Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 12.30-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag. Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Óskað er eftir tilnefningum eigi síðar en 26. janúar.
Fréttir
Fréttir
Nýtt tengivirki og Búðarhálslína 1 tekin í notkun
Nýtt tengivirki Landsnets við Búðarháls og Búðarhálslína 1 hafa verið tekin í notkun. Búðarhálstengivirkið er hannað með það fyrir augum að hægt verði að stækka það síðar, verði t.d. ný flutningslína til Norðurlands, svokölluð Norður-suðurtenging, byggð. Sjá nánar á vef Landsnets.
Orka náttúrunnar tekur til starfa
Um áramót tók Orka náttúrunnar við rekstri virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og allri raforkusölu. Fyrirtækið er opinbert hlutafélag alfarið í eigu Orkuveitunnar og er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Viðskiptavinir Orku náttúrunnar eru um 75.000 talsins og eru viðskiptin misjafnlega umfangsmikil, allt frá heimilum til álvers. Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland. Sjá nánar á vef ON.
Norðurorka tekur yfir fráveitu Akureyrarbæjar
Norðurorka hf. hefur tekið yfir rekstur á fráveitu Akureyrarbæjar. Sameining veitna á Akureyri hefur gerst í nokkrum áföngum. Árið 1993 voru Vatnsveita Akureyrar og Hitaveita Akureyrar sameinaðar og árið 2000 bættist Rafveita Akureyrar við og til varð sameinað veitufyrirtæki Akureyringa, Norðurorka. Síðan þá hafa veitur í nágrannasveitarfélögum sameinast Norðurorku hf. og verulegur árangur náðst með bættri nýtingu allra forða fyrirtækisins og framlegð aukist verulega á tímabilinu. Sjá nánar á vef Norðurorku.
Sæstrengur: Hefjum könnunarviðræður
„Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metur það svo að ávinningurinn gæti orðið verulegur, eða nettó útflutningstekjur á bilinu 4-76 milljarðar króna á ári. Það er afar breitt bil. Leiðin til að þrengja þetta bil vegna ákvörðunartöku er meðal annars fólgin í því að taka upp könnunarviðræður við bresk stjórnvöld annars vegar, og að kanna möguleika varðandi aðkomu fjárfesta að verkefninu hins vegar. Verði niðurstaðan t.d. helmingur efri markanna í mati Hagfræðistofnunar, eða um 40 milljarðar í nettó útflutningstekjur á ári, til fyrirtækja sem flest eru í eigu almennings, þá hefur verið lagt upp í leiðangra af mun minna tilefni. Leiði slík athugun lítil tækifæri í ljós þá er a.m.k. kominn raunverulegur grundvöllur fyrir ákvörðun um að leggja þessa umræðu til hliðar. Slíkan grundvöll ákvarðanatöku í þessu máli finnum við Íslendingar ekki í samtali við okkur sjálf.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku, í grein í Fréttablaðinu þar sem hann bregst m.a. við grein alþingismannsins Páls J. Pálssonar.
Útboð á ljósastaurum
Samorka hefur auglýst sameiginlegt útboð á ljósastaurum fyrir dreifiveitur í samtökunum. Útboðsgögn eru afhent rafrænt frá skrifstofunni, síminn er 588 4430 og tölvupóstur: sa@samorka.is Slóð inn á auglýsingu.
Vorfundur Samorku 2014 á Akureyri
Vorfundur verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri dagana 14. og 15. maí. Undirbúningur er nú í fullum gangi og munu frekari upplýsingar birtast hér á vefnum eftir því sem honum vindur fram.
160 formleg erindi vegna einnar virkjunar
Á 10 ára tímabili voru send 160 formleg erindi til stjórnsýslustofnana vegna leyfiveitingaferla fyrir Hellisheiðarvirkjun. Þetta kom m.a. fram í erindi Auðar Andrésdóttur, sviðsstjóra hjá Mannviti, sem kynnti vinnu starfsskilyrðahóps Jarðvarmaklasans á haustfundi Jarðhitafélags Íslands sem haldinn var í samvinnu við Íslenska orkuháskólann. Á vettvangi klasans er unnið að tillögum til úrbóta á sviði leyfiveitingaferla. Sjá erindi fundarins á vef Jarðhitafélagsins.
Einföldun regluverks á haustfundi Jarðhitafélagsins
Þriðjudaginn 26. nóvember heldur Jarðhitafélag Íslands haustfund sinn, í samstarfi við Íslenska orkuháskólann í Háskólanum í Reykjavík. Þema fundarins er einföldun regluverks jarðhitanýtingar. Umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar fundinn en einnig verða þar flutt erindi frá Auðlindastofnun HR og Jarðvarmaklasanum. Sjá dagskrá fundarins á vef Jarðhitafélagsins.
Bretar áhugasamir um sæstreng
Sæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði kostnaðarsöm framkvæmd en ætti að geta reynst hagkvæmt verkefni fyrir alla aðila og er nákvæmlega það sem helst vantar í breska raforkukerfið. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli fulltrúa National Grid, breska flutningsfyrirtækis raforku, á ráðstefnu í húsakynnum Bloomberg fréttaveitunnar í London. Á ráðstefnunni kom einnig fram að mikill áhugi er á verkefninu meðal breskra stjórnvalda og meðal fjárfesta.