fbpx

Fréttir

Hagkvæmnisrök styðja langa leigusamninga orkuauðlinda

Sterk hagfræðileg rök hníga að löngum leigusamningum orkuauðlinda og mikilvægt er að viðurkenna að stytting leigutíma er kostnaðarsöm. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Daða Más Kristóferssonar, dósents í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, á aðalfundi Samorku. Daði fjallaði um gjaldtöku, leigutíma og arðsemi orkunýtingar. Daði segir of stuttan leigutíma hindra arðbærar framkvæmdir auk þess sem langur leigutími vinni gegn svokölluðum leigjendavanda, þar sem skammtímahagsmunir leigutaka séu aðrir en langtímahagsmunir leigusala.

Iðnaðarráðherra: Rétt að fjölga hér orkukaupendum

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpaði opna dagskrá aðalfundar Samorku. Í ávarpi sínu fjallaði Oddný m.a. um orkuskipti í samgöngum, mótun heildstæðrar orkustefnu og vinnu við gerð rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu náttúrusvæða. Oddný sagði áliðnaðinn hafa myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem byggja mætti á, en sagðist telja okkur farnast best ef okkur tækist að fjölga hér orkukaupendum og ef að flóra þeirra yrði sem fjölbreyttust.

Aðalfundur Samorku: Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Í ályktun aðalfundar Samorku er lýst vonbrigðum með stöðuna og ferlið við gerð rammaáætlunar. Í drögum að tillögu frá ágúst 2011 hafði verið vikið frá faglegri forgangsröðun verkefnisstjórnar og nú er málið öðru sinni statt í ógegnsæju samningaferli á vettvangi stjórnvalda, eftir miklar tafir og með tilheyrandi óvissu. Að mati Samorku væri vænlegast að styðjast einfaldlega við faglega röðun verkefnisstjórnar, frá í júní 2011. Þá ítrekar fundurinn andstöðu við hugmyndir um að færa auðlindamál undir umhverfisráðuneytið.
 

Guðrún Erla og Kristján ný í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku voru tveir nýir fulltrúir kjörnir í stjórn samtakanna: Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða. Þá var Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, endurkjörinn. Guðrún Erla og Kristján taka sæti Franz Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Norðurorku og Páls Pálssonar, veitustjóra Skagafjarðarveitna. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Norðurorku, var kjörinn varamaður í stað Kristjáns Haraldssonar.

Aðalfundur Samorku föstudaginn 17. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. febrúar. Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpar opna dagskrá fundarins og þá mun Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, flytja erindi um gjaldtöku, leigutíma og arðsemi orkunýtingar.

Orkunýting og ferðaþjónusta

„Eins og öll önnur fyrirtæki nýta loks orku- og veitufyrirtæki þjónustu flugfélaga, gistihúsa, bílaleiga, rútubíla, veitingaaðila o.s.frv., ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda. Hagsmunir greinanna fara því vel saman.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Fréttablaðinu, þar sem hann fjallar um samspil orkunýtingar og ferðaþjónustu. Í greininni fjallar hann m.a. um fjölda gesta í virkjanir, grænu orkuna í landkynningu, Bláa lónið, Perluna o.fl.

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

„Komandi kynslóðir munu hins vegar njóta ávaxtanna af því ef fyrri kynslóðir hafa reist slíkar virkjanir, sem enn skapa verðmæti mörgum áratugum eftir að upphafleg fjárfesting hefur verið afskrifuð líkt og dæmin sanna. Óvirkjað vatnsafl eða jarðhiti skila á hinn bóginn engum tekjum í skilningi orkusölu.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, þar sem hann veltir m.a. fyrir sér hvert sumir sækja sér umboð til að tala í nafni komandi kynslóða.

Rafmagnseftirlitsgjald tvöfaldað

Alþingi samþykkti á dögunum (17. desember) frumvarp iðnaðarráðherra um tvöföldun á eftirlitsgjaldi með flutningsfyrirtæki og dreifiveitum raforku. Gjaldið skilaði á liðnu ári um 50 milljónum króna en mun því á næsta ári skila um 100 milljónum. Samorka benti í umsögn sinni um frumvarpið á að allur kostnaður sem lagður er á flutning og dreifingu raforku greiðist á endanum af kaupendum orkunnar.

Erindi af veitustjórafundi

Á fjölsóttum veitustjórafundi Samorku voru flutt erindi um virkjanaframkvæmdir á Norðausturlandi, jarðskjálftavirkni við niðurdælingu jarðhitavökva og ný sveitarstjórnarlög. Erindin er að finna hér á vef Samorku.

Ertu að leita að þessu?