Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið
Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun.
Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust.
Niðurstöður sýna að hlutfall hreinna rafmagnsbifreiða (BEV: battery-electric vehicle) og tengiltvinnbifreiða (PHEV: plug-in-hybrid electric vehicle) af bílaflotanum mun aukast á næstu árum. Hversu mikil aukningin verður er mjög háð ákvörðunum stjórnvalda og aðstæðum á markað, samkvæmt skýrslunni. Áhrif á afkomu ríkissjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða notaðar til að hafa áhrif á orkuskipti í samgöngum. Til skemmri tíma fylgir rafbílavæðingu kostnaður, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostnaður lendir.
Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir.
Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.
Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB)
Hér má sjá upptöku af fundinum: