Samorka skipuleggur sérstaka afmælisdagskrá í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, á alþjóðlegu ráðstefnunni 11th International Symposium on Central Heating and Cooling í Reykjavík. Ráðstefnan stendur yfir dagana 31. ágúst til 2. september, en afmælisdagskrá verður þriðjudaginn 2. september kl. 13:20 15:00. Ráðstefnan fer öll fram á ensku og ráðstefnugjald er kr. 55.000, en ókeypis er inn á afmælisdagskránna og allir velkomnir.
Fréttir
Fréttir
Alþjóðleg ráðstefna um hitaveitur, Reykjavík, 1.-2. september
Mánudaginn 1. og þriðjudaginn 2. september nk. verður haldin alþjóðleg ráðstefna um hitaveitur í Reykjavík. Nánar til tekið er um að ræða 11th International Symposium on District Heating and Cooling, sem Háskóli Íslands heldur í samstarfi við Nordic Energy Research og Samorku. Fundirnir verða haldnir á háskólatorgi HÍ. Þátttakendur verða hátt á annað hundrað og fyrirlesarar koma víðs vegar að úr heiminum. Í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi í ár skipuleggur Samorka sérstaka dagskrá um hitaveitur og nýtingu jarðhita á Íslandi, eftir hádegi þriðjudaginn 2. september.
Gert út á gúrkuna
Auðvitað er allt gott um það að segja ef fólk kýs að eyða sínum frítíma í að mótmæla framkvæmdum sem því hugnast jafn illa og raun ber vitni. Sá réttur er mikilvægur hluti af okkar samfélagsskipan. Hið sama gildir hins vegar um eignarréttinn og um lög og reglu almennt. Fólk getur valið að sýna því umburðarlyndi ef aðrir tjá skoðanir sínar með því að hefta för þess eða skemma eigur þess, en væntanlega kæra sig nú fæstir um mikið af slíku. Engin atvinnustarfsemi á að þurfa að þola uppákomur sem ógna jafnvel öryggi á vinnustöðum og hafa umtalsverðan kostnað í för með sér, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, m.a. í grein í 24 stundum.
Ha, umhverfissinnar?
Hér skal ekki gert lítið úr þeim sjónarmiðum að sumum náttúrusvæðum beri eins og hægt er að hlýfa við hvers kyns ágangi mannsins. Hins vegar virðist sem sumt af því fólki sem talar í nafni umhverfisins vilji ekki heimila neinar virkjanaframkvæmdir neins staðar, að minnsta kosti ekki í þágu iðnaðar. Sama fólk talar síðan iðulega um loftslagsmál og gagnrýnir að hér séu reist iðjuver sem menga andrúmsloftið, þótt ljóst sé að mengunin yrði átta eða níu sinnum meiri ef notuð væri orka frá kolaorkuverum erlendis. Þetta fólk notar síðan auðvitað öll sömu tól og tæki og við hin, framleidd úr afurðum sömu iðjuveranna og það gagnrýnir, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, m.a. í grein í Morgunblaðinu.
Raforka í samgöngum-tengiltvinnbílar
Á nýafstöðnum ársfundi evrópsku rafveitusamtakanna Eurelectric, var m.a. fjallað um rafvæðingu í framtíðinni og sjálfbæra raforkumarkaði. Markmið ESB í orkumálum voru fyrirferðamikil og þá einkum útblástur gróðurhúsalofttegunda, skattlagning orku sem gefur frá sér mengandi lofttegundir og viðskipti með losunarkvóta. Orka í samgöngum var töluvert fyrirferðamikil og var nokkur samhljómur í umfjölluninni þess efnis að sú þróun sem orðið hefði á ökutækjum og búnaði þeirra á seinustu árum kallaði á spurningar hvaða og hvenær en ekki hvort eitthvað kæmi í stað jarðefnaeldsneytis.
Hjörleifur B. Kvaran nýr í stjórn Samorku, Tryggvi Þór Haraldsson nýr varaformaður
Á sérstökum auka-aðalfundi Samorku var Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr meðstjórnandi í stað Guðmundar Þóroddssonar sem nýlega sagði sig frá stjórnarsetu. Þá var Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella, kjörinn nýr varamaður í stjórn í stað Hreins Hjartarsonar sem nýlega sagði sig frá setu sem varamaður í stjórn samtakanna. Á stjórnarfundi í kjölfarið var Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, kjörinn varaformaður en Guðmundur Þóroddsson hafði gegnt því embætti. Tryggvi gegndi áður embætti ritara stjórnar og tók Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, við því. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja gegnir áfram embætti gjaldkera og Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, gegnir áfram embætti formanns, en til þess embættis er kosið beint á aðalfundi.
Tækniskólinn hefur starfsemi
Fjöltækniskóli Íslands og Iðnskólinn í Reykjavík hafa verið sameinaðir í Tækniskólann ehf. Nýtt nafn skólans er Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins og er hann stærsti framhaldsskóli landsins. Gert er ráð fyrir að um 1.800 nemendur stundi nám í dagsskóla á haustönn. Innritun í nýja skólann hefur gengið vel og hafa fleiri umsóknir borist í skólann en samanlagt í Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands seinustu ár. Tækniskólinn er einkarekinn og er rekstrarfélagið í eigu Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.
Óttast upphrópanir og firru
Að sjálfsögðu er það hið besta mál að halda tónleika til stuðnings náttúrunni. Ísland hefur jú mjög græna ímynd, því við erum land hreinu orkunnar, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Morgunblaðið vegna svokallaðra Náttúrutónleika. Tekur hann fram að hann óttist engu að síður að umræðan um virkjanir og náttúruvernd verði of einsleit og uppfull af upphrópunum. Það er stundum tilhneiging til þess að velmeinandi baráttufólk fyrir umhverfismálum grípi til frasa sem ekki eigi við rök að styðjast, segir Gústaf og nefnir sem dæmi um slíkar upphrópanir þá firru að bráðum verði búið að virkja allt Ísland, að raforka til stóriðju sé niðurgreidd og að álfyrirtæki séu hergagnaframleiðendur.
Einkennileg skrif Framtíðarlandsins
Framtíðarlandið sendi á dögunum frá sér ritgerð þar sem fjallað er um meinta ríkisstyrki við stóriðju á Íslandi. Ritgerðin er um margt býsna merkileg, en þar er því til dæmis haldið fram að jákvæð áhrif fullbúinna álvera á viðskiptajöfnuð virðist takmörkuð og tímabundin. Útflutningur vaxi að magni til fyrst eftir að álverksmiðja taki til starfa en haldist síðan lítið breyttur. Þetta er afar merkileg niðurstaða og samkvæmt henni skiptir þessi stöðugi útflutningur þá litlu máli fyrir viðskiptajöfnuðinn nema rétt meðan um aukningu er að ræða.
Nýr forseti Eurelectric: Lars G. Josefsson
Lars G. Josefsson, forstjóri sænska orkufyrirtækisins Vattenfall, var á dögunum kjörinn forseti Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, til þriggja ára. Hann tekur við af Spánverjanum Rafael Miranda, forstjóra spænska orkufyrirtækisins Endesa. Josefsson gegndi áður embætti varaforseta Eurelectric en við því embætti hefur nú tekið Fulvio Conti, forstjóri ítalska orkufyrirtækisins ENEL.