Á næstu dögum hefst niðurdæling brennisteinsvetnis, sem hreinsað hefur verið úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar. Tilraunarekstur hreinsistöðvar er hafinn. Við það breytist tilhögun niðurrennslis vinnsluvatns frá virkjuninni og getur það valdið hreyfingu á jarðlögum. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
Fréttir
Fréttir
Jarðarstund og íslensk orka
Laugardaginn 29. mars er svokölluð Jarðarstund (Earth Hour) skipulögð í þúsundum borga um heim allan. Um er að ræða öflugt framtak skipulagt af umhverfissamtökunum World Wildlife Fund og er tilgangur þess að minna fólk á stöðu loftslagsmála og hlýnun jarðar, m.a. með því að draga úr notkun raflýsingar. Losun gróðurhúsalofttegunda stafar öðru fremur af brennslu jarðefnaeldsneyta og víða um heim er raforka unnin með brennslu þeirra. Hér á landi eru dæmi um aðila sem hyggjast sýna þessu góða framtaki stuðning í verki. Ólíkt flestum öðrum ríkjum búum við Íslendingar hins vegar svo vel að hér er öll raforka (99,9%) framleidd með nýtingu vatnsafls eða jarðhita. Við Íslendingar getum því kveikt okkar ljós án nokkurra áhrifa á andrúmsloft jarðar, en við deilum þessu andrúmlofti með öllu mannkyninu og hljótum því að fagna þessu góða framtaki víða um heim.
Málþing VAFRÍ um vatns- og fráveitumál
Vatns- og Fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) stendur fyrir málþingi um nýjar rannsóknir og stefnur í vatns- og fráveitumálum þriðjudaginn 8. apríl frá kl. 15-16:30 í HT-101 í Háskólatorgi.
ESB-ríkin með 14% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%
Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 14,1% árið 2012, samkvæmt nýbirtum tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Er þetta aukning um 8,3% frá árinu 2004. Hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan ESB er í Svíþjóð eða 51%, en næst kemur Lettland með 36%. Lægst er hlutfallið á Möltu, 1,4%, en næst koma Lúxemborg með 3,1% og Bretland með 4,2%. Öll eiga þessi þrjú ríki langt í langt að ná sínum markmiðum fyrir árið 2020. Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76%. Hér eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99% allrar orku til húshitunar, en við flytjum inn jarðefnaeldsneyti einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.
Traustur rekstur og sterkari fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur
Hagræðing í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og umfangsmiklar ráðstafanir, sem stjórn fyrirtækisins og eigendur þess (Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð), samþykktu á árinu 2011 hafa skilað mun meiri og skjótari árangri en gert var ráð fyrir þá. Rekstrarhagnaður ársins 2013 var 17,2 milljarðar króna, skuldir lækkuðu um tæpa 40 milljarða og eigið fé jókst um rúma 20 milljarða króna á árinu. Frekari upplýsingar um ársreikning Orkuveitu Reykjavíkur árið 2013 má finna á heimasíðu Orkuveitunnar.
Knýjandi þörf á stefnumótun stjórnvalda í jarðstrengjamálum
Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum er þess ekki að vænta að frekari uppbygging hefjist á næstunni í meginflutningskerfis raforku á Íslandi. Brýnt er því að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem Landsnet getur haft að leiðarljósi í þessu mikilvæga máli, því rekstur raforkukerfisins er orðinn óviðunandi og aðgangur að öruggri raforku háður búsetu.
Þetta er meðal þess sem fram kom á almennum kynningarfundi sem fram fór samhliða aðalfundi Landsnets. Sjá nánar á heimasíðu Landsnets.
Vatn og orka – Dagur vatnsins 2014
"Á þessu ári sameinast alþjóðlegar stofnanir, stjórnvöld, fyrirtæki og umhverfisverndarsamtök víða um heim í þeirri viðleitni að vekja athygli á og styðja við flutning og framleiðslu á orku með vatni, á sjálfbæran hátt. Sem er nákvæmlega það sem við gerum hér á landi og þar sem við stöndum svo framarlega." Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Sigurjóns Norbergs Kjærnested, framkvæmdastjóra veitusviðs Samorku i grein hans í Bændablaðinu þann 20.03.2014, í tilefni af degi vatnsins 2014.
Landsvirkjun semur við United Silicon
Landsvirkjun hefur undirritað raforkusölusamning við United Silicon hf. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon mun reisa í Helguvík á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
Landsvirkjun og PCC Bakki Silicon undirrita raforkusölusamning
Landsvirkjun og fyrirtækið PCC Bakki Silicon hf hafa undirritað samning um sölu raforku. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem PCC Bakki Silicon áformar að reisa við Bakka við Húsavík. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi snemma á árinu 2017. Verksmiðjan mun framleiða allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og nota 58MW af afli sem unnið verður með endurnýjanlegum hætti í jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
Forstjóri Orkuveitunnar stjórnandi ársins
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, var valinn stjórnandi ársins 2014 af Stjórnvísi og tók við viðurkenningu úr hendi forseta Íslands þarnn 13. mars síðastliðinn. Sjá nánar á vef Orkuveitunnar.