fbpx

Fréttir

Fræðslufundur um innkaup veitufyrirtækja

Innkaupahópur Samorku gengst fyrir fræðslufundi um innkaup veitna. Fundurinn fer fram á Grandhótel Reykjavík 8. maí n.k.Hann hefst kl. 8. 30 með skráningu og léttum morgunverði. Fundurinn er ætlaður öllum þeim sem hafa með inkaup veitna að gera. Markmiðið er að fræðast um þau lög og þær reglugerðir sem gilda um opinber innkaup, útboðsreglur og skilmála.

Ársfundur Eurelectric í Barcelona, 16.-17. júní

Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, halda ársfund sinn í Barcelona dagana 16.-17. júní. Á fundinum verður m.a. fjallað um uppbyggingu sameiginlegs raforkumarkaðs ESB, metnaðarfull markmið framkvæmdastjórnar ESB í orku- og loftslagsmálum og um orkunýtingu í nútíð og framtíð. Dagskrá og allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Eurelectric.

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands á morgun, þriðjudag

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 22. apríl, í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Fundurinn hefst kl. 15:30. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti kynna stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði. Boðið verður upp á kaffiveitingar í fundarlok.

Sýning á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk

Laugardaginn 5. apríl var opnuð sýning í Bókasafni Mosfellsbæjar á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk sem Samorka og Mosfellsbær munu reisa á nýju torgi við Þverholt. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007. Vinningstillagan er verkið „Hundraðþúsundmiljón tonn af sjóðheitu vatni“ eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann. Er þar í titlinum vísað til orða Halldórs Kiljan Laxness í bókinni Innansveitarkróniku. Einnig eru til sýnis tillögur tveggja annarra listamanna sem forvalsdómnefnd samkeppninnar valdi úr hópi 16 tillagna til frekari þróunar í lokaðri samkeppni.

Framkvæmdir og leikreglur

„Bygging álvers í Helguvík á einfaldlega að lúta þeim almennu leikreglum sem öll fyrirtæki lúta með sínar framkvæmdir og fjárfestingar. Umhverfismat, framkvæmdaleyfi, skipulagsmál og hvað það nú allt heitir sem unnið hefur verið að í fjögur ár, í samstarfi við sveitarstjórnir og fleiri aðila. En það er ekki hlutverk stjórnmálamanna eða svonefndra kjaftastétta að fella dóma um þessi áform út frá eigin sjónarmiðum um það hverjum slík störf henti, hversu mikil eftirspurn verði eftir þeim, eða hvort forsvarsmenn umrædds fyrirtækis séu örugglega búnir að reikna dæmið til enda. Ekki frekar en gildir um fjárfestingaráform fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, m.a. í grein í Fréttablaðinu.

Verðmætasköpun í varnarstöðu

„Öll atvinnustarfsemi á einfaldlega að njóta sannmælis og lúta þeim lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni. Mörg þúsund Íslendingar hafa sitt lifibrauð með beinum og óbeinum hætti af starfsemi álvera og þúsundir binda vonir við hugmyndir um þess háttar uppbyggingu og verðmætasköpun í sínu héraði. Þetta fólk er nákvæmlega jafn merkilegt og það fólk sem starfar í öðrum atvinnugreinum og á ekki sífellt að þurfa að þola að lítið sé gert úr því í opinberri umræðu,“ segir m.a. í álitsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í 24 stundum. Hann gagnrýnir þar hvernig þeim sem taka jákvætt í uppbyggingu áliðnaðar er sífellt stillt upp við vegg í opinberri umræðu.

ESB um græna orku: verðmætasköpun og aukið orkuöryggi – tækifæri fyrir Ísland

Svonefndur grænn pakki tillagna ESB í orku- og loftslagsmálum er mikilvægur liður í að efla innra orkuöryggi aðildarríkjanna sem mörg eru mjög háð innflutningi orkugjafa, m.a. á gasi frá Rússlandi. Þá bindur framkvæmdastjórn ESB vonir við að aukin eftirspurn eftir nýrri tækni á sviði grænnar orku og bættrar orkunýtingar muni fela í sér viðskiptatækifæri fyrir evrópsk fyrirtæki nái þau forystu á þessum sviðum, og markmiðin í orku- og loftslagsmálum þannig á endanum skapa ný störf og stuðla að hagvexti. Þetta kom fram í máli forystumanna ESB á aðalfundi Evrópusamtaka atvinnulífsins, þar sem fjallað var um grænna hagkerfi. Ísland er auðvitað í allt annarri stöðu, með margfalt hærra hlutfall innlendra endurnýjanlegra orkugjafa. Meðal annars þess vegna geta hins vegar leynst þarna mikil tækifæri fyrir okkur.

Vorfundur Jarðhitafélagsins á föstudag: Vannýtt tækifæri í lághitanýtingu

Föstudaginn 29. febrúar heldur Jarðhitafélag Íslands vorfund sinn og er yfirskriftin að þessu sinni Vannýtt tækifæri í lághitanýtingu. Fundurinn verður haldinn í Orkugarði að Grensásvegi 9 og erindi flytja þau Haukur Jóhannesson jarðfræðingur á ÍSOR, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Halldór Halldórsson formaður Sambands sveitarfélaga, Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð og Guðjón Axel Guðjónsson skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti. Ásgeir Margeirsson formaður Jarðhitafélagsins setur fundinn.

Iðnaðarráðherra: Græna orkan verði „aðaltrompið í ferðamannaiðnaðinum“

Í ræðu sinni á aðalfundi Samorku spáði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra því að græna orkan ætti eftir að reynast „okkar aðaltromp í ferðamannaiðnaðinum“ og sagði Bláa lónið þar aðeins forsmekkinn. Össur færði fundinum árnaðaróskir ríkisstjórnarinnar vegna 100 ára afmælis hitaveitu á Íslandi og fjallaði um útrás orkuþekkingar, eignarhald á orkuauðlindum, breytt viðhorf til vatnsaflsvirkjana á alþjóðavettvangi og margt fleira.

Taka þarf grundvallarákvarðanir fyrr í þessu langa og flókna ferli

Árni Bragason ráðgjafi hjá Línuhönnun flutti erindi um flókna reglubyrði framkvæmda á aðalfundi Samorku. Árni sýndi „einfaldaða mynd“ af því ferli sem fara þarf í gegnum við nýja orkuöflun og er óhætt að segja að sú mynd sé engu að síður æði flókin. Enda hefur komið fram að þess eru dæmi að ein og sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umsagnar hjá sama umsagnaraðila í svona ferli. Hann lagði áherslu á að taka þyrfti grundvallarákvarðanir sem fremst í þessu langa og flókna ferli. Í dag væri athyglin öll á málinu þegar unnið væri mat á umhverfisáhrifum virkjunar, en það gæti verið mjög seint í ferlinu. Árni tók Bitruvirkjun sem dæmi en árið 2002 var aðalskipulag auglýst án þess að athugasemdir bærust og var það staðfest árið 2003 – og gert ráð fyrir virkjun á Ölkelduhálsi. Svo væri það ekki fyrr en með mati á umhverfisáhrifum virkjunar árið 2007 sem athugasemdir almennings færu að berast og ágreiningur að kvikna meðal stjórnmálamanna.

Ertu að leita að þessu?