fbpx

Fréttir

Ferðafólk heimsækir virkjanir

Mikill fjöldi gesta heimsækir íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls nokkuð á annað hundrað þúsund manns. Virkjanir og orkumannvirki eru aðgengileg gestum víða um land og víða hafa verið settar upp sýningar og boðið upp á sérstaka leiðsögn fyrir ferðamenn. Erlendir gestir eru margir áhugasamir um nýtingu vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja), en fjöldi Íslendinga sækir einnig heim orkumannvirkin og sýningar orkufyrirtækjanna.

Sigurjón Kjærnested til Samorku

Samorka hefur ráðið Sigurjón Norberg Kjærnested vélaverkfræðing í starf framkvæmdastjóra veitusviðs samtakanna. Sigurjón er með M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Sigurjón hefur m.a. starfað sem aðstoðarkennari við Háskóla Íslands og frá árinu 2011 hefur hann starfað hjá verkfræðistofunni Mannvit. Sigurjón er formaður vélaverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands, 1. varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Hann hefur störf hjá Samorku í byrjun september.

Hagkvæmni sæstrengs áfram til skoðunar

Ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um lagningu sæstrengs til Evrópu hefur skilað tillögum sínum til ráðherra. Ráðgjafarhópurinn var samhljóða í sinni ályktun að frekari upplýsingar þurfi til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands, en áætlað er að nettó útflutningstekjur af flutningi raforku um sæstreng geti orðið allt að 76 milljarðar króna á ári. Lagt er til að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi. Sjá skýrsluna á vef atvinnuvegaráðuneytis.

Fyrirtæki opna dyrnar til að efla verk- og tæknimenntun

Samtök atvinnulífsins hvöttu á dögunum fyrirtæki til að taka þátt í að efla verk- og tæknimenntun með því að kynna atvinnulífið fyrir nemendum og kennurum grunn- og framhaldsskóla. Skemmst er frá því að segja að viðbrögðin voru mjög jákvæð og brugðust fyrirtækin skjótt við kallinu. Um 50 fyrirtæki − m.a. nokkur orku- og veitufyrirtæki − hafa nú þegar lýst yfir áhuga á efla starfsmenntun með því að taka þátt en fleiri geta bæst í hópinn. Sjá nánar á vef SA.

Starf framkvæmdastjóra veitusviðs

Samorka auglýsir laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra hita-, vatns- og fráveitusviðs á skrifstofu samtakanna. Starfið felur m.a. í sér umsjón með starfi fagráða umræddra veitusviða, skipulagningu og framkvæmd námskeiða og funda, umsjón með vinnslu handbóka o.fl. Umsóknarfrestur er til 14. júní.

Af raforku og „stóriðjustefnu“

„Íslensk orkufyrirtæki halda ekki uppi því sem oft er nefnt stóriðjustefna“, segir Gústaf Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku í grein í Morgunblaðinu. Þar bregst hann við skrifum formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna og minnir m.a. á ábyrgðargjald sem orkufyrirtæki í opinberri eigu greiða vegna eigendaábyrgðar á lánum. Í greininni minnir Gústaf einnig á tækifæri tengd lagningu sæstrengs til Evrópu en leggur áherslu á að framleiðendur raforku vilja einfaldlega hámarka arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku.

Brennisteinsvetni og förgun affallsvatns á aðalfundi Jarðhitafélagsins 30. apríl

Jarðhitafélag Íslands heldur aðalfund sinn þriðjudaginn 30. apríl í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fjallar Bjarni Már Júlíusson, verkefnastjóri, um brennisteinsvetni og Þráinn Friðriksson, jarðefnafræðingur hjá ÍSOR, fjallar um förgun affallsvatns frá jarðhitavirkjunum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.

Ertu að leita að þessu?