fbpx

Fréttir

„Brýnt að nýta tímann vel til að undirbúa framkvæmdir“

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, að mikilvægt sé að nýta þetta óvissuástand sem nú ríki vel til að undirbúa framkvæmdir. Margir horfi nú til framkvæmda við virkjanir og stóriðju og nokkur slík verkefni séu þegar í undirbúningi. Gústaf fjallar í viðtalinu um mikilvægi þess að stofnanir og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum að undirbúningi slíkra verkefna, en tekur fram að orkufyrirtækin séu ekki að biðja um neina afslætti af gildandi lögum og reglum á sviði umhverfismála. Hins vegar segir hann lagaumgjörð slíkra framkvæmda mjög flókna og að mikilvægt sé að einfalda hana, þótt það sé ekki verkefnið nú til skemmri tíma litið.

ESB: Kjarnorkan inn úr kuldanum

Forgangsröðunin breytist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu, segir formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins. Hann segir erfiðara en áður að leggja áherslu á kostnaðarsamar aðgerðir á sviði loftslagsmála, svo dæmi sé tekið. Forseti framkvæmdastjórnar ESB tekur undir, en varar þó við þessari umræðu, þar sem loftslagsmálin geti orðið margfalt kostnaðarsamara viðfangsefni en núverandi fjármálakreppa. Enginn vilji sé þó fyrir því að setja einhliða svo stífar reglur að ESB flytji út losun gróðurhúsalofttegunda en flytji inn atvinnuleysi. Hann segir ljóst að kjarnorkan geti gegnt mikilvægu hlutverki í viðleitni ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en talsmenn kjarnorkuiðnaðarins hafa lengi kvartað undan því að þeirra hlutur njóti ekki sannmælis í umræðum um orku- og loftslagsmál á vettvangi ESB.

Nordic Climate Solutions – ráðstefna og sölusýning í Kaupmannahöfn 25-26. nóvember

Dagana 25. og 26. nóvember stendur norræna ráðherranefndin fyrir ráðstefnu og sölusýningu þar sem fjallað verður um markaðslausnir vegna hlýnunar loftslags. Kynntar verða lausnir í orkumálum, fjallað um áhrif á stjórnun, fjallað um ólíka markaði o.s.frv., en þátttakendur koma víðs vegar að úr heiminum. Samorka er í hópi fjölda samstarfsaðila ráðstefnunnar og geta félagsmenn Samorku nálgast boðsmiða á skrifstofu samtakanna (ath., mjög takmarkað upplag) og þannig fengið fellt niður ráðstefnugjaldið sem nemur 450 evrum.

Af „þekkingargreinum“ í atvinnulífi

„Allar atvinnugreinar eru þekkingargreinar í einhverjum skilningi. Vissulega er meiri fjármunum varið í rannsóknir og þróun í sumum greinum eða að minnsta kosti í sumum fyrirtækjum en í öðrum. Og vissulega er menntunarstig hærra í sumum fyrirtækjum en víða annar staðar, þegar horft er til formlegrar menntunar. En alls staðar er samt byggt á uppsafnaðri þekkingu og ástæðulaust að nota þetta hugtak yfir fáar útvaldar greinar í almennri umræðu um atvinnumál,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, m.a. í grein í Viðskiptablaðinu.

Heita silfrið – Hitaveita á Íslandi í 100 ár

Samorka hefur gefið út blað í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. „Heita silfrið“ heitir blaðið og er því dreift með Morgunblaðinu í dag, 25. september. Í blaðinu er fjallað um sögu hitaveitu á Íslandi, rætt við fjölda fólks um þau auknu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, fjallað um sögu jarðhitanýtingar á Íslandi, þróun þekkingar á þessu sviði, ungbarnasund, ferðaþjónustu, jarðhitaleit og margt fleira. Blaðið má nálgast hér á vef Samorku, en einnig er hér prentað upphafsávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku, í blaðinu – „Bætt heilsufar og almenn lífsgæði.“

Samorka og úrskurður umhverfisráðherra

„Samorka gerir hins vegar athugasemdir við að orkufyrirtækin fái ekki að framfylgja þeirri yfirlýstu stefnu sinni að rannsaka og undirbúa virkjanir og háspennulínur óháð því hver kemur á endanum til með að kaupa orkuna. Engan veginn er sjálfgefið að tengja fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Norðausturlandi við áætlanir um byggingu álvers á Bakka. Þá aðskilja tugir kílómetra umrædd framkvæmdasvæði.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í svargrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, til umhverfisráðherra í Morgunblaðinu.

Ráðstefna um orkugjafa framtíðar í samgöngum, 18.-19. september á Hilton Nordica

Dagana 18. og 19. september heldur Framtíðarorka ráðstefnuna Driving Sustainability öðru sinni í Reykjavík, á Hilton Hótel Nordica. Á ráðstefnunni munu m.a. fulltrúar bílaframleiðendanna Toyota, Ford og Mitsubishi veita innsýn í tæknilausnir sem miða að sjálfbærum samgöngum og standa munu neytendum til boða á næstu árum. Stærstu orkufyrirtæki Norðurlanda, Vattenfall í Svíþjóð og Dong Energy í Danmörku, munu skýra ráðstefnugestum frá áætlunum sínum um rafmagnsvæðingu í samgöngum.

Ályktun stjórnar Samorku vegna úrskurðar umhverfisráðherra

Stjórn Samorku hefur samþykkt ályktun vegna úrskurðar umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat vegna virkjana, háspennulína og álvers á Norðausturlandi. Stjórnin skorar á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína til að lágmarka þann skaða sem að óbreyttu gæti hlotist af úrskurðinum. Náist ekki ásættanleg niðurstaða í þeim efnum telur stjórn Samorku nauðsynlegt, með hliðsjón af alvarleika málsins, að dómstólar verði látnir skera úr um lögmæti úrskurðar ráðherra, vegna framtíðarhagsmuna orkuiðnaðarins. Fram kemur í ályktuninni að standi úrskurðurinn óhaggaður, og falli rannsóknarboranir undir hann, muni það hafa verulegar tafir í för með sér við undirbúning verkefna á Norðausturlandi, um sem nemur a.m.k. einu ári, og valda orkufyrirtækjunum og sveitarfélögunum aukakostnaði er nemur hundruðum milljóna króna.

100 ára afmælisdagskrá á alþjóðlegri ráðstefnu um hitaveitur

Þriðjudaginn 2. september stóð Samorka fyrir dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, innan ramma alþjóðlegu ráðstefnunnar 11th International Symposium on District Heating and Cooling. Háskóli Íslands skipulagði ráðstefnuna í samstarfi við Samorku og Nordic Energy Research, og var hún haldin á Háskólatorgi dagana 1.-2. september. Erindin úr dagskránni má nálgast hér á vef Samorku.

Ertu að leita að þessu?