fbpx

Fréttir

Jarðhitinn sparar Íslendingum 50-60 milljarða á ári, í erlendum gjaldeyri

Ætla má að um 800 þúsund tonn af olíu þyrfti til að kynda hýbýli Íslendinga. Þess í stað höfum við jarðhitann og spörum 50 milljarða króna á ári í olíuinnflutningi, og innan skamms má ætla að losunarkvóti vegna brennslu slíks olíumagns myndi kosta um 9 milljarða króna á ári. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á aðalfundi Samorku. Hann benti á að húshitun er um sex til níu sinnum dýrari á hinum Norðurlöndunum en hérlendis og raforka til heimila þrefalt til fjórfalt dýrari. Arðurinn af íslenskum orkuauðlindum rynni því beint til almennings, í formi lágra orkureikninga.

Nóg komið af átökum – nýjar leiðir í fjármögnun

„Orkugeirinn er þjóðinni miklu mikilvægari en svo að hann megi vera átakavettangur árum saman. Nóg er komið af slíkum átökum.“ Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í lok ávarps síns á aðalfundi Samorku. Hvatti hún til þess að fólk sameinaðist um að skapa sátt með rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýrum gegnsæjum leikreglum. Það væri leiðin fram á við og upp úr efnahagslægðinni. Hins vegar þyrfti nú að horfa til nýrra leiða varðandi fjármögnun framkvæmda.

Formaður Samorku: Óábyrgt að virkja ekki meira

„Það er fullkomlega óábyrgt að halda ekki áfram virkjun jarðhita og fallvatna, til raforkuframleiðslu fyrir orkufrek iðjuver, nú þegar þörf er á að auka gjaldeyristekjur og atvinnu.“ Þetta kom fram í ræðu Franz Árnasonar, formanns Samorku, í opinni dagskrá aðalfundar samtakanna. Hann fagnaði m.a. jákvæðum tíðindum af framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun og af viðræðum um orkusölu til kísilvers í Þorlákshöfn og af fyrirhugaðri virkjun í Hverahlíð. Þá lagði Franz áherslu á að afgjald til þjóðarinnar af vatns- og jarðhitaauðlindunum kæmi beint í buddu landsmanna í formi miklu lægra orkuverðs en nágrannar okkar byggju við. Nýi orkuskatturinn bætti engu þar við, heldur þvert á móti.

Ályktun aðalfundar Samorku: Mikill arður af auðlindinni

Íslendingar njóta ríkulegrar arðsemi af náttúruauðlindum í formi lágra orkureikninga og nýting innlendra endurnýjanlegra orkugjafa sparar þjóðarbúinu tugi milljarða króna ár hvert. Í ályktun sinni segir aðalfundur Samorku mikilvægt að stjórnvöld séu þessa meðvituð og leggi ekki frekari skatta á orkunotkun landsmanna. Samorka bindur miklar vonir við væntanlega afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem stuðlað geti að mikilvægri uppbyggingu í íslensku atvinnulífi. Íslensk orkufyrirtæki lýsa sig reiðubúin til þátttöku í endurreisn íslensks efnahagslífs.

Hörður Arnarson nýr í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kjörinn nýr inn í stjórn samtakanna. Hörður kemur inn í stjórnina í stað Friðriks Sophussonar, forvera síns hjá Landsvirkjun. Stjórn Samorku verður óbreytt að öðru leyti og Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, gegnir áfram formennsku.

Aðalfundur Samorku á föstudag, 19. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 19. febrúar. Opin dagskrá fundarins hefst kl. 13:30. Hana setur Franz Árnason formaður samtakanna og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra flytur ávarp. Þá mun Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, flytja erindi um orkunýtingu og afrakstur auðlindar til almennings.

Orkusala til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju

Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað samningsramma um orkusölu til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa í Ölfusi, rétt vestan Þorlákshafnar. Væntanlegur kaupandi er Thorsil ehf, félag sem kanadíska fyrirtækið Timminco Limited og Strokkur Energy ehf stofnuðu saman um verkefnið. Um er að ræða sölu á 85 megavöttum til 20 ára. Afla á orkunnar frá Hverahlíðarvirkjun og er um að ræða alla framleiðslu virkjunarinnar. Umhverfismati vegna hennar er lokið og fjármögnun hennar var tryggð að hálfu leyti með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingabankanum.

Ráðherrann vanhæfur?

Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingar skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Ráðherrann hefur áður tafið þetta ferli með úrskurðum um formsatriði sem þá tengdust auglýsingum á breyttu skipulagi. Spurð um afstöðu til virkjana í neðri hluta Þjórsár segir ráðherrann rétt að fara varlega í nýjar virkjanir. Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega mótfallinn þessum framkvæmdum, og þá vanhæfur til að úrskurða um formsatriði sem þeim tengjast? Þá vekur athygli að ráðherrann virðist ekki skilja eðli endurnýjanlegra orkulinda, heldur líkir hún nýtingu þeirra við námugröft. Loks má setja spurningamerki við að það sé í þágu „almannahagsmuna“ að setja jafnvel stórframkvæmdir í uppnám, fyrir nú utan þá sérkennilegu stjórnsýslu að segja niðurstöðuna borðleggjandi eftir fjórtán mánaða yfirlegu í ráðuneytinu.

Hreint vatn og hrein orka: Ísland stendur sig best í umhverfismálum

Ísland er í fyrsta sæti 163 ríkja á lista þar sem löndum er raðað eftir frammistöðu í umhverfismálum, en listinn er unninn af sérfræðingum við Columbia- og Yale- háskólana í Bandaríkjunum. Alls er byggt á upplýsingum um 25 viðmið og er Ísland með hæstu mögulegu einkunn í ellefu tilvikum. Það eru einkum hreina vatnið og hreina orkan sem eru lykillinn að þessari sterku stöðu Íslands.

Samorka mótmælir nýjum orkusköttum

Stjórn Samorku mótmælir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja nýja skatta á raforku og heitt vatn, skatta sem draga munu úr lífsgæðum landsmanna og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auk þess að draga úr gegnsæi verðlagningar á raforku og heitu vatni. Aldrei hafa áður verið lagðir beinir skattar á raforku eða heitt vatn hér á landi. Frumvarpið vísar til „umhverfis- og auðlindaskatta“, en fjallar um hvorugt, heldur er þetta einfaldlega skattur á orkunotkun landsmanna, til tekjuöflunar í ríkissjóð.

Ertu að leita að þessu?