Árum saman hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Verð á raforku til almennra notenda er lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum og hefur lengi verið. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Sömu sögu má segja um verðlagningu á heitu vatni, sem hefur árum saman farið lækkandi, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, enda er húshitunarkostnaður mun lægri hér en í nágrannalöndunum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun aðalfundar Samorku, þar sem m.a. er fjallað um endurskoðun raforkulaga, mikilvægi öflugrar grunnþjónustu, loftslagsmál, mikilvægi erlendrar fjárfestingar og um vatnsvernd.
Fréttir
Fréttir
Óbreytt stjórn Samorku
Á aðalfundi Samorku var sitjandi stjórn endurkjörin, aðal- og varamenn. Áður var Franz Árnason endurkjörinn til formennsku. Stjórnina skipa því áfram, auk Franz, þeir Friðrik Sophusson Landsvirkjun, Hjörleifur B. Kvaran Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson Hitaveitu Suðurnesja, Páll Pálsson Skagafjarðarveitum, Tryggvi Þór Haraldsson Rarik og Þórður Guðmundsson Landsneti.
Franz Árnason endurkjörinn formaður Samorku
Á aðalfundi Samorku var Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, einróma endurkjörinn formaður samtakanna til næstu tveggja ára, en hann var áður kjörinn formaður á aðalfundi samtakanna árið 2007, einnig til tveggja ára.
Stærsti þátturinn í auknu heilbrigði og bættum lífsgæðum þjóðarinnar
Uppbygging hitaveitna á Íslandi á síðustu öld er án efa sá atburður Íslandssögunnar sem stuðlað hefur hvað mest að auknu heilbrigði og lífsgæðum þjóðarinnar. Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi sem Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri hefur unnið að beiðni Samorku. Hreinna andrúmsloft, betur hituð hýbýli, sundlaugamenning, heilsuböð, bættur þrifnaður, lækningamáttur og forvarnagildi heitra baða og margt fleira er til umfjöllunar í skýrslunni. Fram kemur að árleg heildarlosun CO2 á Íslandi er um 45% lægri en ef kynt væri með olíu.
Fullyrðingar um raforkuverð
Í grein í Morgunblaðinu svarar Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, fullyrðingum um að hérlendis sé raforka seld lægstbjóðendum, líkt og haldið var fram í grein í sama blaði. Segir hann vandséð hví svo ætti að vera. Fráleitt er að gefa í skyn að íslensk orkufyrirtæki gætu selt á mun hærri verðum en kjósi einfaldlega að selja á lægri verðum, segir m.a. í grein Gústafs.
Af fjárfestingarsamningum og sprotastuðningi
Furðu sætir hins vegar að oft eru það áköfustu talsmenn sprotastuðningsins sem hæst hafa gegn fjárfestingarsamningunum. Fólk getur auðvitað haft einhverjar ástæður fyrir að vera einhvern veginn mótfallið tilteknum atvinnugreinum. En það er ekki trúverðugt að klæða þá afstöðu í búning grundvallarandstöðu við að hið opinbera liðki til fyrir fjárfestingum með því að afsala sér litlum hluta gríðarhárra tekna. Ekki ef á sama tíma er mælst til beinna opinberra fjárútláta til annars konar atvinnuuppbyggingar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, þar sem hann fjallar um ólíkar tegundir opinbers stuðnings við atvinnuuppbyggingu.
Rafmagnið ódýrast á Íslandi
Af höfuðborgum Norðurlandanna er rafmagn til heimilisnota ódýrast í Reykjavík og greiðir dæmigert heimili um kr. 45 þúsund á ári fyrir raforku. Dýrast er rafmagnið í Kaupmannahöfn þar sem dæmigert heimili greiðir um kr. 216 þúsund á ári. Næst Reykjavík er Helsinki, með kr. 51 þúsund, en sé miðað við gengi fyrir bankakreppu var raforkan ódýrust í Helsinki, eða kr. 37 þúsund. Þar er miðað við almenn raforkukaup sem að stærstum hluta til koma frá kola- og kjarnorkuverum. Í Helsinki kostar 15% aukalega að kaupa orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við þá sem við nýtum alfarið til raforkuframleiðslu hérlendis. Í samanburði Samorku er miðað við gengi 14. nóvember sl., en til viðmiðunar vegna bankakreppunnar er staðan einnig borin saman miðað við gengi 1. júlí sl. Varla þarf að taka fram að samanburðurinn yrði Íslandi enn hagstæðari ef miðað yrði við gengi dagsins í dag, í stað 14. nóvember.
Pétur Kristjánsson leysir Maríu Jónu af, til eins árs
María Jóna Gunnarsdóttir, deildarstjóri frá-, vatns- og hitaveitudeildar Samorku fór í ársleyfi þann 1. nóvember sl., vegna doktorsnáms. Pétur Kristjánsson, rekstrartæknifræðingur, leysir Maríu af á skrifstofu Samorku. Pétur starfaði sem rekstrarstjóri Vatnsveitu Reykjavíkur frá árinu 1983 til ársins 2000 eða þar til vatnsveitan sameinaðist Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hélt hann áfram við sömu störf sem deildarstjóri Dreifingar OR með umsjón og ábyrgð á dreifikerfi kalda vatnsins. Þann 1. júlí 2003 tók Pétur við starfi deildarstjóra Innkaupastjórnunar OR og kemur úr því starfi til að leysa Maríu af. Pétur hefur komið að starfi Samorku í gegnum árin. Hann hefur verið fulltrúi í nefndum, starfað að starfsnámi í jarðlagnatækni, skrifað kafla í Vatnsveituhandbók Samorku og haldið fyrirlestra á námskeiðum og ráðstefnum Samorku, hér heima og erlendis. Samorka býður Pétur velkominn til starfa, jafnframt því sem Maríu Jónu er óskað velgengni í sínu námi.
Niðurgreidd raforka til garðyrkjubænda
Garðyrkjubændur eru góðir viðskiptavinir raforkufyrirtækja og auðvitað myndu þeir gjarnan vilja fá enn lægri verð. Öll myndum við gjarnan vilja fá lægri verð í okkar innkaupum. Garðyrkjubændur hér á landi greiða raunar miklum mun lægra raforkuverð en keppinautar þeirra í nágrannalöndunum gera, og þarf ekki fyrrnefndar niðurgreiðslur til. Hins vegar eru engar viðskiptalegar forsendur fyrir því að bera saman raforkuverð til garðyrkjubænda annars vegar og til stóriðju hins vegar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku. Þar fjallar hann um þá útbreiddu skoðun að rétt væri að garðyrkjubændur fengju raforku á sama verði og stóriðjufyrirtæki greiða, en tillaga um það er í raun tillaga um frekari niðurgreiðslur á raforku til einu atvinnugreinarinnar sem nýtur slíkra niðurgreiðslna.
Olíukyndingar saknað?
Áratugum saman hefur hitaveituvæðingin sparað Íslendingum tugi milljarða króna á ári hverju sem ella hefðu getað farið í innflutning á olíu til húshitunar. Vissulega myndum við líklega fremur notast við rafkyndingu að mestu í stað olíu í dag, en sú lausn er mun dýrari en jarðhitaveitan og þá væri jafnframt minna framboð af raforku til annarra nota sem því næmi, til dæmis í iðnaði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku. Þar svarar hann hagfræðiprófessor sem gagnrýndi á sama vettvangi m.a. það sem hann kallaði offjárfestingu í hitaveitum og skyldum rekstri á áttunda áratugnum. Í grein sinni dregur Gústaf í efa að landsmenn sakni olíukyndingarinnar.