fbpx

Fréttir

Haustfundur Jarðhitafélagsins 6. desember – Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi

Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 6. desember, í Orkugarði að Grensásvegi, og hefst fundurinn kl. 13:00. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi, og verður m.a. fjallað um stofnkostnað jarðvarmavirkjana, boranir, rannsóknir, klasasamstarf og aðkomu Íslendinga að jarðhitaverkefnum erlendis. Sjá dagskrá fundarins á vef Jarðhitafélagsins.

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður

Ef allt flutningskerfið yrði endurbyggt með jarðstrengjum yrði umframkostnaðurinn á bilinu 400-500 milljarðar króna. Afleiðingarnar af því yrðu augljóslega veruleg hækkun raforkukostnaðar um land allt og væntanlega miklar seinkanir á eflingu flutningskerfisins þar sem þess er helst þörf. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Fréttablaðinu. Hann fjallar einnig um strengvæðingu dreifikerfisins en bendir á að á hærri spennu hafa jarðstrengir meiri og varanlegri umhverfisáhrif en loftlínur.

Hitaveitur spöruðu landsmönnum 2.420 milljarða – Óhagkvæmt að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn

Uppsafnaður sparnaður Íslendinga af því að nota jarðvarma í stað olíu til húshitunar á árunum 1970-2010 er áætlaður um 2.420 milljarðar kr., að því er fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um nýtingu vatns á Íslandi. Í skýrslunni er m.a. fjallað um mikla ferskvatnsnotkun hérlendis en að mati stofnunarinnar myndi það kosta allt að 2,5 milljarða króna að setja upp rennslismæla í öll íbúðarhús, í stað núverandi gjaldtökufyrirkomulags þar sem vatnsnotkun er víðast hvar áætluð út frá fasteignamati. Stofnunin metur það óvíst að uppsetning slíkra mæla yrði kostnaðarins virði.

Öflug nýsköpun í íslenskum orkuiðnaði

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, segir umtalsverða nýsköpun eiga sér stað í orkuiðnaði og á Íslandi sé mikil þörf fyrir vel menntaða sérfræðinga af ýmsu tagi. „Sem dæmi vil ég nefna að í orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi hafa verið framkvæmd fjölmörg flókin verk og tæknimál leyst, á máta sem aldrei hefur verið gert áður, hvergi í veröldinni." Þetta kom m.a. fram á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins (SA) um atvinnu- og efnahagsmál, þar sem kynnt var ný skýrsla SA, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Sjá nánar á vef SA

Námskeið fyrir hita-og vatnsveitur

Námskeið fyrir hita- og vatnsveitur fór fram á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 11. nóvember s.l. Námskeiðið var fjölsótt og greinilegt að lagnamenn voru komnir í verulega þörf fyrir að hressa upp á kunnáttuna og kynnast nýjum viðhorfum í faginu. Á námskeiðinu sem stóð frá kl. 9:30 til 17:00 fluttu sjö valinkunnir sérfræðingar erindi og í lokin fóru fram umræður.

Orkunýting og búmennska

„Í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 28. október segir Steinunn Stefánsdóttir að umgengni Íslendinga við auðlindir hafi fram til þessa borið meiri svip af veiðimennsku en búskap, og á þar við umgengni um orkuauðlindir. Vandséð er hvernig aðstoðarritstjórinn kemst að þessari niðurstöðu. Eða þekkir Steinunn einhver dæmi um að gengið hafi verið of nærri íslenskum orkuauðlindum?“ Að þessu spyr Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í grein í Fréttablaðinu þar sem hann bregst við umræddum leiðara.

Um 600 afleidd tæknistörf í ráðgjafarfyrirtækjum

Orkuiðnaðurinn skapar samfélaginu ekki eingöngu tekjur vegna orkusölu heldur einnig vegna fjölda afleiddra starfa. Þannig eru um 600 afleidd störf í tæknilegum ráðgjafarfyrirtækjum að mati Sigurðar Arnalds, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Mannvits. Þetta kemur fram í samantekt í blaðinu Orka & Atvinnulíf, fylgiriti Viðskiptablaðsins.

Hellisheiðarvirkjun nú alls 303 megavött í rafafli

Tekinn hefur verið í notkun síðasti áfangi raforkuframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun með formlegri ræsingu tveggja 45 megavatta (MW) aflvéla. Með þessari viðbót er Hellisheiðarvirkjun orðin næst aflmesta virkjun landsins, alls 303 MW rafafls. Auk þess eru framleidd þar 133 MW varmaafls, en fyrsti áfangi heitavatnsframleiðslu á Hellisheiði var tekinn í notkun fyrir tæpu ári. Gert er ráð fyrir tveimur síðari áföngum heitavatnsframleiðslu og verður ráðist í þá eftir því sem þörf krefur. Heildarafl fullbyggðrar virkjunar verður þá 303 MW rafafls og 400 MW varmaafls. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Ertu að leita að þessu?