Orkuveita Reykjavíkur stendur fyrir málþingi um vatnsverndarmál laugardaginn 23. febrúar á Hótel Natura, Nauthólsvegi 52, milli klukkan 13:00-15:00. Sjá nánar á vef Orkuveitunnar.
Fréttir
Fréttir
Græn orka: Meiri tækifæri hér en af olíu í Noregi?
„Athygli vekur hve mikil tækifæri Norðmenn fjalla um á sviði útflutnings endurnýjanlegrar orku, en þótt þeir framleiði meira heildarmagn af raforku en Íslendingar er framleiðslan hér mun meiri á hvern íbúa talið, eða 54 megavattstundir á móti 30 í Noregi. Þá hafa Norðmenn þegar virkjað um tvo þriðju hluta af sinni orkugetu í vatnsafli, á meðan Íslendingar hafa virkjað um þriðjung af áætlaðri orkugetu landsins í vatnsafli og jarðhita.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku.
Forrit WHO um virkni innri eftirlitskerfa vatnsveitna
Samorka hefur fengið Maríu J. Gunnarsdóttur til að þýða og staðfæra forrit WHO (Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar) um virkni innra eftirlits vatnsveitna. María var jafnframt leiðbeinandi á námskeiði Samorku um notkun forritsins, sem haldið var í lok október sl. Nú er hægt að nálgast á forritið á vef WHO.
Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar gangsettar
Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar voru gangsettar í hvínandi roki við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 14. febrúar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við tilefnið að litið til framtíðar gæti vindorka orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar, ásamt vatnsafli og jarðvarma. Áhugavert væri að athuga hvernig vindorka nýttist Íslendingum í samspili með vatnsorku en sveigjanleiki vatnsorkunnar gæti aukið verðmæti vindorkunnar. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
Alþjóðleg jarðhitaráðstefna í Hörpu 6.-7. mars
Dagana 6. og 7. mars nk. stendur klasasamstarfið Iceland Geothermal fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á sviði jarðvarma í Hörpu. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að efla þekkingu og skilning þátttakenda á sérhæfðum og fjölbreyttum þáttum jarðvarmaverkefna sem og varpa ljósi á fjölbreytta möguleika sem jarðvarminn getur leitt af sér. Sjá nánar á vefsíðu ráðstefnunnar.
Gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja í Norður-Evrópu
Framundan er gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja milli Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja, en vatnsaflið í Noregi og Svíþjóð býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku. Danmörk er orðin háð innflutningi á grænni raforku og eftirspurnin fer ört vaxandi í Þýskalandi, Englandi og víðar. Norðmenn flytja þegar út meira en sem nemur heildarraforkuframleiðslunni hérlendis og hyggjast margfalda það magn.
Útboð á götuljósum
Í dag, 4. febrúar fór fram opnun tilboða í götuljós fyrir dreifiveitur, "Samorka 02/2012 STREET LIGHTING LUMINARIES".
Norðmenn sjá jafn mikil tækifæri í grænni orku og í olíu. Mun meiri græn orka hér, per íbúa.
Íslendingar framleiða nær tvöfalt meiri raforku á hvern íbúa en Norðmenn og höfum við þó gengið helmingi skemur í nýtingu okkar endurnýjanlegu orkulinda. Því vekur það athygli að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings samanlagt.
Breytingar á orkusköttum um áramót
Á síðasta starfsdegi sínum fyrir jól samþykkti Alþingi breytingar á orkusköttum, m.a. á sölu á raforku og heitu vatni. Báðir skattar voru fyrst kynntir til sögunnar í árslok 2009 og áttu að verða tímabundnir til þriggja ára. Nú hefur verið samþykkt að 2% skattur á sölu á heitu vatni (smásöluverð) verði varanlegur en að skattur á selda raforku hækki úr 12 aurum á kílóvattstund (kWst) í 12,6 aura. Með þeirri hækkun er í athugasemdum með frumvarpinu vísað til verðlagsbreytinga. Þá á skatturinn á raforku að falla niður í árslok 2015.
Stjórn Samorku ályktar: Tillaga um rammaáætlun óásættanleg
„Stjórn Samorku telur fyrirliggjandi tillögu óásættanlega. Tillagan víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar, sem vera átti grundvöllur sáttar um málaflokkinn. Fjöldi orkukosta sem verkefnisstjórnin raðaði ofarlega út frá sjónarhorni orkunýtingar eru í tillögunni ýmist settir í biðflokk eða verndarflokk. Þar á meðal eru ýmsir hagkvæmustu og best rannsökuðu kostirnir… Ljóst er að engin sátt getur orðið um þessa niðurstöðu, sem varpar fyrir róða áralangri faglegri vinnu verkefnisstjórnar.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun stjórnar Samorku um fyrirliggjandi tillögu um rammaáætlun, sem Alþingi greiðir atkvæði um 14. janúar.