fbpx

Fréttir

Magmahringekjan

Franz Árnason, formaður Samorku, hefur sent frá sér blaðagrein um málefni Magma Energy. Í greininni kemur fram að stjórnvöld hafa oft á undanförnum mánuðum haft tækifæri til að koma að ferlinu til þess að hafa áhrif á það, annaðhvort með því að kaupa umræddan hlut í HS-orku, eða breyta lögum um viðskipti með orkufyrirtæki og nýtingu orkuauðlindanna. Einnig leggur hann áherslu á að í umræddum viðskiptum er ekki verið að selja burtu auðlind til erlends aðila, það er nýtingaréttur auðlindarinnar sem um ræðir og greitt er fyrir til eigenda, til ákveðins tíma, auk þess sem nýting auðlindarinnar er undir eftirliti opinberra aðila.

Ráðherrann leiðréttur – aftur

Í grein í Fréttablaðinu leiðréttir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, skrif umhverfisráðherra um nýja reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í greininni hélt ráðherrann því fram að viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um magn brennisteinsvetnis í lofti miðuðust við bráðaáhrif. Það er rangt, í besta falli afar villandi framsetning. Mörk WHO eru þannig einn hundraðasti af því sem möguleg bráðaáhrif eru skilgreind við. Viðmiðunarmörk WHO eru 150 míkrógrömm í hverjum rúmmetra lofts að meðaltali á sólarhring. Bráðamörkin eru 15.000 míkrógrömm að meðaltali yfir 8 klukkustundir. WHO lætur einmitt almenning njóta vafans með því að setja sín viðmiðunarmörk við 1% af skilgreindum bráðamörkum.

Landsvirkjun undirritar nýjan samning um orkusölu við Alcan á Íslandi

Landsvirkjun og Alcan á Íslandi hafa samið um orkusölu til álversins í Straumsvík. Annars vegar er endursamið um verð á núverandi orkusölu til álversins (2.932 GWst) og hins vegar er samið um afhendingu viðbótar orku (658 GWst) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins. Nýtt raforkuverð tekur gildi 1. október 2010. Það er í bandaríkjadölum, verðbætt miðað við bandaríska neysluvísitölu og er álverðstenging afnumin. Til að mæta aukinni orkusölu mun Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar og verða útboð auglýst á næstu vikum.

Orkan og ferðaþjónustan

Miklar vonir eru nú bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi. Óhætt er að fullyrða að orkufyrirtækin leggi þar sitt af mörkum, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Fréttablaðinu. Þar fjallar hann m.a. um stórt hlutverk endurnýjanlegrar orku í landkynningarmálum, yfir 140 þúsund gesti í virkjunum og upplýsingamiðstöðvum orku- og veitufyrirtækja, leiðir ferðamanna inná hálendið um vegi orkufyrirtækja, Bláa lónið, Perluna o.fl. Segir hann hagsmuni þessara greina fara vel saman, enda kaupi orkufyrirtæki þjónustu af veitingaaðilum, bílaleigum o.s.frv. eins og öll önnur fyrirtæki, ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda.

Landsvirkjun: meðalverð til stóriðju 2,5 kr á kWst, en 3,5 kr til heimila

Á ársfundi Landsvirkjunar kynnti Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, upplýsingar um raforkuverð og bar saman raforkuverð til heimila og til stóriðju. Hörður gerði grein fyrir ýmsum ástæðum þess að stóriðjan greiði lægra verð en heimilin, en í ársbyrjun 2010 greiddu stóriðjufyrirtækin að meðaltali 2,5 kr fyrir hverja kWst af raforku frá Landsvirkjun, á meðan heimili greiddu 3,5 kr.

Afar flókið virkjanaferli – fróðleg erindi á vorþingi Jarðhitafélagsins

Jarðhitafélag Íslands fjallaði á vorþingi sínu um skilvirkni leyfisveitinga-, mats- og skipulagsferla í tengslum við jarðhitavirkjanir. Fram kom að um afar flókið ferli getur verið að ræða. Ásbjörn Blöndal frá HS Orku sagði m.a. frá dæmi um 4 ára ferli skipulagsbreytingar vegna rannsóknarborana. Hann lagði til að rannsóknarsvæði yrðu skilgreind á forsendum rannsóknarhagsmuna, svipað og vatnsverndarsvæði eru skilgreind á forsendum mengunarvarna. Auður Andrésdóttir frá Mannvit sagði frá alls 160 formlegum erindum til opinberra leyfisveitinga- og eftirlitsstofnana í tengslum við byggingu Hellisheiðarvirkjunar og taldi einsýnt að einfalda mætti ferlið.

FAGFUNDUR SAMORKU 2010 Á SAUÐÁRKRÓKI

 

FAGFUNDUR SAMORKU 2010 VERÐUR HALDINN Á SAUÐÁRKRÓKI DAGANA 27. OG 28. MAÍ N.K.

Á fundinum verður tekið fyrir allt það helsta sem Raforkufagsvið Samorka hefur á sínum snærum  um þessar mundir. Flutt verða  fjölmörg erindi og ávörp hinna færustu sérfræðinga innan raforkusviðsins, þannig að í boði er mikill fróðleikur sem snertir starfsemi samtakanna á þessu sviði.

Auk hins fræðilega þáttar, verður einnig nokkuð sér til gamans gert, svo sem heimsóknir og skoðunarferðir um blómlegt hérað.

Allt kemur þetta nánar fram hér á síðunni, ef smellt er á Lesa meira…

Ertu að leita að þessu?