Raforkunotkun dróst saman
Raforkunotkun almennings árið 2016 dróst saman um 4,3% miðað við árið á undan. Þá dróst raforkuvinnsla einnig saman um 1,3% og töp við flutning raforku til almenningsveitna og stórnotenda minnkuðu um 3,1%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaði hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðuneytisins.
Orkuspárnefnd hefur tekið saman þrjár mögulegar ástæður fyrir samdrættinum á milli ára. Í fyrsta lagi var veðurfar gott árið 2016, en lofthiti í Reykjavík var 1,5 gráðu hærri það ár en árið 2015. Í öðru lagi var loðnuafli mun minni árið 2016 en á árinu á undan, en loðnuvinnsla krefst mikillar raforkunotkunar. Loðnuaflinn var 100 þúsund tonn í fyrra en var 350 þúsund tonn árið 2015. Í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavera yfir á flutningskerfið ekki fyrr en um mitt árið 2016, en var áður í dreifikerfi raforku.