fbpx

Fréttir

„Megum bara nota ál frá Íslandi“

Íslenska jarðhitafyrirtækið Reykjavik Geothermal vinnur nú að nýtingu jarðhita fyrir borgina Masdar, sem verið er að reisa í olíuríkinu Abu Dhabi. Borgin á að vera kolefnishlutlaus og úrgangslaus, en auk sólarorku hyggjast forsvarsmenn verkefnisins nýta þar jarðhita, einkum til að knýja kælikerfi borgarinnar. Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Reykjavik Geothermal, fjallaði um verkefnið á haustþingi Jarðhitafélagsins í gær. Í máli hans kom fram að svo ströngum reglum er fylgt við byggingu borgarinnar, að fyrirtækið má ekki nota þar ál – til dæmis í skiltagerð – nema það sé frá Íslandi. Ál framleitt hér á landi hefur jú þá sérstöðu að það er framleitt með raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Erindi opins fundar um sjálfbæra nýtingu jarðhitans

Sjálfbær nýting jarðhitans var yfirskrift opins fundar á Hilton Reykjavík Nordica, miðvikudaginn 21. október. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinum en að honum stóðu Samorka, ÍSOR, Orkustofnun, Iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands og GEORG (Geothermal Reserch Group). Erindi fundarins er að finna hér á vef Samorku.

3000 MW úr 0,2% varmaforðans á 3 km dýpi

Jarðhitinn getur leikið mikilvægt hlutverk í sjálfbærri þróun, á Íslandi og á heimsvísu. Þetta kom fram í erindi Guðna Axelssonar, deildarstjóra hjá ÍSOR, á opnum fundi um sjálfbæra nýtingu jarðhitans á Hilton Nordica. Guðni sagði áratuga reynslu og rannsóknir hafa sýnt að hægt væri að nýta jarðhitakerfi á sjálfbæran hátt, því nýtt „jafnvægisástand“ kæmist oft á eftir að nýting hæfist. Guðni sagði sjálfbæra vinnslugetu háða vinnsluaðferð (niðurdæling yki t.d. vinnslugetu) og tækniframförum. Fræðilega séð mætti vinna 3000 MW af raforku úr 0,2% þess varmaforða sem er að finna á 3 km dýpi.

Gríðarmikil jarðhitaorka – nýtingartæknin í þróun

Endurnýjanleiki er eðli orkulindar, sjálfbærni vísar til orkuvinnslu. Á þetta lagði Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, áherslu í erindi á opnum fundi um sjálfbæra nýtingu jarðhitans á Hilton Nordica. Ólafur varaði við hugtakaruglingi og nefndi ýmis dæmi úr opinberri umræðu þar sem endurnýjanleika og sjálfbærni væri ruglað saman. Hann sagði jarðhitaorkuna hér vera gríðarmikla en við byggjum hins vegar enn aðeins yfir tækni til að nýta hluta hennar á hagkvæman hátt. Þess vegna væri svo mikilvægt að byggja jarðhitavirkjanir upp í áföngum og vinna markvisst að rannsóknum og þróun á tækninýjungum.

Sjálfbær nýting jarðhitans – Opinn fundur á HILTON REYKJAVÍK NORDICA 21. október

Miðvikudaginn 21. október verður haldinn opinn fundur á Hilton Reykjavík Nordical undir yfirskriftinni Sjálfbær nýting jarðhitans. Að fundinum standa GEORG (Geothermal Research Group), iðnaðarráðuneytið, Jarðhitafélag Íslands, ÍSOR, Orkustofnun og Samorka. Fundurinn var áður auglýstur á Grand Hótel en vegna mikillar þátttöku var hann fluttur í stærri sal, á Nordica.

„Græna“ fólkið og skotmörkin

„Græna fólkið á erlendum umhverfisfundum er í hlutverki viðurkenndra skotmarka á umhverfisfundum hérlendis,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Fréttablaðinu. Hann segir umræðu á umhverfisþingi engu skila, enda hópur fólks þar sem hlæi og klappi þegar orkufyrirtækin fái það óþvegið eða hótfyndni sé beint í þeirra garð.

Hvað á ráðherrann við?

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, heldur því fram í Morgunblaðinu að raforkuframleiðsla fyrir stóriðju hafi verið „stórlega niðurgreidd.“ Í grein í sama blaði óskar Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, eftir því að ráðherrann færi rök fyrir þessari staðhæfingu sinni, eða dragi hana ella til baka.

30% lægra raforkuverð til heimila vegna aukinnar sölu til stóriðju

Stærra raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur leitt til lækkunar á raforku á almenna innlenda markaðinum. Raforkuverð til heimila hefur að jafnaði lækkað um 30% frá árinu 1997, sem að stórum hluta má skýra með auknu umframafli frá orkufrekum iðnaði sem sinnir afltoppum á almenna markaðnum. Þetta er meðal helstu niðurstaðna nýrrar skýrslu AtvinnuLífsinsSkóla um raforkuverð á Íslandi á árunum 1997 – 2008, þar sem skoðuð eru áhrif aukinnar raforkusölu til orkufreks iðnaðar á raforkuverð á almennum markaði.

Óboðlegt starfsumhverfi – Samorka mótmælir úrskurði umhverfisráðherra

„Úrskurður umhverfisráðherra hefur að engu lögbundin tímamörk og gengur að auki gegn fyrri úrskurði umhverfisráðherra frá apríl 2008. Úrskurðurinn nú er því dæmi um afleita stjórnsýslu og algert virðingarleysi við lög í landinu. Slíkt starfsumhverfi er engum fyrirtækjum boðlegt.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun stjórnar Samorku. Stjórnin lýsir einnig verulegum áhyggjum af boðuðum orkusköttum sem munu skerða samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja og draga úr ágæti Íslands sem fjárfestingarkosts.

Ertu að leita að þessu?