fbpx

Fréttir

Námskeið Set ehf., HEF & Samorku á Egilsstöðum

Set ehf. í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Samorku, hélt dagana 11.-12. maí síðastliðna námskeið á Egilsstöðum. Fyrri daginn var farið yfir samsetningu og frágang á einangrun hitaveituröra, og á seinni deginum var farið yfir samsuðu á PE plaströrum, þ.e. spegilsuðu, rafsuðu og þráðsuðu. Námskeiðið tókst vel upp og var mikil ánægja með það, bæði hjá skipuleggjendum og þátttakendum. Vakin er athygli á því að samskonar námskeið verða haldin í haust, bæði á Akureyri og á suðvesturhorninu. Myndir af námskeiðinu má sjá hér á heimasíðu HEF

Orkukostir færðir aftur í nýtingarflokk

Flokkað í

Að mati Samorku væri rétt að færa átta orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar, ekki eingöngu þá fimm sem nú er lagt til af hálfu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis. Minnt er á að við afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar á Alþingi voru sex orkukostir færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Áður höfðu tólf orkukostir verið færðir í átt frá nýtingu til verndar í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta. Samorka hefur ítrekað gagnrýnt þessa meðhöndlun á faglegum niðurstöðum 2. áfanga verkefnisstjórnar. Undir þá gagnrýni hafa ýmsir aðrir tekið, t.d. SA og ASÍ. Samorka hefur þó aldrei haldið því fram að Alþingi hefði ekki lagalega heimild til að gera umræddar breytingar.

Þættirnir Orka Landsins á N4

Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.

Virkjun sjávarorku verði hagkvæm um eða eftir miðja öldina

Gróft reiknað er kostnaður við virkjun sjávarorku nú um 20 sinnum hærri en við hefðbundna vatnsaflsvirkjun. Mikil framþróun er hins vegar í rannsóknum á beislun sjávarorku og má reikna með að á næstu 30 árum verði miklar framfarir á þessu sviði. Fyrirsjáanlegt er því að kostnaður við virkjun sjávarorku mun fara lækkandi samhliða því að spár gera ráð fyrir að orkuverð muni hækka. Má því reikna með að virkjun sjávarorku geti orðið hagkvæmur kostur um eða eftir miðja öldina. Þetta eru helstu niðurstöður greinargerðar sem sérfræðingahópur hefur skilað til atvinnuvegaráðuneytisins. Sjá nánar á vef ráðuneytisins.

Horfur á stórauknum arðgreiðslum Landsvirkjunar

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur styrkst mikið undanfarin ár og að óbreyttu ætti fyrirtækið að geta greitt 10-20 milljarða króna á ári í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, innan fárra ára. Sú upphæð gæti þó orðið mun hærri við breyttar forsendur, t.d. með tilkomu sæstrengs til Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu á 50 ára afmælisári þess. Erindi Harðar má nálgast hér á vef Landsvirkjunar, og upptökur af öllum fundinum og erindi hans er að finna hér, m.a. ávarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann fjallaði um stofnun sérstaks orkuauðlindasjóðs.

Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum

Tekin hafa verið í notkun ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Þessar framkvæmdir og nýjungar hafa í för með sér að svonefndur straumleysistími styttist til muna og raforkuöryggi Vestfjarða eflist. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu er þó enn talin forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar. Sjá nánar á vef Landsnets.

Námskeið Set ehf. HEF & Samorku á Egilsstöðum 11.-12. maí

Set ehf, í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Samorku, mun dagana 11.-12. maí halda námskeið á Egilsstöðum. Á námskeiðinu verður á einum degi farið yfir samsetningu og frágang á einangrun hitaveituröra, og á öðrum degi farið yfir samsuðu á PE plaströrum, þ.e. spegilsuðu, rafsuðu og þráðsuðu.

Kostnaður við þátttöku er 24.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Takmarkaður fjöldi er á námskeiðið og fer skráning þátttakenda fram hjá Samorku í netfangið the@samorka.is og í síma 588 4430. Við vekjum athygli á því að samskonar námskeið verður einnig haldið í haust, þá bæði í samstarfi við Norðurorku á Akureyri og á suðvesturhorninu.

Opinn ársfundur Landsvirkjunar 5. maí

Landsvirkjun heldur opinn ársfund á 50. afmælisári sínu þriðjudaginn 5. maí í Hörpu. Ársskýrsla fyrirtækisins fyrir árið 2014 er komin á netið, en þar má nálgast ýmsar upplýsingar á mjög aðgengilegan hátt. m.a. í myndböndum og skýringarmyndum, t.d. umfjöllun um ferli rammaáætlunar og um sæstrengsverkefnið. Fram kemur m.a. að eftirspurn eftir raforku á Íslandi fer vaxandi og framtíðarspár benda til að á næstu árum muni hún aukast enn frekar. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Græn orka og ferðamenn

„Náttúra Íslands hefur mikið aðdráttarafl og oft er vísað til könnunar Ferðamálastofu þar sem 80% aðspurðra ferðamanna segja íslenska náttúru hafa haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að ferðast til Íslands. Hægt er að velja nokkur svör við þessari spurningu og þannig nefnir t.d. 41% svarenda íslenska menningu og sögu, 17% nefna lágt flugfargjald o.s.frv. Samtala svarhlutfalla er þannig ekki 100%, heldur 209%. Samorka hefur óskað eftir því að Ferðamálastofa bæti svarmöguleika við þessa spurningu: grænni orku.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku.

Ertu að leita að þessu?