Óraunhæft er að gera sömu fráveitukröfur til sjávarþorpa hérlendis og gerðar eru til borga í miðri Evrópu, hvað varðar t.d. gerla og lífræna mengun. Ísland er mjög dreifbýlt land og víðast hvar er viðtaki frárennslis mjög öflugur miðað við byggðina. Þá er hlutfallslega mikið vatn í frárennsli hérlendis, enda vatnsnotkun mikil og hús flest kynt með jarðhitavatni. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Reynis Sævarssonar, fagstjóra vatns- og fráveitna hjá Eflu verkfræðistofu, á aðalfundi Samorku. Reynir segir jafnframt mikilvægt að tryggja að regluverkið loki ekki á grænar lausnir í skólphreinsun, sem mikið eru notaðar í nágrannalöndum okkar en nánast ekkert hérlendis.
Fréttir
Fréttir
Orkugeirinn grundvöllur þekkingarstarfa
Um helming allra 900 ársverka á íslenskum verkfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum má rekja til orkutengdra verkefna. Þar af eru tæp 150 ársverk í erlendum verkefnum. Alls starfa um eitt þúsund verkfræðingar, tæknifræðingar og raunvísindafólk hjá orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum og í orkutengdum greinum hérlendis. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku. Guðrún segir þekkingarstörf ekki verða til í tómarúmi. Uppbygging þekkingar kringum grunnatvinnuvegi leiði af sér tækifæri á öðrum sviðum og orkugeirinn hafi byggt upp sterkan þekkingargrunn á Íslandi.
Tenging við Evrópu skoðuð af alvöru
Í ályktun aðalfundar hvetur Samorka til þess að tenging við raforkukerfi Evrópu verði skoðuð af mikilli alvöru og forsendur verkefnisins treystar áður en ákvörðun er tekin um hvort ráðast eigi í það. Þá leggur Samorka áherslu á mikilvægi þess að hér séu gerðar raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar þannig að uppfyllt verði eðlileg skilyrði en ekki gerðar kröfur að nauðsynjalausu sem hafa í för með sér fjárfestingar umfram eðlilega fjárfestingargetu veitufyrirtækja og sveitarfélaga. Loks ítrekar Samorka mikilvægi þess að sátt náist um rammaáætlun og um nauðsynlega uppbyggingu á flutningskerfi raforku.
Guðrún Erla, Kristján og Þórður endurkjörin í stjórn Samorku
Á aðalfundi Samorku voru endurkjörin til setu í stjórn samtakanna þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets. Þá var Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku endurkjörinn sem varamaður í stjórn. Öll voru þau kjörin til tveggja ára.
Jarðlagnanámskeið Samorku 2014
Jarðlagnanámskeið Samorku var haldið mánudaginn 17. febrúar síðastliðinn. Námskeiðið var vel sótt, yfir 60 manns tóku þátt, og komust mun færri að en vildu.
Landsnet tilnefnt til menntaverðlauna atvinnulífsins
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars, á menntadegi atvinnulífsins á Hilton Reykjavík Nordica, til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins, Landsnet þar á meðal. Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.
Aðalfundur Samorku á föstudag
Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 21. febrúar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpar opna dagskrá fundarins og þar verður jafnframt fjallað um orkugeirann, veitufyrirtæki og tækniþekkingu á Íslandi, og um raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar.
Nýtt launaflsvirki tekið í notkun við Grundartanga
Landsnet hefur tekið í notkun nýtt launaflsvirki við Grundartanga. Þetta er stærsta einstaka verkefni Landsnets á liðnum árum og nam heildarkostnaður rúmum tveimur milljörðum króna. Launaflsvirkið bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið. Sjá nánar á vef Landsnets.
Ljósastauraútboð Samorku
Föstudaginn 14. febrúar voru opnuð tilboð í ljósastaura sem Samorka stóð að fyrir hönd dreifiveitna rafmagns. Sjö boð bárust og voru upphæðirnar frá kr. 88 milljónum til 120 milljóna. Unnið er að yfirferð og samanburði á tilboðunum og verður fljótlega gengið til samninga við þann bjóðanda sem best kemur út úr þeirri skoðun.
Landsnet og PCC semja um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka
Landsent hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017. Sjá nánar á vef Landsnets.