fbpx

Fréttir

ESB og auðlindirnar

Stefán Már Stefánsson prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands fjallar um íslenskar lagareglur, þjóðréttarsamninga, reglur ESB og EES-samningsins, eignarétt og stjórnunarrétt að auðlindum landsins o.fl. á fundi Lagastofnunar miðvikudaginn 20. mars. Sjá nánar á vef HÍ.

Breytingar á skrifstofu Samorku

Eiríkur Bogason hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Samorku, að eigin ósk. Gústaf Adolf Skúlason, sem gegnt hefur stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna, hefur tekið við af Eiríki.

Flutningskerfi raforku mætir ekki eðlilegum kröfum

Styrkja þarf flutningkerfið verulega á komandi árum ef það á að vera í stakk búið til þess að mæta kröfum nútíma samfélags og ekki hamla þróun byggðar, t.d. rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja. Meðal annars er byggðalínan fulllestuð og framleiðslugeta sumra virkjana því vannýtt. Þetta kom fram í erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets, á aðalfundi Samorku. Gríðarleg endurnýjun er nauðsynleg við uppbyggingu kerfisins og áætlun gerir ráð fyrir fjárfestingu sem nemur 77 milljörðum króna næstu tíu árin. Þar er miðað við uppbyggingu á loftlínum.

Tækifæri með sæstreng, en að ýmsu að hyggja

Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku fjallaði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, m.a. um rammaáætlun, eignarhald orkufyrirtækja, sæstreng til Evrópu, orkuskipti og raflínur í jörð. Steingrímur sagðist algerlega ósammála ályktun aðalfundar Samorku þar sem lýst er vonbrigðum með rammaáætlun. Hann fjallaði um tækifæri með orkuútflutningi um sæstreng, en sagði jafnframt að ýmsu að hyggja í því sambandi. Sjá ræðupunkta Steingríms á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ályktun aðalfundar Samorku: Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi

Í ályktun aðalfundar Samorku er fjallað um þær miklu fjárfestingar sem framundan eru við flutningskerfi raforku og minnt á að allar ákvarðanir um að fara leiðir sem fela í sér tugi milljarða króna í viðbótarkostnað munu óumflýjanlega endurspeglast í hærri reikningum til fyrirtækja og heimila. Þá hvetur aðalfundur Samorku til víðtækrar og opinnar umræðu um leiðir til hámörkunar á arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku þar sem Ísland býr yfir gríðarlegum tækifærum. Loks lýsir fundurinn vonbrigðum með niðurstöðu Alþingis um rammaáætlun.

Tryggvi Þór endurkjörinn formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku var Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK endurkjörinn formaður samtakanna til tveggja ára. Einnig voru endurkjörnir til stjórnarsetu þeir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku. Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku, kemur nýr inn sem varamaður í stjórn en einnig voru endurkjörnir sem varamenn þeir Dagur Jónsson vatnsveitustjóri í Hafnarfirði og Guðmundur Davíðsson framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Fyrir sátu í stjórn sem aðalmenn þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets.

Aðalfundur Samorku föstudaginn 22. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 22. febrúar. Opna dagskrá fundarins ávarpar m.a. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra og þá mun Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, flytja erindi um langtímauppbyggingu raforku.

Ertu að leita að þessu?