fbpx

Fréttir

Sjávarþorp með frárennsliskröfur stórborga í miðri Evrópu

Óraunhæft er að gera sömu fráveitukröfur til sjávarþorpa hérlendis og gerðar eru til borga í miðri Evrópu, hvað varðar t.d. gerla og lífræna mengun. Ísland er mjög dreifbýlt land og víðast hvar er viðtaki frárennslis mjög öflugur miðað við byggðina. Þá er hlutfallslega mikið vatn í frárennsli hérlendis, enda vatnsnotkun mikil og hús flest kynt með jarðhitavatni. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Reynis Sævarssonar, fagstjóra vatns- og fráveitna hjá Eflu verkfræðistofu, á aðalfundi Samorku. Reynir segir jafnframt mikilvægt að tryggja að regluverkið loki ekki á grænar lausnir í skólphreinsun, sem mikið eru notaðar í nágrannalöndum okkar en nánast ekkert hérlendis.

Orkugeirinn grundvöllur þekkingarstarfa

Um helming allra 900 ársverka á íslenskum verkfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum má rekja til orkutengdra verkefna. Þar af eru tæp 150 ársverk í erlendum verkefnum. Alls starfa um eitt þúsund verkfræðingar, tæknifræðingar og raunvísindafólk hjá orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum og í orkutengdum greinum hérlendis. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku. Guðrún segir þekkingarstörf ekki verða til í tómarúmi. Uppbygging þekkingar kringum grunnatvinnuvegi leiði af sér tækifæri á öðrum sviðum og orkugeirinn hafi byggt upp sterkan þekkingargrunn á Íslandi.

Tenging við Evrópu skoðuð af alvöru

Í ályktun aðalfundar hvetur Samorka til þess að tenging við raforkukerfi Evrópu verði skoðuð af mikilli alvöru og forsendur verkefnisins treystar áður en ákvörðun er tekin um hvort ráðast eigi í það. Þá leggur Samorka áherslu á mikilvægi þess að hér séu gerðar raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar þannig að uppfyllt verði eðlileg skilyrði en ekki gerðar kröfur að nauðsynjalausu sem hafa í för með sér fjárfestingar umfram eðlilega fjárfestingargetu veitufyrirtækja og sveitarfélaga. Loks ítrekar Samorka mikilvægi þess að sátt náist um rammaáætlun og um nauðsynlega uppbyggingu á flutningskerfi raforku.

Guðrún Erla, Kristján og Þórður endurkjörin í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku voru endurkjörin til setu í stjórn samtakanna þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets. Þá var Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku endurkjörinn sem varamaður í stjórn. Öll voru þau kjörin til tveggja ára.

Aðalfundur Samorku á föstudag

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 21. febrúar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpar opna dagskrá fundarins og þar verður jafnframt fjallað um orkugeirann, veitufyrirtæki og tækniþekkingu á Íslandi, og um raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar.

Ljósastauraútboð Samorku

Föstudaginn 14. febrúar voru opnuð tilboð í ljósastaura sem Samorka stóð að fyrir hönd dreifiveitna rafmagns. Sjö boð bárust og voru upphæðirnar frá kr. 88 milljónum til 120 milljóna. Unnið er að yfirferð og samanburði á tilboðunum og verður fljótlega gengið til samninga við þann bjóðanda sem best kemur út úr þeirri skoðun.

Landsnet og PCC semja um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka

Landsent hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017. Sjá nánar á vef Landsnets.

Ertu að leita að þessu?