fbpx

Fréttir

Styrkir JHFÍ til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur

Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld. Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Nánari upplýsingar má nálgast hér á heimasíðu JHFÍ.

Nýr vefur um vatnsiðnað

Opnaður hefur verið vefurinn vatnsidnadur.net, þar sem fjallað er um íslenskan og erlendan vatnsiðnað í víðum skilningi. Þar má t.d. finna upplýsingar um veitur, virkjanir, hönnuði, verktaka, söluaðila, menntastofnanir og margt fleira, auk ýmiss konar fróðleiks og frétta sem tengjast nýtingu vatns. Samorka er einn fjölmargra aðila sem stutt hafa við þróun og opnun síðunnar. Síðuna má nálgast hér.

Slæmar horfur á fyllingu miðlunarlóna Landsvirkjunar

Kuldi og skýjafar hafa m.a. haft í för með sér að innan við helmingslíkur eru taldar á að Hálslón fyllist í sumar og svipaða sögu er að segja með Blöndulón, en staðan er betri á Þjórsársvæðinu. Haldi innrennsli í lónin áfram að vera nálægt lægstu mörkum, líkt og verið hefur í sumar, gæti þurft að minnka afhendingu á raforku í upphafi vetrar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Landsvirkjun 50 ára – gagnvirk sýning opnar í Ljósafossstöð

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og nú fagnar fyrirtækið því 50 ára afmæli. Líkt og fram kemur á vef fyrirtækisins var stofnun þess tengd byggingu Búrfellsstöðvar, sem var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á þeim tíma og lagði hún grunn að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi. Landsvirkjun starfrækir í dag fjórtán vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmastöðvar á fimm starfssvæðum. Þá er í byggingu jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum auk þess sem rannsóknarverkefni stendur yfir með tvær vindmyllur á Hafinu norðan við Búrfell. Landsvirkjun hefur m.a. fagnað afmælinu með opnum fundum og síðar í sumar mun fyrirtækið setja upp gagnvirka sýningu um orku og endurnýjanlega orkugjafa í Ljósafossstöð. Sjá nánar um 50 ára afmælisár Landsvirkjunar hér á vef fyrirtækisins.

RAFMAGN ER DAUÐANS ALVARA

RAFMAGN ER DAUÐANS ALVARA heitir bæklingur sem Mannvirkjastofnun hefur gefið út. Samorka mælir eindregið með því að fólk kynni sér innihald bæklingsins og að þeir sem starfa að rafvirkjun tileinki sér efni hans, sem sérstaklega eru leiðbeiningar um viðbrögð við rafmagnsslysum.  SJÁ BÆKLING, smellið hér:

ESB-ríkin með 15% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 15,3% árið 2014, samkvæmt nýbirtum tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Flest aðildarríkin virðast vera á góðri leið með að ná markmiði ESB um 20% meðalatal árið 2020. Meðal aðildarríkja er hlutfallið lang hæst í Svíþjóð, eða 51,1%, en lægst á Möltu þar sem það er 2,7%. Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76%.

Ertu að leita að þessu?