fbpx

Fréttir

Neytendastofa vekur athygli á reglugerð um raforkuvirki

Reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971 hefur þjónað sem grundvallarrit um allt er varðar hönnun á, vinnu við og frágang á raforkuvirkjum. Nú hefur staðallinn ÍST 200:2006 tekið gildi fyrir virki í byggingum og aðrir staðlar hafa tekið gildi fyrir háspennuvirki.
Það er mikilvægt að allir rafiðnaðarmenn kynni sér þessar breytingar.

Sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar: möguleikar fyrir jarðhitafyrirtæki

Iðnríkin sem tóku á sig skuldbindingar um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012 geta með verkefnum í þróunarríkjunum aflað sér heimilda til útstreymis sem nýtast heima fyrir. Verkefnin sem ráðist er í verða að draga úr útstreymi í þróunarríkjunum frá því sem ella hefði orðið og uppfylla skilyrði sem almennt eru sett til viðurkenningar verkefnanna. Töluverðir möguleikar eiga að geta falist í því fyrir íslensk jarðhitafyrirtæki að huga að þessum möguleikum þegar undirbúin eru verkefni í þróunarríkjunum, segir á vef Samtaka atvinnulífsins.

Erindi fjölsótts og vel heppnaðs Vorfundar á vef Samorku

Vorfundur Samorku var haldinn á Akureyri í fimmta sinn dagana 22. og 23. maí 2008. Fundurinn heppnaðist vel í alla staði en fundinn sátu á fjórða hundrað manns og alls voru flutt þar 44 erindi. Fjallað var um laga- og regluumhverfi, virkjanir, jarðhitaleit, flutningskerfi, grenndarálestur mæla, öryggismál, rafmagn í samgöngum, hreinsistöðvar, orkuútrásina, fræðslumál, eftirlitsmál, lagnaval, heilbrigðismál, umhverfismál, minjamál og margt fleira. Í tengslum við fundinn sýndu 23 fyrirtæki vörur sínar og þjónustu á fundarstað. Erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.

Hitaveita í 100 ár: Útilistaverk vígt í Mosfellsbæ laugardaginn 31. maí

Laugardaginn 31. maí verður vígt nýtt útilistaverk í Mosfellsbæ, sem Samorka reisir í samvinnu við bæinn í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar. Jafnframt verður vígt nýtt torg við Þverholt, en verkið er hluti af torginu, ásamt með nýju fræðsluskilti sem OR reisir í samstarfi við Mosfellsbæ í tengslum við varðveislu á gömlum hitaveitustokk við torgið.

Reglugerð lögum framar?

„Ef stjórnvald tekur sér vald, með vísan til reglugerðar, sem ekki er að finna í lögum um sama efni eins og Skipulagsstofnun gerir, þá krefst það nánari skýringa,“ segir m.a. í yfirlýsingu frá Samorku vegna svars Skipulagsstofnunar við umfjöllun samtakanna um álit stofnunarinnar á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar. Yfirlýsingin er birt í Morgunblaðinu.

Vandséð annað en Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt

Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lögunum var breytt árið 2005 og í frumvarpinu segir meðal annars, um helstu breytingar á lögunum, að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hlutverk Skipulagsstofnunar er fyrst og fremst það, í þessu tilfelli, að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, sem hún og gerði sem fyrr segir.

Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni?

„Hér skal ekki gert lítið úr hugsanlegum hagsmunum ferðaþjónustunnar af lítt röskuðu svæði við Ölkelduháls líkt og nú er, en ljóst er að þessi niðurstaða kann að setja í uppnám áform um verulega uppbyggingu í atvinnulífi í Þorlákshöfn og víðar og má nefna netþjónabú og kísilhreinsun í því sambandi. Stærðargráðan er yfir hundrað milljarðar króna í erlendri fjárfestingu, nokkur hundruð ný og vel launuð störf og fleiri milljarðar ef ekki milljarðatugir í skatttekjur ríkis og sveitarfélaga. Hér má því eðlilega spyrja hvort einmitt sé ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, m.a. í Morgunblaðsgrein.

Heita vatnið: Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur

Alls nota Íslendingar um 126 milljónir rúmmetra af jarðhitavatni til húshitunar, baða, snjóbræðslu og svo framvegis á ári hverju, eða sem nemur rúmlega 5.200 fullum Hallgrímskirkjum af jarðhitavatni. Þetta kemur fram í nýjum bæklingi sem Samorka hefur gefið út í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Á þessum tímamótum leggja samtökin áherslu á þau bættu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, svo sem heilnæmara andrúmsloft, betur hituð hýbýli og betri tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs sem tengja má við okkar ríku sundlaugamenningu og mikinn fjölda snjóbræðslukerfa.

Frímerki í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi

Íslandspóstur hefur gefið út frímerki í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, en í ár er öld liðin frá því að heitu vatni var veitt úr hver til kyndingar á bænum Syðri-Reykjum í Mosfellssveit. Verðgildi frímerkisins er 75 krónur og hönnuður þess er Pétur Baldvinsson, grafískur hönnuður.

Ertu að leita að þessu?