Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.
Sjá nánar á vef Orkustofnunar.
Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.
Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.
Hvernig er sjálfbærni metin? Um þá spurningu fjallaði Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins. Ragnheiður sagði sjálfbærnihugtakið til þess að gera nýtt og um væri að ræða leiðarljós í alþjóðlegri umhverfisumræðu. Raunar væri þessi íslenska þýðing á enska hugtakinu sustainability ekki sú besta, haldbær þróun hefði verið betri þýðing sagði Ragnheiður, líkt og fleiri hafa bent á.
Ítarleg sjálfbærniverkefni
Ragnheiður fjallaði um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda og tók fram að hægt væri að nýta þær á annan hátt, þ.e. ekki sjálfbæran. Ekki mætti því rugla þessum hugtökum saman. Hún sagði frá ítarlegu sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar í tengslum við byggingu rekstur Fljótsdalsstöðvar og álversins á Reyðarfirði. Einnig fjallaði hún um ítarlegt alþjóðlegt sjálfbærnimat – HSAP matslykilinn – sem m.a. hefur verið framkvæmt á Hvammsvirkjunarverkefninu og á rekstri Blöndustöðvar. Að HSAP koma m.a. World Wildlife Fund, Oxfam o.fl. aðilar, en í úttektinni skoraði Blöndustöð einna hæst allra aflstöðva sem skoðaðar hafa verið. Hvammsvirkjunarverkefnið skoraði einnig mjög hátt, en þar var bent á að þótt samráð og samskipti við hagsmunaaðila hefðu verið mikil þá hefði ekki verið um nægilega skipulegt ferli að ræða.
Ragnheiður sagði Landsvirkjun hafa dregið ýmsan lærdóm af þessum sjálfbærniverkefnum og nú væri t.d. skýrt verklag við alla vöktun umhverfisþátta og verkefnin ekki hugsuð jafn staðbundið og stundum áður.
Mælingar á sjálfbærni styrkja reksturinn
Ragnheiður sagði að lokum að hægt væri að mæla sjálfbærni. Hún grundvallaðist hins vegar á samráði, og mælingar og vöktun væru til þess fallin að styrkja reksturinn. Hún sagði sjálfbærnina því sjálfsagða.
Erindi Ragnheiðar: Sjálfbær þróun
Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur lengi fylgst náið með umræðum um loftslagsmál, haldið um þau fjölþjóðlegar ráðstefnur o.fl., einkum í tengslum við verkefni sitt Earth 101. Í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins fjallaði Guðni um hlýnun jarðar, súrnun sjávar, stóraukna orkunotkun mannkyns sem er langmest í formi jarðefnaeldsneyta, alltof hægt vaxandi hlut endurnýjanlegra orkugjafa o.fl. Guðni dró upp dökka mynd af stöðu og horfum í loftslagsmálum og mögulegum áhrifum yfirvofandi loftslagsbreytinga á líf jarðar.
Orkan og umhverfisumræðan
Þá fjallaði Guðni um hinu íslensku umhverfisverndarumræðu og hlutverk atvinnulífsins, ekki síst orkufyrirtækjanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu hafa skilað mörgu jákvæðu í gegnum tíðina. Hins vegar væri stóra verkefnið á sviði umhverfisverndar augljóslega á vettvangi loftslagsmálanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu iðulega skauta framhjá loftslagsmálunum. Sem slík væri hún því í raun tilgangslaus.
Guðni nefndi að margir talsmenn umhverfisverndar á Íslandi legðust gegn uppbyggingu orkuvera og orkukrefjandi iðnaðar. Hins vegar týndu sumir þeirra til ferðaþjónustuna sem einhvers konar valkost í staðinn, til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag. Þessi umræða skautaði hins vegar framhjá losun koltvísýrings frá farþegaflugi og öðrum samgöngum og færði þannig ábyrgðina einfaldlega út í heim, náttúruverndarbaráttan þar yrði að takast á við stóra verkefnið – loftslagsmálin.
Verkefni Íslands og orkufyrirtækjanna
Loks hvatti Guðni íslensk orkufyrirtæki til að setja sér skýra stefnu, manifesto, um það hvers kyns atvinnulíf þyrfti til að hér yrðu reistar frekari virkjanir. Ísland ætti að senda þau skilaboð að hingað gæti græn atvinnustarfsemi sem lítið eða ekkert losaði af gróðurhúsalofttegundum leitað til að fá aðgang að grænni orku. Guðni sagði Ísland vera of lítið til að geta breytt heiminum, en við gætum hins vegar sent út skýr og táknræn skilaboð sem mögulega hefðu jákvæð áhrif víða, og jafnvel laðað hingað í kjölfarið allt öðru vísi og hugsanlega verðmætari fjárfesta en við værum að gera í dag.
Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti Erindi Guðna Elíssonar, fyrri hluti (PDF 20 MB)
Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti (PDF 21 MB)
Orka náttúrunnar hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins, á umhverfisdegi atvinnulífsins sem SA, Samorka og önnur aðildarfélög SA stóðu að.
Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva og áform um frekari uppbyggingu þeirra, en í rökstuðningi dómnefndar segir að rafvæðing samgangna sé ein besta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Sjá nánar hér á vef ON.
Samtök atvinnulífsins, Samorka og önnur aðildarfélög SA standa fyrir umhverfisdegi atvinnulífsins á Hilton Nordica miðvikudaginn 30. september. Í sameiginlegri dagskrá verður m.a. fjallað um ábyrga nýtingu auðlinda og um Auðlindagarðinn á Suðurnesjum, auk þess sem veitt verða umhverfisverðlaun atvinnulífsins.
Í málstofu Samorku fjallar Guðni Elísson prófessor um umhverfissýn á tímum loftslagsbreytinga, Eðvald Sveinn Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis um veituþjónustu og matvælaframleiðslu og Raghneiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri Landsvirkjunar um mat á sjálfbærni.
Sjá nánar um dagskrá á vef Samtaka atvinnulífsins.
Föstudaginn 22. maí býður Landsvirkjun til opins fundar um hnattrænar loftslagsbreytingar og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra. Fundurinn fer fram í Hörpu og hefst kl. 8:30. Fundinn ávarpa m.a. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Björnsson veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands og Halldór Þorgeirsson forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
Orkuveita Reykjavíkur er á meðal þeirra sem tilnefnd eru til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Þema verðlaunanna í ár er losun gróðurhúsalofttegunda. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem sett hefur gott fordæmi með þróun vöru eða uppfinningar eða öðrum skapandi aðgerðum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til framtíðar. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur.