Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fjallaði um vatnsveitur og vatnsauðlindina á aðalfundi Samorku. Hann sagði brýnt að almennar veitustofnanir ynnu með almannahagsmuni í huga en ekki gróðasjónarmið og sagði hann Íslendinga eiga að beita sér fyrir þróun í þá átt í samstarfi þjóða. Hann sagði margt gott hafa verið unnið á vegum Samorku undanfarin ár og að sem Íslendingur og þjóðfélagsþegn vildi hann sjá að fyrirtækin hefðu almannahag að leiðarljósi og að horfa yrði á þessa auðlind út frá sjónarhorni samfélagshagsmuna einvörðungu en ekki út frá sjónarhorni markaðsafla. Sjá nánar á vef innanríkisráðuneytisins.
Fréttir
Fréttir
Áform um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, en liðkað fyrir endurnýjun leigusamninga
Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku sagði Katrín unnið að gerð frumvarps til laga um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, og að haft yrði samráð við Samorku og aðildarfyrirtæki samtakanna í þeirri vinnu. Hún sagði einnig skoðaða möguleika á að liðka fyrir endurnýjun gildandi leigusamninga, enda væru viðkomandi orkufyrirtæki að ganga vel um auðlindina.
Ályktun aðalfundar Samorku: Ný gjaldtaka og styttri leigutími auðlinda þýðir hærra orkuverð
Í ályktun aðalfundar Samorku er áhersla lögð á mikilvægi arðsemi við nýtingu orkuauðlinda. Þá minna samtökin á að ný gjaldtaka, hvort sem er í formi auðlindagjalds eða skatta, skapar ekki ný verðmæti. Aukin gjaldtaka leiði til hærra orkuverðs og sama gildi um mikla styttingu leigutíma orkuauðlinda. Þá vara samtökin við öllum áformum stjórnvalda um að „vinda ofan af“ löglega gerðum samningum við einkaaðila á sviði orkunýtingar, sem og við hugmyndum um að færa auðlindastýringu og -rannsóknir undir umhverfisráðuneytið.
Tryggvi Þór Haraldsson kjörinn formaður Samorku
Á aðalfundi Samorku var Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, kjörinn formaður samtakanna. Tryggvi tekur við af Franz Árnasyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur formennsku í Samorku undanfarin fjögur ár. Þá var Bjarni Bjarnason, sem senn tekur við starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr í stjórnina.
Aðalfundur Samorku föstudaginn 18. febrúar
Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 18. febrúar. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ávarpar opna dagskrá fundarins, og þá mun Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fjalla um vatnsveitur og vatnsauðlindina. Loks mun Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fjalla um hlutverk veitufyrirtækja – þjónustu, arðsemi og afkomu.
IGA-skrifstofan flyst til Þýskalands
Skrifstofa Alþjóðajarðhitasambandsins, IGA (International Geothermal Association), flyst til Bochum í Þýskalandi nú um áramótin, en Samorka hefur hýst skrifstofuna frá því árið 2004. Árni Ragnarsson, sem undanfarin ár hefur verið framkvæmdastjóri IGA í hálfu starfi á móti hálfu starfi hjá ÍSOR, snýr aftur til ÍSOR í fullt starf um áramótin. Samorka þakkar bæði Árna og IGA fyrir ánægjulegt og gott samstarf á undanförum árum og óskar Árna velgengni í starfi hjá ÍSOR, jafnframt því sem samtökin óska þess að starfsemi IGA muni halda áfram að blómstra á nýjum stað.
FRÁVEITUHANDBÓK SAMORKU
Kominn er út kafli í Fráveituhandbók Samorku, fyrsti hluti og má skoða hann með því að smella hér. Unnið er að gerð næstu kafla.
Húshitun margfalt dýrari á hinum Norðurlöndunum
Íslendingar búa að miklum mun ódýrari húshitun en nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum. Ef miðað er við meðaltals orkuþörf fyrir 135 m2 einbýlishús í Reykjavík greiðir slíkt heimili rúmlega 85 þúsund krónur á ári fyrir húshitun og heitt kranavatn. Í höfuðborgum hinna Norðurlandanna væri reikningurinn fyrir sömu orkunotkun á bilinu 260 til 530 þúsund krónur, eða um 206-523% hærri en í Reykjavík.
Sjálbær nýting jarðhitans
Það eru orkufyrirtækin sjálf sem hafa mesta hagsmuni af góðri umgengni við auðlindina. Þar við bætist að nýtingin fer fram undir eftirliti Orkustofnunar, sem hefur heimildir til inngripa ef hún telur að nýtingin sé ekki í samræmi við starfsleyfisskilmála. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, um sjálfbærni jarðhitanýtingar. Hann fjallar einnig um hugmyndir um byggingu risavaxinna gróðurhúsa við jarðvarmavirkjanir, og segir hverjum þeim sem áhuga hafi á að stofna til slíkrar starfsemi eflaust verða vel tekið af viðkomandi orkufyrirtæki, til viðræðna á viðskiptalegum forsendum.
Landsvirkjun auglýsir styrki til náms og rannsókna á sviði umhverfis- og orkumála
Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar auglýsir styrki til náms og rannsókna á sviði umhverfis- og orkumála. Sjóðurinn hefur allt að 55 milljónir króna til ráðstöfunar en markmið hans er að veita styrki til námsmanna og til rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.