fbpx

Fréttir

Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar 20. mars

Árlegur Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar verður haldinn föstudaginn 20. mars næstkomandi. Í ár hefst vísindadagurinn á sólmyrkva! Ráðstefnugestum verður boðið út á svalir á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og boðið að rýna í gegnum til þess gerð gleraugu á sólmyrkvann áður en gengið verður til dagskrár. Þar verður boðið upp á kynningu á 14 vísindaverkefnum, sem unnin hafa verið af fyrirtækjunum tveimur eða í samstarfi við þau. Skráningar er óskað og stendur hún yfir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

ESB eykur kröfur um samtengingar raforkukerfa, m.a. með sæstrengjum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram tilmæli til aðildarríkja sambandsins þess efnis að þau efli samtenginar flutningskerfa raforku, m.a. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Tólf núverandi aðildarríkja ESB uppfylla ekki þessar kröfur í dag, m.a. Bretland og Írland. Ætla má að þessar kröfur, auk kröfunnar um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og aukið orkuöryggi, skýri þann áhuga sem bresk stjórnvöld hafa sýnt á tengingu um sæstreng við Ísland o.fl. ríki.

Takmörk flutningskerfisins torvelda orkusölu Landsvirkjunar

Dæmi eru um að samningar um orkusölu hafi ekki náð að fram að ganga vegna takmarkana í flutningskerfi raforku, en afhending 10 megavatta eða meiri orku er nú einungis möguleg í tveimur landshlutum. Þetta kom fram í erindi Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, á aðalfundi Samorku. Hann segir þegar virkjaðar auðlindir ekki nýttar til fulls vegna takmarkana í flutningskerfinu, sem jafnframt torveldar þróun nýrra virkjana.

„Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna“

Nauðsynlegt er að styrkja flutningskerfi raforku víða um land, þar sem öryggi afhendingar raforku er óviðunandi. Raforkunotendur utan Suðvesturlands búa við miklu minna afhendingaröryggi rafmagns og þar eru mun meiri líkur á truflunum og skerðingum í raforkuafhendingu en hjá notendum Suðvestanlands. Þetta kom fram í erindi Ragnars Guðmannssonar, yfirmanns stjórnstöðvar Landsnets, á aðalfundi Samorku. Hann segir Íslendinga Evrópumeistara í notkun kerfisvarna í raforkukerfinu.

Iðnaðarráðherra: Vonbrigði með rammaáætlun

Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, brýnt að styrkja flutningskerfi raforku, og bindur hún vonir við að þingmál þess efnis verði samþykkt á yfirstandandi þingi. Þá sagði ráðherrann að áfangaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, þar sem lagt er til að (einungis) Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk hefði valdið sér töluverðum vonbrigðum. Lýsti hún stuðningi við fyrirliggjandi breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar, þar sem lagt er til að fleiri kostir verði færðir í nýtingarflokk.

Ertu að leita að þessu?