaður SA: Orkusala til erlendra stórfyrirtækja arðsöm – frestun á uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar yrði ótrúleg skammsýni

„Því hefur verið haldið fram, að erlend stórfyrirtæki sæki hingað til lands vegna þess að rafmagn sé fáanlegt á gjafverði. Hið rétta er, að verðið stendur undir þeim kostnaði, sem öflun orkunnar hefur í för með sér, og skilar eigendum orkufyrirtækjanna hæfilegum arði.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna. Ingimundur fjallaði meðal annars um fjárfestingu í orkuöflun og uppbyggingu orkufreks hátækniiðnaðar sem legði drög að útflutningstekjum til langrar framtíðar, um hátekjustörf í slíkum greinum og sagði að mikill árangur undanfarinna áratuga á íslenskum vinnumarkaði hefði að stórum hluta verið borinn uppi af auknum umsvifum í orkufrekum hátækniiðnaði og afleiddum áhrifum þeirra. Ingimundur sagði það ótrúlega skammsýni ef íslensk stjórnvöld létu sér detta í hug að gefa út yfirlýsingu um það, að nú skyldi öllum hugmyndum um orkufrekan hátækniiðnað slegið á frest.

2,3 milljarðar til landeigenda – milljarður í umhverfisverkefni

Orku- og veitufyrirtæki greiddu samtals um 2,3 milljarða króna til landeigenda og veiðirétthafa á árunum 2001-2006, vegna landnota. Á sama tíma greiddu fyrirtækin rúman milljarð króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna. Loks greiddu fyrirtækin á sama tíma yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda, sem meðal annars tengdust umhverfismálum.

Norska orkuveitusambandið heldur HMS deildarfund á Íslandi

Norska orkuveitusambandið EBL heldur deildarfund um heilbrigði, umhverfi og öryggi á vinnustað (HMS) 10. og 11. maí n.k. á Radison SAS hótel Sögu í Reykjavík.
Víst er að þarna er um mjög svo áhugaverða ráðstefnu að ræða. Nálægt 100 fulltrúar sækja fundinn og koma frá orkufyrirtækjum frá öllu landinu.
Fjallað er um öryggismál , umhverfismál og vinnuumhverfi á víðum grundvelli.
Auk norsku fyrirlesaranna fræða nokkrir íslenskir fyrirlesarar frændur vora um íslensk orkumál og atvinnulífsmenningu.
Íslensku orkufólki er gefinn kostur á þátttöku.

500 ársverk verk- og tæknifræðinga – yfir 15 milljarðar í rannsóknir, hönnun og vísindi

Samorka hefur tekið saman upplýsingar um fjölda háskólamenntaðra í hópi starfsfólks aðildarfyrirtækja sinna, sem og um fjármagn sem þessi fyrirtæki verja til rannsókna, hönnunar og vísinda. Tilefnið er hávær umræða þar sem orkufyrirtækjum er ítrekað stillt upp sem andstæðu við svonefnd þekkingarfyrirtæki, þrátt fyrir tíðar fréttir af útrás orkuþekkingar. Ljóst er að engin innistæða getur talist fyrir því að stilla íslenskum orku- og veitufyrirtækjum upp sem einhvers konar andstæðu við þekkingarfyrirtæki. Þannig má nefna að á árunum 2001 til 2006 vörðu þessi fyrirtæki yfir 15 milljörðum króna til rannsókna, hönnunar og vísinda. Þá voru 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum á liðnu ári, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga.

Auglýst eftir erindum á Norræna fráveituráðstefnu

Norrænu vatns og fráveitusamtökin standa fyrir sinni tíundu fráveituráðstefnu 12 ? 14 nóvember nk. í Hamar í Noregi. Efni ráðstefnunnar verður um nýjustu tækni í hreinsun skolps, meðhöndlun seyru, rekstur hreinsistöðva, rekstur fráveitukerfa og hrörnun þeirra, EB tilskipanir er varða fráveitur og hvaða eiturefni það eru sem valda mestum usla.

Er Finnland fyrirmynd?

Á blaðamannafundi Íslandshreyfingarinnar á dögunum var því haldið fram að Finnar væru fegnir því að hafa hætt við virkjanaframkvæmdir og þess í stað einblínt á hátækni- og þekkingariðnaðinn. Helmingurinn af raforku Finna kemur frá brennslu jarðefnaeldsneyta og fjórðungur frá kjarnorku. Það er rétt að líkt og Íslendingar hafa Finnar náð miklum árangri á sviði efnahagsmála og hagvöxtur þar hefur nálgast þann mikla hagvöxt sem við höfum notið. Það er hins vegar hæpið að nokkur maður telji Finnland vera Íslandi fyrirmynd hvað varðar orkubúskap. Á Íslandi er nýting endurnýjanlegra orkulinda dæmi um hátækni- og þekkingariðnað.

Ertu að leita að þessu?