Skoða þarf leiðir til einföldunar á flóknu laga- og regluumhverfi orku- og veitufyrirtækja, en dæmi eru um að sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umfjöllunar hjá sömu umsagnaraðilum. Umræðan um orku- og veitumál einblínir um of á eignarhaldið, efling flutningskerfis raforku er brýnna verkefni en margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð, dráttur á greiðslum ríkissjóðs vegna nýrra hitaveitna stefnir að óbreyttu í um150 milljónir króna á árinu og afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og þær fengu við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun aðalfundar Samorku.
Fréttir
Fréttir
Ný stjórn Samorku – Franz Árnason áfram formaður
Aðalfundur Samorku kaus Pál Pálsson Skagafjarðarveitum nýjan í stjórn í stað Ásbjörns Blöndal frá Hitaveitu Suðurnesja (og áður Selfossveitum). Franz Árnason, Norðurorku, gegnir áfram formennsku en hann var kjörinn formaður til tveggja ára á aðalfundi samtakanna 9. febrúar 2007. Ný stjórn á að öðru leyti eftir að skipta með sér verkum.
Álið framúr sjávarafurðum í útflutningsverðmæti
Samkvæmt útreikningum Greiningardeildar Kaupþings má búast við að útflutningsverðmæti áls aukist úr rúmum 80 milljörðum króna í um 135 milljarða á þessu ári og verði komið í um 140 milljarða á árinu 2009. Á sama tíma mun útflutningsverðmæti áls í fyrsta skipti fara fram úr útflutningi á sjávarafurðum á þessu ári, samkvæmt spá greiningardeildarinnar. Þá segir að hagvöxtur næstu ára muni verða drifinn áfram af viðsnúningi í utanríkisviðskiptum, þar sem álútflutningur aukist og innflutningur dragist saman.
Hrein orka: Ísland er með 75%, ESB stefnir á 20%
Evrópusambandið hefur m.a. sett sér markmið um að árið 2020 verði hlutur endurnýjanlegra orkugjafa innan sambandsins orðinn 20% og að fyrir sama tíma hafi náðst 20% samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda. Í grein í 24 stundum bendir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, á að sjaldan sé fjallað um þessi markmið í samhengi hérlendis. Á Íslandi sé hlutur endurnýjanlegra orkugjafa nú um 75% og verði orðinn 80% síðar á þessu ári. Þá sé víðast hvar innan ESB horft til breytinga á sviði orkuframleiðslu í því skyni að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, en Ísland geti ekki flutt þá umræðu inn hráa enda forskot okkar gríðarlegt og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa þegar afar hátt.
Franz kjörinn formaður Nordvarme
Franz Árnason, forstjóri Norðurorku hf. og formaður stjórnar Samorku, var á dögunum kjörinn formaður Nordvarme til næstu tveggja ára. Jafnframt mun Samorka hafa veg og vanda af skrifstofuhaldi samtakanna á sama tíma. Nordvarme er samstarfsvettvangur Norðurlandanna í málefnum hitaveitu, þar sem meðal annars er fjallað um rannsóknir og þróun, gæðamál, öryggismál, þróun Evrópuregluverks og fleira.
Merki 100 ára afmælis hitaveitu á Íslandi
Hannað hefur verið merki eitt hundrað ára afmælis hitaveitu á Íslandi. Höfundur merkisins er Hlynur Ólafsson, grafískur hönnuður. Merkið sýnir á táknrænan hátt þau bættu lífsgæði sem fólgin eru í hitaveituvæðingu á Íslandi. Samorka heldur í samstarfi við hitaveitur í landinu upp á 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi á þessu ári. Verður þessara tímamóta m.a. minnst með gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp, gerð útilistaverks í Mosfellsbæ og samantekt frá Háskólanum á Akureyri um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar.
Eurelectric vilja opnari markað fyrir græn vottorð innan ESB íslensk raforkufyrirtæki gætu hagnast á slíkri breytingu
Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, telja að áform ESB um stóraukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa muni að óbreyttu draga úr samkeppnishæfni atvinnulífs innan ESB. Samtökin telja mikilvægt að opna betur fyrir viðskipti með svokölluð græn vottorð um endurnýjanlega orku. Helst myndu samtökin vilja að raforkuframleiðendur og seljendur í ríkjum eins og Íslandi hefðu mun greiðari aðgang að þeim markaði. Ljóst er að íslensk fyrirtæki gætu hagnast á slíkri breytingu.
Hátíð í Hafnarfirði
Það er ekki á hverjum degi sem ný vatnsaflsvirkjun er tekin í notkun.
Föstudaginn 17. janúar s.l. var Reykdalsvirkjun, hin nýja, formlega gangsett.
Það er forsaga þessa atburðar að þegar Samorka minntist 100 ára rafvæðingar á Íslandi, þá var ákveðið að færa Hafnfirðingum að gjöf túrbínu og rafala af sömu stærð og vélar Jóhannesar Reykdals voru í upphafi.
SA: Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum verði tryggðir
Við gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um loftslagsmál hljóta íslensk stjórnvöld að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og þann árangur sem náðst hefur í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, segir í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. Endurnýjað íslenskt ákvæði verður að tryggja að hægt verði að ráðast í þau verkefni sem þegar eru áætlanir um og að hægt verði að halda áfram uppbyggingu hér á landi á þeim tíma sem nýju samkomulagi er ætlað að vara. Þannig tryggja stjórnvöld hagsmuni íslensks atvinnulífs og um leið þjóðarinnar í bráð og lengd.
John Snow Senat stofnað
Stofnað hefur verið John Snow Senat. Megin markmið þess er að vekja athygli á mikilvægi vatnsmála og þörf á þverfaglegri nálgun til að tryggja heilnæmi neysluvatns. Óformlegur félagskapur John Snow sem er deild í alþjóðlega John Snow Society hefur verið starfandi hér á landi síðan 2000.