fbpx

Fréttir

Samorka mótmælir hugmyndum um niðurskurð til nýrra hitaveitna á köldum svæðum

Stjórn Samorku mótmælir áformum stjórnvalda um að skerða fjárveitingar úr ríkissjóði vegna framkvæmda við nýjar hitaveitur á svokölluðum köldum svæðum, einkum hvað varðar framkvæmdir sem þegar eru hafnar eða hafa verið undirbúnar á forsendum sem nú kunna að bregðast. Styrkir úr ríkissjóði til uppbyggingar nýrra hitaveitna hafa alla jafna reynst vera þjóðhagslega arðbær ráðstöfun opinberra fjármuna, segir m.a. í ályktun stjórnar Samorku.

TTH-Tæknilegir tengiskilmálar hitaveitna

Komnir eru út tæknilegir tengiskilmálar fyrir hitaveitur, TTH.  Skilmálarnir eru settir samkvæmt 82. gr. orkulaga nr. 58/1967, með áorðnum breytingum og teljast þeir hluti af reglugerðum þeirra hitaveitna sem  formlegir aðilar eru að þeim. Skilmálarnir voru staðfestir af iðnaðarráðuneyti 19. október 2010 og öðluðust gildi við birtingu þeirra í stjórnartíðindum þann 4. nóvember 2010. 

Hin nýja olía

Eitt af tilkomumestu stöðuvötnum í heiminum er í héraðinu Sitka í Alaska. Það liggur í U-formuðum dal og er umlukið þéttvöxnum skógi og tignarlegum fjallatindum. Snjór og jöklar fæða stöðuvatnið, sem heitir Bláa vatn og dregur nafn sitt af djúpbláum litbrigðum þess. Stöðuvatnið inniheldur hundruð milljarða tonna af svo tæru og hreinu vatni að ekki er þörf á að hreinsa það. Þarna er strjálbýlt, minna en 10.000 manns búa á um 13.000 km² svæði í kringum vatnið, og það hefur ofgnótt af þeim verðmætum sem vatnið er.

Hvaða „einkavæðing“?

Í grein í Fréttablaðinu bregst Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, við ákalli Evu Joly um að orkulindir Íslendinga verði ekki settar í einkaeigu. Gústaf spyr hvar verið sé að setja orkulindir í einkaeigu og minnir á löggjöf frá árinu 2008 sem beinlínis kemur í veg fyrir slíkt. Þá minnir hann á að Magma Energy keypti engar auðlindir þegar fyrirtækið keypti meirihluta í HS Orku, heldur leigir HS Orka afnot af orkuauðlindum og greiðir fyrir afnotin auðlindagjald til eigendanna, sveitarfélaga á Reykjanesskaga.

Enn um orkuauðlindir og erlent eignarhald á orkufyrirtækjum

Enn er ástæða til að árétta nokkur atriði varðandi orkuauðlindir á Íslandi og erlent eignarhald á orkufyrirtækjum. Má þar nefna að engar orkuauðlindir hafa verið seldar erlendum aðilum, að vandséð er hvernig eitt fyrirtæki með 8% raforkuframleiðslunnar ætti að geta ýtt verðlagi uppávið á markaði þar sem fólk getur skipt um raforkusala með einu símtali, og að enginn hefur meiri hagsmuni af góðri umgengni við auðlindina en orkufyrirtækið sjálft hverju sinni.

Húshitun með jarðhita: 67 milljarða króna sparnaður árið 2009

Þjóðhagslegur sparnaður af notkun jarðvarma í stað gasolíu til húshitunar nam 67 milljörðum króna árið 2009. Uppsafnaður núvirtur sparnaður nam 1.330 milljörðum króna yfir tímabilið 1970-2009. Mestur var hann 77 milljarðar króna árið 2008. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Orkustofnunar um efnahagslegan samanburð húshitunar með jarðhita og olíu árin 1970-2009. Sjá skýrsluna á vef Orkustofnunar.

Styttri aðgangur – hærra orkuverð

Við Íslendingar njótum einhvers lægsta raforkuverðs sem þekkist á Vesturlöndum. Þessi lági orkukostnaður er hins vegar ekki sjálfgefinn. Stytting leyfilegs samningstíma um aðgang að orkuauðlindum þýðir að sjálfsögðu hærri arðsemiskröfu og því væntanlega hærra orkuverð til heimila, fyrirtækja og stofnana. Í tilbúnu dæmi má þannig sjá hvernig lækkun nýtingartíma auðlindar úr 65 árum í 30 ár gæti stuðlað að 20% hærra orkuverði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Fréttablaðinu.

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi

Stjórn Samorku lýsir í ályktun verulegum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin vegna tafa á verkefnum í jarðhitanýtingu hérlendis. Á örfáum misserum hefur orðið gríðarlegur tekjusamdráttur hjá lykilþjónustuaðilum orkufyrirtækja á borð við Jarðboranir, ÍSOR og verkfræðistofurnar. Miklum fjölda sérhæfðs starfsfólks hefur verið sagt upp störfum eða það horfið til verkefna erlendis. Á sama hátt er verið að undirbúa flutning jarðhitabora úr landi. Þessar tafir geta aðeins leitt til þess að sérþekking í rannsóknum og orkunýtingu hérlendis glatast, sem hefur í för með sér að í framtíðinni verða framkvæmdir dýrari og flóknari en ella, auk þess sem viðhald og öryggismál verða sett í uppnám.

Segulsvið á Íslandi svipað og í Svíþjóð

Geislavarnir ríkisins og Brunamálastofnun hafa gert rannsókn á segulsviði í rúmlega 130 íbúðum. Niðurstöður benda til að segulsviðið í íbúðum á Íslandi sé svipað og í Svíþjóð og frágangur raflagna á Íslandi og í Svíþjóð er sambærilegur. Niðurstöðurnar gefa ekki tilefni til umfangsmeiri rannsókna á segulsviði í íbúðarhúsnæði á Íslandi, að mati stofnanna. Sjá nánar á vefsíðu Brunamálastofnunar.

Þrír Íslendingar í stjórn Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA)

Í sumar fóru fram rafrænar kosningar til stjórnar Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA). Þrír Íslendingar voru í kjöri og allir fengu þeir margfalt atkvæðavægi Íslands og náðu glæsilegu kjöri til setu í 30 manna stjórn félagsins næstu þrjú árin. Þessi niðurstaða hlýtur að endurspegla virðingu fagmanna á jarðhitasviðinu gagnvart starfi íslenskra kollega og viðleitni okkar til að stuðla að frekari útbreyðslu jarðhitanýtingar í heiminum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.

Ertu að leita að þessu?