fbpx

Fréttir

Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng

Flokkað í

Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.

Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil

Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að samningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda drögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA og bíða niðurstöðu áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn fyrirtækisins. Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði – fundur Landsvirkjunar

Flokkað í

Landsvirkjun boðar til fundar um tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Sérþekking á orkumálum hér á landi er nú með því mesta sem þekkist í heiminum og sífellt koma fram nýir aðilar sem byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem safnast hefur á liðnum áratugum. Fundurinn verður haldinn miðvikudagsmorguninn 21. október á Hótel Natura. Sjá dagskrá og skráningu hér á vef Landsvirkjunar.

Búrfellsvirkjun stækkuð um 100 MW

Landsvirkjun hefur ákveðið að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og er áætlað að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Stækkunin mun nýta vatn sem í dag rennur framhjá núverandi stöð. Framhjárennslið er aðallega yfir sumarmánuðina og mun stækkunin því aðeins framleiða orku hluta ársins. Uppsett afl hennar mun hins vegar nýtast allt árið um kring til að auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins. Framkvæmdin fellur ekki undir rammaáætlun þar sem um stækkun virkjunar er að ræða. Þá er framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. úrskurði Skipulagsstofnunar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Boðaðar skerðingar á afhendingu dregnar til baka

Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka boðaðar takmarkanir á afhendingu rafmagns til viðskiptavina samkvæmt sveigjanlegum samningum í ljósi bættrar miðlunarstöðu eftir mikið innrennsli í miðlunarlón í september. Septembermánuður var mjög hlýr á landinu öllu og höfðu hlýindin mikil áhrif á innrennsli til miðlana. Miðlunarlón eru þó enn ekki full fyrir veturinn og veðurfar yfir vetrarmánuðina mun ráða því hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Ertu að leita að þessu?