Rafbílar eru mun orkunýtnari en olíudrifnir bílar og nota innan við þriðjung þeirrar orku sem núverandi bílafloti landsmanna notar. Þeir eru mun ódýrari í rekstri og væru hagkvæmari fyrir heimilin þrátt fyrir að allir sömu skattar væru lagðir á akstur þeirra og lagðir eru á bensín og díselolíu í dag. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á ársfundi Samorku.
Fréttir
Fréttir
Eru snjöll veitukerfi ákjósanlegur kostur?
Meta þarf kostnað og ávinning á ítarlegan hátt áður en ráðist er í að snjallvæða raforkukerfi landsins, eins og nágrannalönd okkar eru komin vel á veg í að gera samkvæmt tilskipun frá ESB. Snjallvæðing á að meðal annars að skila betri orkunýtingu, en óvíst er að fjárfesting upp á nokkra milljarða króna borgi sig vegna þess hversu ódýrt rafmagn er hér á landi. Þetta er á meðal þess sem kom fram hjá Jakobi S. Friðrikssyni hjá viðskiptaþróun OR sem hélt erindi um snjallvæðingu raforkukerfa á ársfundi Samorku.
Ályktun aðalfundar 2016
Á aðalfundi Samorku árið 2016 var ályktað að mikil tækifæri séu á sviði orkuskipta í samgöngum á Íslandi. Á grundvelli orkukerfisins á Íslandi, sem byggist nær eingöngu á endurnýjanlegum orkugjöfum, binda orku- og veitufyrirtæki miklar vonir við að skipta úr kolum og olíu yfir í orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita og raf- og vindorku. Einnig var ályktað um mikilvægi þess að fylgjast vel með þróun snjallkerfa, sem er yfirheiti yfir stafræna tækni til þess að auka meðal annars við valkosti neytenda, bæta rekstur veitukerfa og bæta orkunýtingu. Evrópskt regluverk kveður á um skoðun á innleiðingu slíkra kerfa en kæmi til hennar á Íslandi gæti hún falið í sér allt að átta milljarða kostnað. Á vettvangi Samorku er unnið að ítarlegri ábata- og kostnaðargreiningu.
Snjöll raforkukerfi og orkuskipti í samgöngum á ársfundi Samorku
Fjallað verður um snjöll raforkukerfi til framtíðar og fjölþættan ávinning af orkuskiptum í samgöngum á ársfundi Samorku, sem haldinn verður á Icelandair Hótel Natura (áður Loftleiðir) föstudaginn 19. febrúar 2016. Fundurinn er opinn öllum en tilkynna þarf þátttöku hér á vefnum eða með tölvupósti.
Þættirnir Orka landsins tilnefndir til Edduverðlauna
Þættirnir Orka landsins, sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni N4, hafa verið tilnefndir til Eddu verðlauna í flokki Frétta- og viðtalsþátta. Í þáttunum var fjallað á aðgengilegan hátt um vatn, raforku, jarðvarma og eldsneyti.
Græn raforka til áliðnaðar sparar yfir 6 milljónir tonna á ári í losun
Álframleiðsla á Íslandi, á grundvelli raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sparar á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem nemur um sex milljónum tonna af koldíoxíði, sé miðað við meðaltalslosun vegna raforkuframleiðslu í heiminum til álframleiðslu. Árleg heildarlosun Íslands er um 4,5 milljónir tonna. Sparnaðurinn nemur meiru en allri losun Íslands.
Fagfundur 2016 á Ísafirði
Fagfundur raforkumála Samorku 2016 verður haldinn á Ísafirði dagana 26. og 27. maí næstkomandi.
Ferðamenn boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku
Landsvirkjun hefur látið setja upp auglýsingaskilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku. Á vef fyrirtækisins kemur fram að samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hafi verið farsælt og að full ástæða sé til að telja að uppbygging ferðaþjónustu og orkuiðnaðar muni áfram geta orðið í góðri samvinnu, til hagsbóta fyrir báðar atvinnugreinar og Ísland. Minnt er á orkusýningar virkjana, Bláa lónið, Jarðböðin við Mývatn, Kárahnjúkastíflu o.fl. mannvirki sem alls hundruðir þúsunda heimsækja ár hvert. Einnig er minnt á niðurstöður í könnun Iceland Naturally um mjög svo jákvæð áhrif endurnýjanlegrar orku á ímynd bandarísks almennings af Íslandi og á líkur þess að þarlendir heimsæki Ísland. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
Norræna vatnsveituráðstefnan 2016 – Innsending ágripa úr erindum í fullum gangi
Fagaðilar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að senda inn erindi á Norrænu vatnsveituráðstefnuna, en innsending ágripa úr erindum fyrir ráðstefnuna er nú í fullum gangi og fer fram hér á heimasíðu ráðstefnunnar. Frestur til þess að senda inn ágrip úr erindum er 29. janúar – ef áhugi er fyrir því að senda inn ágrip úr erindi, en það næst ekki fyrir tímafrestinn, þá er hægt að láta vita af því í póstfangið sigurjon@samorka.is. Call for abstracts fyrir ráðstefnuna má nálgast það hér:
10. Norræna vatnsveituráðstefnan (The 10th Nordic drinking water conference) verður haldin á Íslandi í ár, dagana 28.-30. september í Hörpu. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og skiptast norðurlöndin á að halda hana. Í ár er hún skipulögð af Samorku í samstarfi önnur norræn samtök vatnsveitna. Á dagskrá verða erindi, vinnustofur, vísindaferð og fleira tengt öllum helstu málum er varða starfsemi vatnsveitna.
Græna raforkan gullkista Norðurlandanna
„Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja á hinum Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóða orkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku.