Stofnfundur Samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir
Samorka er stolt af því að vera eitt stofnfélaga að Samstarfsvettvangi um loftslagsmál og grænar lausnir, sem vinnur að því markmiði að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Auk þess verður unnið með fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði og einnig á samráðsvettvangurinn að styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.
Stofnfundur Samstarfsvettvangsins var haldinn 19. september og var húsfyllir á Grand hótel, eða um 200 manns. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði fundinn og sagði meðal annars:
„Í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda þurfum við að lágmarka kolefnisspor þeirrar vöru og þjónustu sem við bjóðum upp á, bæði hér heima fyrir og á erlendum mörkuðum. Samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um grænar lausnir er innblásinn af bjartsýnis- og sóknaranda gagnvart stórri áskorun og trú á nýsköpun.”
Mikil áhersla hefur verið lögð á loftslagsmál hjá orku- og veitufyrirtækjum landsins og hefur nýsköpun á því sviði vakið heimsathygli. Árið 2018 settu fyrirtækin fram sameiginlega yfirlýsingu á ársfundi Samorku um kolefnishlutlausa orku- og veitustarfsemi árið 2040, fyrst allra stórra atvinnugreina. Þekkingin, reynslan og metnaðurinn innan orku- og veitufyrirtækjanna koma því til með að nýtast vel innan Samstarfsvettvangsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði meðal annars í ávarpi sínu á stofnfundinum:
„Grænar lausnir spretta upp í fyrirtækjum landsins og skapa ómæld útflutningsverðmæti. Atvinnulífið styður eindregið markmið um kolefnishlutleysi hér á landi bæði með því að draga úr losun kolefnis og að auka bindingu þess í jarðlögum og gróðri.”
Að samstarfsvettvanginum standa forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, háskólar og Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja. Forstöðumaður vettvangsins er Eggert Benedikt Guðmundsson.