fbpx

Fréttir

Ryki þyrlað upp um virkjanir

„Sala á náttúruauðlindum til útlendinga telst nú tæplega líkleg þróun á næstu árum. Ekki er nema tæpt ár síðan Alþingi samþykkti eins konar bandorm lagaákvæða sem leggja bann við sölu á orkuauðlindum í opinberri eigu til einkaaðila. Ennfremur er, þegar þetta er ritað, unnið að því að binda sambærilegt ákvæði um allar íslenskar náttúruauðlindir í stjórnarskrá lýðveldisins. Hugsanleg stefnubreyting í þessu efni er eingöngu fræðileg vangavelta um pólitískar ákvarðanir síðar meir en hefur nákvæmlega ekkert með rekstur íslenskra orkufyrirtækja að gera.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Eldhússdegi Fréttablaðsins. Gústaf fjallar þar um ýmsar hliðar raforkuframleiðslu fyrir stóriðju og bregst við skrautlegri samsæriskenningu.

Af virkjunum og stóriðju

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að í samfélaginu fari fram talsverðar umræður um orkumál, ekki síst í samhengi við sölu á raforku til stóriðju. Samorka vill leggja sitt af mörkum til að umræðan geti orðið vel upplýst og í því skyni eru hér sett fram nokkur efnisatriði í þessu sambandi, í stuttu og vonandi aðgengilegu máli.

Mikil þátttaka á öryggisnámskeiði Samorku

Hátt í eitt hundrað manns sóttu öryggisnámskeið fyrir rafiðnaðarmenn sem Samorka hélt í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls dagana 1. og 2. apríl. Fjallað var um öryggismál rafvirkja og er það liður í því að fyrirbyggja vinnuslys hjá veitunum. Sérhvert slys er einu slysi of mikið. Við viljum að sjálfsögðu að allt starfsfólk komi heilt heim frá vinnu að loknum vinnudegi. Þessi fundur er viðleitni í átt til þess að svo megi verða.

Samorka leggst gegn tillögum um breytingar á stjórnarskrá

Í umsögn um frumvarp til stjórnskipunarlaga leggst Samorka gegn því að tekin verði inn ný ákvæði um auðlindir og umhverfismál, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Samtökin benda m.a. á að umrædd efnisatriði hafi engan veginn hlotið æskilega umfjöllun í samfélaginu, að afar skammur tími sé engu að síður ætlaður til þessara breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins og að ýmis atriði í frumvarpinu séu óljós og þarfnist frekari skýringa, en geti óbreytt valdið réttaróvissu.

Krafa um 15-20% samdrátt í losun fyrir 2020?

Á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því að ná samkomulagi um framhald svokallaðrar Kyoto-bókunar í lok þessa árs. Miðað við núverandi forsendur á vettvangi ESB má ætla að Ísland muni þurfa að takast á hendur skuldbindingar um 15-20% samdrátt í almennri losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020, þar sem miðað er við losun árið 2005. Hér á landi verða eingöngu 4% losunarinnar rakin til rafmagns og hita og því ljóst að þetta krefjandi verkefni snýr að takmörkuðu leyti að íslenskum orkufyrirtækjum.

Aðild að ESB: Lítil áhrif á yfirráðarétt og nýtingu orkuauðlinda

Ekki er hægt að halda fram að hugsanleg full aðild Íslands að ESB myndi hafa veruleg áhrif á stöðu okkar og möguleika varðandi yfirráðarétt og nýtingu jarðrænna auðlinda. Þetta er niðurstaða Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, sem flutti erindi á aðalfundi Samorku um íslenskar orkulindir og ESB. Guðni sagði þó jafnframt að hugsanlegar viðræður þyrftu að byggja á nákvæmri greiningu á þeirri aðlögun að reglum ESB sem þegar hefur verið samið um og þeim reglum sem eftir er að semja um. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda væri hins vegar ekki viðfangsefni ESB, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna. Fram kom hjá Guðna að á annan tug erlendra fyrirtækja hafa nú þegar óskað upplýsinga vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

„Niðurgreiðsluhali“ nýrra hitaveitna að fullu uppgreiddur

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytis, flutti aðalfundi Samorku ávarp Össurar Skarphéðinssonar utanríkis- og iðnaðarráðherra (sem forfallaðist vegna veikinda). Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun raforkulaga muni ljúka störfum í haust. Þá kom fram að sá dráttur sem hafði orðið á niðurgreiðslum til nýrra hitaveitna, nefndur „hali“, sem aðalfundur Samorku ályktaði m.a. vegna á aðalfundi 2008, væri nú að fullu uppgreiddur.

Ertu að leita að þessu?