fbpx

Fréttir

Ásgeir Sæmundsson stöðvarstjóri

Ásgeir Sæmundsson fyrverandi stöðvarstjóri í Andakílsárvirkjun er látinn.
Hann var fæddur 1923 og lést á Landsspítala Íslands mánudaginn 26. nóvember.
Ásgeir var rafvélavirkji og rafmagnstæknifræðingur. Hann lærði iðn sína hjá Bræðrunum Ormsson og tæknifræði í Tekniske Institute í Stokkhólmi.
Hann vann að rafveitumálum og rafvæðingu landsins um langt skeið og var m.a. stöðvarstjóri Andakílsárvirkjunar. Samorka minnist áhugasams og tillögugóðs félaga um leið og hún vottar aðstendendum fyllstu samúðar.

Ný tegund gagnrýni: farið að lögum

„Nú er komin fram ný tegund af gagnrýni á hendur einu fyrirtæki vegna virkjanaframkæmda,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Morgunblaðinu. „Í fjölmiðlum, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, var það gert tortryggilegt að umrætt fyrirtæki skyldi sjálft hafa látið vinna umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þetta er afar athyglisverð gagnrýni, því óvart er mælt fyrir um það í lögum um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili láti vinna slíkt mat. Matsferlið er hins vegar langt og að því koma ýmsir umsagnaraðilar auk að sjálfsögðu skipulagsyfirvalda, og ekki skal farið nánar út í það hér. En varla getur það talist eðlilegt að fyrirtækið sé gert tortryggilegt fyrir að fara eftir þeim lagabókstaf sem við á.“

Samkeppni um útilistaverk í Mosfellsbæ – hitaveita í 100 ár

Samorka og Mosfellsbær auglýsa í sameiningu eftir þátttakendum í forvali fyrir lokaða samkeppni um gerð útilistaverks sem rísa á í maí 2008á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefnið er 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi árið 2008, þar sem miðað er við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908. Ennfremur fagnaði Mosfellsbær 20 ára afmæli árið 2007 og ákvað bæjarstjórn af því tilefni standa að gerð útilistaverks í bænum. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir þátttakendum í forvali en að í kjölfarið fari fram lokuð samkeppni þriggja listamanna sem forvalsdómnefnd velur úr þátttakendum í forvali.

Námskeið um innra eftirlit vatnsveitna

Föstudaginn 19. okt. sl. var haldið námskeið um innra eftilit og hreinlæti hjá vatnsveitum. Áherslan var á hvernig standa ætti að kerfisbundnu fyrirbyggjandi eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns. Íslenskar vatnsveitur hafa staðis sig vel í að setja upp gæðakerfi í vatnsveitum og nú búa um 77% íbúa landsins við það að fá vatn frá vatnsveitu sem hefur slíkt fyrirbyggjandi eftirlit.

Alþjóða jarðhitasamfélagið þingar á Íslandi – aðalfundur IGA og haustþing JHFÍ

Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 9. október um alþjóðlega þróun og horfur á sviði jarðhitanýtingar. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mun opna fundinn en í kjölfarið mun fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga flytja erindi um þróun og horfur á þessu sviði. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst kl. 8:45. Fundurinn verður á ensku og er hann haldinn í tengslum við aðal- og stjórnarfund Alþjóða jarðhitafélagsins (International Geothermal Association – IGA) hér á landi dagana 10. og 11. október.

Rafveituvirkjanám

Rafveituvirkjanám er nú hafið við Iðnskólann í Reykjavík.
Til náms eru skráðir 20 nemendur.
Kennslan fer fram í lotum, þannig að einungis er kennt eitt fag í hverri lotu. Á þann hátt er komið til móts við nemendur sem eru í fastri vinnu.
Ekki hefur nein kennsla í þessari löggiltu iðngrein farið fram á undanförnum árum. Hér er því virkilega verið að koma til móts við þarfir atvinnulífsins, sérstaklega raforkufyrirtækjanna.

Samningur um ljósastaura- útboð á ljósaperum

Þriðjudagurinn 18. september var annasamur dagur hjá innkaupanefnd Samorku. Þann dag fór fram formleg undirritun á samningi Samorku við Sandblástur og Málmhúðun ehf. um kaup á ljósastaurum fyrir rafveiturnar. Samdægurs voru opnuð tilboð í útboð Samorku á ljósaperum fyrir sömu aðila.

Vatnsmæling í grennd – Samorka styður þátttöku skólabarna í alþjóðlegu verkefni

Skólaverkefni þar sem börn í 6. og 7. bekk mæla gæði vatnsins í sínu nágrenni verður unnið á tímabilinu 18. september til 18. október. Þetta er gert að alþjóðlegri fyrirmynd – „World Monitoring Day.“ Mælt er uppleyst súrefni, sýrustig, grugg og hitastig. Allir þessir þættir vísa á heilnæmi vatnsins fyrir lífríkið, en verkefninu er ætlað að efla vitund um mikilvægi góðrar umgengni við vatnið, hvað mengi vatnið og hvernig megi draga úr mengun vatns. Um leið vilja Samorka og vatnsveiturnar vekja athygli á heilnæmi íslenska vatnsins og virkja rannsóknaráhugann og „vísindamanninn“ í íslenskum skólabörnum. Sex grunnskólar taka þátt í verkefninu.

Miklar fjárfestingar framundan í orkukerfum jarðar

Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn, fjallaði um atvinnulíf og loftslagssamninga á fundi Samtaka atvinnulífsins. Halldór kom víða við í fyrirlestri sínum og fjallaði um kolefnismarkaði, stöðuna í alþjóðaviðræðum, hvað taki við eftir 2012 og svo framtíðarsýn um hvernig verði dregið úr útstreymi til lengri tíma. Halldór lagði áherslu á að loftslagsvandinn yrði leystur af atvinnulífi með nýrri tækni, rannsóknum og því að efnahagslegir hvatar leiði til hagkvæmra lausna. Hann sagði mikilvægt að alþjóðasamningar skapi ramma til langs tíma sem bæði hvetji til fjárfestinga í nýrri tækni og gefi þróunarríkjum tækifæri til þátttöku. Þá sagði Halldór miklar fjárfestingar framundan í orkukerfum jarðar.

Ertu að leita að þessu?