fbpx

Fréttir

Eurelectric hvetja til áframhaldandi uppbyggingar vatnsaflsvirkjana

Vatnsaflið er að baki 70% allrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum í Evrópu. Ennþá er þó sem nemur um 650 teravatt stundum óvirkjað í álfunni. Vatnsaflið er áreiðanlegt og sveigjanlegt og auðveldar þannig frekari uppbyggingu á t.d. vind- og sólarorku sem eru mun undirsettari sveiflum í orkugetu. Þá eru loftslagsáhrif vatnsaflsvirkjana hverfandi og því hvetja Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, til áframhaldandi uppbyggingar á vatnsaflsvirkjunum í Evrópu.

Nýr forstjóri Norðurorku

Ágúst Torfi Hauksson hefur tekið við starfi forstjóra Norðurorku af Franz Árnasyni, sem áfram mun þó starfa að sérstökum verkefnum hjá fyrirtækinu um skeið. Ágúst er 37 ára gamall vélaverkfræðingur og hefur m.a. stundað rannsóknir í varmafræðum við University of British Columbia og unnið hjá verkfræðistofu VGK m.a. við verkefni  tengd orkuvinnslu og nýtingu. Frá árinu 2005 var Ágúst framkvæmdastjóri hjá Brim hf. Sjá nánar á vefsíðu Norðurorku.

Umsögn Samorku um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Samorka fagnar því að ferlið við gerð rammaáætlunar sé að þokast. Að mati samtakanna væri þó vænlegast að styðjast við röðun verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar, þótt samtökin hafi bent á atriði sem betur hefðu mátt fara í þeirri miklu og um margt góðu vinnu. Sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun. Þá vekur Samorka athygli á því að af þeim u.þ.b. 1.500 MW í uppsettu afli sem fara í nýtingarflokk skv. tillögunni eru að hámarki um 700 MW á því stigi að hægt væri að gera samninga um sölu á orkunni innan 2 ára (án mjög mikilla fyrirvara um orkugetu jarðhitasvæða), miðað við hugsanlega afhendingu innan 4-6 ára. Víða í samfélaginu er rætt um mikil áform um uppbyggingu iðnaðar í náinni framtíð, verkefni sem samtals myndu þurfa á miklum mun meira orkumagni að halda.

Verndarflokkur stærstur – 23% orkugetu í nýtingarflokk

Drög að þingsályktun um rammaáætlun sem kynnt voru á dögunum gera ráð fyrir að orkukostir sem skilað gætu um 13.900 gígavatt stundum (GWh) á ári fari í verndarflokk, 11.900 í nýtingarflokk og 11.000 í biðflokk. Mesta áætlaða orkuvinnslugetan er þó innan svæða sem hlotið hafa friðlýsingu, eða 15.100 GWh. Því má segja að um 23% orkuvinnslugetunnar sem til umfjöllunar var í vinnu verkefnisstjórnar fari í nýtingarflokk.

Drög að þingsályktun um rammaáætlun

Kynnt hafa verið drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Drögin fara nú í tólf vikna opið umsagnarferli áður en þingskjal verður lagt fram á Alþingi. Athygli vekur að sumir virkjanakostir sem voru fremur ofarlega í röðun verkefnisstjórnar lenda í biðflokki, jafnvel í verndarflokki, í drögum að tillögu til þingsályktunar. Ekki eru dæmi um hið gagnstæða, þ.e. að orkukostir sem voru neðarlega í röðun verkefnisstjórnar séu flokkaðir í nýtingarflokk í drögum að tillögu til þingsályktunar.

Rammaáætlun: Skýrslu verkefnisstjórnar skilað

Verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar hefur skilað skýrslu sinni til iðnaðar- og umhverfisráðherra. Í framhaldinu munu formaður verkefnisstjórnar, formenn faghópa hennar og starfsfólk framangreindra ráðuneyta vinna drög að þingsályktun um röðun orkukosta í nýtingar-, bið- og verndarflokka. Fulltrúi Samorku í verkefnisstjórninni fagnar útkomu skýrslunnar, en setur jafnframt fram nokkrar ábendingar almennt um rammaáætlun og um nýsamþykkt lög um verndar- og nýtingaráætlun.

Starfslok Oddnýjar Ögmundsdóttur

Oddný Ögmundsdóttir hefur látið af störfum á skrifstofu Samorku, eftir á þriðja áratug í starfi hjá samtökunum og annars forvera þeirra (SÍR), en Oddný verður 67 ára nú í júní. Samorka þakkar Oddnýju kærlega fyrir samstarfið öll þessi ár og óska samtökin henni gæfu og farsældar í framtíðinni.

Orkunýting og hagsmunir almennings

Nýting orkuauðlinda og hagsmunir almennings fara afar vel saman, segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Fréttablaðinu. Þar vísar hann til skrifa umhverfisráðherra í nafni hagsmuna almennings og fjallar um leyfisveitingar stjórnvalda, opinbert eignarhald, vilja heimamanna og efnahagsáhrif orkunýtingar.

6. Vorfundi Samorku lokið – erindin á vefinn eftir helgina

Sjötta Vorfundi Samorku á Akureyri er lokið og Samorka þakkar þátttakendum öllum, sýnendum, starfsfólki Hofs, Ferðaskrifstofu Akureyrar og öðrum þeim sem að fundinum komu kærlega fyrir þeirra þátt í afar vel heppnaðri dagskrá. Þátttakendur voru á þriðja hundrað en alls tóku um 350 manns þátt í dagskránni að mökum og sýnendum meðtöldum. Erindi fundarins eru birt hér á vef Samorku.

Ertu að leita að þessu?